Leiðari eftir Egil P. Egilsson


Egill P. Egilsson. Mynd/ Baldur Starri

Ég hef verið að vinna svolítið með kraftaverk undanfarið og á sama tíma orðið þess áskynja að ekki bera allir sama skynbragð á mátt þeirra. Því síður að fólk sé sammála um hvað þurfi til svo að eitthvað teljist til kraftaverka.

Fyrir ekki alls löngu var ég staddur ásamt eiginkonu minni og öðru góði fólki á einu af öldurhúsum bæjarins. Við vorum að gera okkur dagamun með því að fara út að borða með vinum og hlýða á góða tónlist en grænmetisbóndi nokkur austur úr Berufirði lék og söng nokkur frumsamin lög á kassagítar þegar maturinn var kominn niður.

Rétt áður en grænmetisbóndinn hóf tónleik sinn lenti ég á spjalli við vinafólk mitt sem bar mér ánægjuleg tíðindi frá sameiginlegu vinapari. Þau höfðu eignast lítið stúlkubarn, ég fékk að sjá mynd af kraftaverkinu af snjallsímaskjá og var að sjálfsögðu dolfallinn yfir fegurð þess.

Þegar við höfðum dásamað okkur um stund yfir þessum gleðitíðindum, breytti ég örlítið um raddblæ og tilkynnti að ég væri nú sjálfur með merkilegar fréttir (ég var þarna farinn að finna smá breytingu eins og konan mín) og bjóst til þess að draga upp mitt eigið símtæki. Það var strax kominn undrunarsvipur á vin minn sem síðan breyttist skyndilega í hneykslblendna forundran þess siðprúða þegar ég hikstaði því upp úr mér að ég og konan mín ættum reyndar líka von á stelpu í fjölskylduna. Hann gaut augunum í átt að konunni minni á meðan ég kveikti á snjallskermi símtækisins míns. Konan nikkaði til baka, örlítið glaseygð og með kæruleysisviprur í augnkrókunum. Hún lyfti stóru ölglasi og brosti sínu fegursta. Ég var þegar þarna var komið sögu auðvitað bara að stríða vini mínum sem leið strax betur þegar hann fékk að sjá mynd af tíkinni sem við fjölskyldan vorum að ættleiða og fáum afhenta innan skamms,- lítið kraftaverk sem hafði rataði til mín með hjálp góðs fólks eftir að fyrri eigendur skildu hana eftir á vergangi.

Óumdeilanleg kraftaverk

Á þriðjudagskvöld, skömmu áður en þessi orð eru rituð var ég á ritsjórnarskrifstofunni að ganga frá blaðinu og búinn að gera heimilis fólki mínu viðvart um að ég yrði líklega eitthvað fram á nóttina. Konunni minni varð því frekar bylt við um klukkan 21 þetta kvöld þegar hún var að svæfa syni okkar og varð vör við umgang á efri hæðinni. Hún sendi mér skilaboð og spurði hvort þetta væri ég, og hvað ég væri að bralla ef svo væri?

Ég sendi henni umsvifalaust skilaboð til baka þess efnis að ég hafi hreinlega verið tilneyddur að hlaupa heim til að ná mér af adrenalín-sjokki sem ég hafði orðið fyrir og sagði henni að kraftaverk hafi [þá] rétt í þessu átt sér stað. Ekki veit ég hvort konan mín taldi sér trú um það að ég hafi séð smiðssoninn frá Nasaret stíga niður frá himnum en ekki vantaði eftirvæntinguna í svip hennar þegar hún kom lafmóð upp stigann til að spyrja frekari frétta. Og ekki gaf hún mér beint sælusvip þegar ég tilkynnti henni að Liverpool væri komið í úrslit Meistardeildarinnar í fótbolta eftir að hafa unnið upp þriggja marka forskot Barcelona frá Camp Nou með fræknum 4-0 sigri á heimavelli sínum, Anfield.

Hún gaf mér illt augnaráð og sagði: „Nú? Það var þá Messi en ekki Messías sem féll niður úr himnaríki í kvöld.“