KREPPUM HNEFANA aldraðir og öryrkjar – Áfram nú!

Örn Byström, Einarsstöðum skrifar

@ichrisbox_in_swe via Twenty20

Kreppum Hnefana var góð yfirskrift hjá Verkalýðsfélaginu Framsýn, yfirskrift um baráttumál aldraðra og öryrkja sem haldin var á Fosshótel Húsavík.

Við aldraðir og öryrkjar getum EKKI setið lengur auðum höndum og látið V.G. Íhaldið troða lengur svona á okkur.  Við verðum að halda fána okkar hátt á lofti og láta hann blakta í mannréttindabaráttu okkar.  Að sitja og þegja er það versta sem við getum gjört.

Stjórnvöld tyggja á sömu lyginni aftur og aftur um það að við aldraðir og öryrkjar höfum aldrei haft það eins gott.  Fjármálaráðherra sagði í sjónvarpinu að 20.000 krónur sem við áttum að hafa fengið væri hlutfallslega mjög há hækkun hjá okkur. Semsagt hann hefir kr. 1.500.000 pr. mán. fyrir utan allskonar hlunnindi , ég hefi kr. 125.000 kr. pr. mán frá T.R. Samanlagt eru það 1.625.000 – þannig að hans útreikningur hljóðar uppá að við höfum samkvæmt hans áliti að jafnaði kr. 812.500 pr. mán. – svona fær hann út svonefnda  jafnaðargreiðslu og því miður hefir verkalýðshreyfingin gleypt þessi rök um jafnaðarkaup.

Eftir sem áður hefi ég ekki meira en 125.000 pr. mán. þrátt fyrir jafnaðarmennsku háttvirts fjármálaráðherra í útreikningi.
Það er náttúrlega með ólíkindum að V.G. velji sér mann sem fjármálaráðherra sem hefir fengið afskrifaða 131 milljarða. Í stjórn fyrirtækja sem hann hefir komið nærri. Hvað ætli margir aldraðir og öryrkjar gætu ekki lifað góðu lífi á þeim peningum í stað þess að þurfa að greiða þá fyrir hann og V.G.-Framsókn.

En félagar nú skulum við sameinast sem ein fylking hvar í flokki sem við stöndum. Tökum undir áskorun Félags eldri Borgara Húsavík og krefjumst kyrláts æfikvölds öllum til handa  en ekki bara fáum útvöldum af núverandi stjórnvöldum.

KREPPUM HNEFANA aldraðir og öryrkjar. Áfram nú.

Örn Byström /Einarsstöðum