Kvíði ekki vandamálið; heldur hvað gert er við hann

- Helgi Héðinsson sálfræðingur segir eðlilegt að finna til kvíða við ákveðnar aðstæður

Mynd: @JulieB/ Twenty20
Helgi Héðinsson, sálfræðingur.

Helgi Héðinsson hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða tengt líðan, starfsanda og samskiptum á vinnustað. Einnig hefur hann verið einn fárra sálfræðinga á Íslandi sem hafa lagt áherslu á íþróttasálfræði á undanförnum árum. Hann hefur hjálpað afreksíþróttafólki auk þess að hafa starfað fyrir fjölmörg íþróttafélög, komið þar að fræðslu og ráðgjöf um íþróttasálfræðitengd efni. Þá hefur hann verið hluti af fagteymi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

Blaðamaður Víkurblaðsins tók hann tali á dögunum og ræddi við hann um kvíða og streitu ungmenna sem vilja ná langt í íþróttum en Framhaldsskólinn á Húsavík og Völsungur gerðu með sér samkomulag fyrri skemmstu um aðkomu að sérstökum afreksíþróttaáfanga við skólann. Víkurblaðið fjallaði um samninginn í síðasta tölublaði.

Helgi sagðist fagna því að skólar og íþróttafélög sameinuðust um slíkt samstarf og bætti við að slíkir samningar væru að færast í aukana á höfuðborgarsvæðinu og í sveitafélögum þar í kring. Hann dregur fram forvarnir og fræðslu sem mikilvæga þætti í slíkri vinnu

„Það er almennt séð ágætt að þessi valkostur sé í boði en aðalmálið er forvörnin og fræðslan,“ segir Helgi og leggur áherslu á mikilvægi heilbrigðrar sjálfsstyrkingar hjá ungmennum m.a. með fjölbreyttum fyrirmyndum svo krakkarnir reyni ekki um og að eltast við að líkjast sömu hetjunni“. „Það þurfa t.d. ekki allir strákar í fótbolta að reyna vera eins og Gylfi Sigurðsson. Krakkar eru ólíkir og það leggja ekki allir sama skilning í það hvað er að vera afreksmaður. Það er mjög jákvætt að það sé verið að skapa einhvern ramma utan um þetta en svo skiptir mestu máli hvað er gert innan þessa ramma. Hvernig verður þessum áföngum og þessari fræðslu háttað.“

Helgi segir að mikilvægt sé að krakkarnir læri snemma að gera raunhæfar kröfur til sjálfs síns. Fátt sé verra en að festast í hugsunum um að ná fullkomnun í sinni frammistöðu. Það auki líkur á því að kvíði ágerist og getur valdið því að öll orka og einbeiting fari í það að forðast að gera mistök. Hann tekur sérstaklega fram að kvíði sé þrátt fyrir allt eðlilegur, bæði innan íþrótta og í lífinu almennt. Helgi kallar eftir aukinni fræðslu um kvíða og stress í grunn- og framhaldsskólum.

„Það er ekki verið að stíla nógu mikið á forvarnafræðslu hjá yngri krökkum og á framhaldsskólastigi. Ekki endilega um þunglyndi og kvíða heldur almennt um þessa þætti eins og tengsl hugsana og líðan. Það þarf líka að normalísera kvíðann. Það er stundum verið að sjúkdómsgera hann full mikið. Við þurfum að koma því snemma inn hjá krökkum hvort sem þau stefna á afreksíþróttir eða ekki að allar þessar tilfinningar eru eðlilegar. Þær eru ekki vandamálið í sjálfu sér, heldur miklu frekar það hvernig við túlkum og bregðumst við þeim,“ útskýrir Helgi og bendir á að í umræðu um kvíða sé oft gert of mikið úr honum, að fólk telji eitthvað vera að sér um leið og það finni fyrir þessum tilfinningum.

„Stór hluti af fræðslu og meðferð við kvíða felst í því að leiðrétta þennan misskilning og koma því inn hjá skjólstæðingnum að það sé ekki endilega neitt að viðkomandi þó hann sé með kvíða. Viðbrögðin við kvíðanum geta aftur á móti orðið að vandamáli. Sérstaklega ef kvíðinn veldur því að viðkomandi fer að koma sér undan áskorunum lífsins eða draga sig í hlé eða eitthvað slíkt. Við leggjum mikla áherslu á það við íþróttakrakkana þegar við tölum um kvíða og stress að íþróttafólk sem er á toppnum í  sínum greinum og er að keppa á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum. Það fólk er einnig að kljást sömu tilfinningar, sama kvíða og sama stressið. Þetta íþróttafólk er bara búið að ná betri tökum á tilfinningunum, náð að virkja þær og beina þeim í réttan farveg,“ útskýrir Helgi og bætir því við að flestir íþróttakrakkar sem hafa leitað aðstoðar hjá honum geri það til að losna við kvíða.

„Þar strax er komin inn ákveðin villa eða röng forsenda. Þau virðast halda að vandamálin liggji þarna og um leið og þau hafi losnað við þessar tilfinningar þá fari þeim að ganga betur. Ég þarf að byrja á því að leiðrétta það. Enda sé ég oft hjá þessum krökkum að kvíðinn hjá þeim sem tengist íþróttinni hann er líka að finna á öðrum sviðum lífsins. Annars vegar eru það krakkar sem eru leitast við að ná góðum árangri í skóla og gera mjög miklar kröfur til sín þar, það á það til að verða að eins konar fullkomnunaráráttu og hins vegar eru það krakkar sem finna fyrir kvíða í félagslegum aðstæðum.“

Íþróttir sem forvörn

Í umræðum um íþróttastarf er gjarna minnst á forvarnargildi íþróttanna gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu ungmenna. Helgi tekur heilshugar undir það sjónarmið og segir jákvætt að heyra að fókus verði á forvarnarstarf í sambandi við afreksíþróttaáfanga FSH og Völsungs. Hann bendir einnig á það að vandasamt geti verið að móta og framfylgja forvarnastefnu. Áður fyrr hafi áhersla verið meiri á boð og bönn sem geti haft þær afleiðingar að krökkum sem hættara er við að leiðist út í neyslu séu gjarnan útilokaðir frá íþróttaiðkun. „Út frá forvarnahlutverki íþróttanna er mikilvægt að sameina þessa afreksstefnu og forvarnastefnuna og gæta þess að styrkja ekki bara þá sem eru sterkir fyrir heldur að styrkja þá sem þurfa þeim mun heldur á því að halda því auðvitað eiga íþróttir að vera fyrir alla,“ segir hann.

Þekkt er að skólar og íþróttafélög hafi gert samninga við nemendur og iðkenndur um vímuleysi og að halda sig frá tóbaki. Krakkarnir fái síðan einhverja umbun fyrir að standa við samninginn. Helgi bendir þó á að rétt sé að fara varlega þegar slíku er hrint í framkvæmd, mikilvægt sé að allar skilgreiningar séu skýrar því annars er hætt við því að ósamræmi verði á því hvernig tekið sé á brotum en hann varar við því að beita refsistefnu í forvarnastarfi. „Það skiptir langmestu máli að vera með jákvæða stefnu. Þ.e. að skilgreina hvað er æskilegt frekar en að leggja áherslu á það sem er óæskilegt. Það hefur almennt reynst betur út frá þessum uppbyggingar og sjálfsstyrkingar fasa. Þarna á áherslan að liggja að öllu leyti,“ segir Helgi að lokum.