Kyrrþeyr treður upp í fyrsta sinn á Skjálfanda listahátíð

Skjálfandi listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudaginn 17. maí.

Þetta er í 8. sinn sem Skjálfandi listahátíð er haldin í Norðurþingi, og er hátíðin samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina þar sem heima- og aðkomufólk leiða saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í samkomuhúsinu á Húsavík.

Yfir 50 listamenn taka þátt að þessu sinni en fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Tónlist, myndlist, gjörningar og vídeólist er meðal þess sem gestum verður boðið upp á.

Víkurblaðið í samstarfi við Skjálfanda listahátíð kynnir þátttakendur en nú er komið að glænýrri húsvískri hljómsveit – Kyrrþeyr en hljómsveitin þreytir frumraun sína á hátíðinni.

Í lýsingu um hljómsveitina segir:

Eftir að hafa hugsað um það í nokkur ár, ákvað Andres Olema, kennari í Tónlistarskóla Húsavíkur að útvega sér óvenjulegt strengjahljóðfæri sem kallast „mandocello.“ Um er að ræða risastórt mandoín með sellóhljómi.

Stuttu síðar fluttu tveir af bestu vinum Andresar til Húsavíkur, þeir Ervin Sokk og Piret Pajusaar og fóru einnig að kenna í Tónlistarskólanum. Þremenningarnir fengu Gunnar Illuga Sigurðsson í lið með sér og stofnuðu hljómsveitina með það í huga að sjá hvað gerðist ef hljóðfærið væri notað í rokktónlist með hefðbundnum bassa, trommum og hljómborði. Sú tilraun er hljómsveitin Kyrrþeyr.

Hljómsveitarskipan:

Piret Pajusaar – Söngur, hljómborð
Andres Olema – Mandocello
Gunnar Illugi Sigurðsson – Trommur
Ervin Sokk – Bassi