Blaðamaður Víkurblaðsins fékk í vikunni boð frá Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík í grillveislu á útivistarsvæði við Sprænugil sem leikskólabörn hafa nýtt fyrir útvist undan farin ár og kalla Holt.

Í Holti mætti blaðamanni fríður hópur barna og fullorðinna, þarna voru saman komin nemendur og starfsfólk Grænuvalla ásamt 14 manna hópi Frakka sem var í námsheimsókn á Húsavík.

„Já við erum með kennara og skólastjóra frá Frakklandi í heimsókn. Við erum að fara læra hvert af öðru, þau koma hingað til Íslands og aðrir hópar af leikskólakennurum fara til Frakklands síðar,“ segir Helga Jónsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri Grænuvalla.

Helga Jónsdóttir, aðstoðar leiksskólastjóri Grænuvalla og kennari i Jákvæðum aga. Mynd/epe

Eitt af því sem Frakkarnir eru að kynna sér er það sem nefnt hefur verið „Jákvæður agi“ en Grænuvellir hafa tileinkað sér hann á undanförnum árum.

„Jákvæður agi er í raun aðferð sem gengur út á góðvild og festu í öllum samskiptum. Hvort sem það eru samskipti við börn eða á milli fullorðinna. Við erum að tala um alls konar

aðferðir og verkfæri sem við notum, því við trúum því að það sem börn þurfa númer eitt, tvö og þrjú er að finna að þau skipti einhverju máli hvert fyrir sig. Við vinnum út frá því. Það er opinber stefna Norðurþings að vinna eftir jákvæðum aga og það er uppeldisstefnastefna sem við vinnum eftir í leik- og grunnskólunum,“ útskýrir Helga.

„Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleikni í starfsmanna- og barnahópnum. Með Jákvæðum aga verður til samband væntumþykju og virðingar sem á að auðvelda okkur að finna lausnir til frambúðar.  Hann byggir á kennslu, skilningi, hvatningu og samskiptum en ekki refsingum“ 

Helga segir að upphafsmaður jákvæðs aga heiti Jane Nelsen og hún hafi þróað þessar  aðferðir frá austurískum sálfræðingum sem voru uppi í kringum 1900. „Þetta snýst um það að við skiptum öll máli og viljum að það sé komið fram við okkur af virðingu og við lítum alltaf á það hvað er á bak við hegðun hjá börnum, hvað getur útskýrt hegðunina og reynum að finna lausnir,“ segir hún.

Eitt af því sem hefur gefist vel í tengslum við innleiðingu á jákvæðum aga eru svo kallaðir barnafundir en á þeim fá börnin sjálf tækifæri til að láta rödd sína heyrast, koma á framfæri því sem þau eru ósátt við og leggja fram tillögur að lausnum. „Þetta er bæði gert til að auka sjálfstraust meðal barnanna og til þess að auka lýðræðisvitund þeirra,“ segir Helga og útskýrir með stolti hvernig börnin hafa nálgast ákveðið vandamál sem komið hefur upp í sambandi við útivistarsvæðið Holt. Þannig er mál með vexti að borið hefur á skemmdarverkum í skjóli nætur, hávaða og almennum sóðaskap á svæðinu og hafa nágrannar kvartað sáran til sveitarfélagsins. Helga segir að það sé raunveruleg hætta á því að sveitarfélagið neyðist til að fjarlægja grill og annan búnað til þess að koma í veg fyrir þá truflun sem íbúar í nágrenninu verði fyrir en hún segist þó vona að ekki þurfti að koma til slíkra aðgerða.

Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir, skólastjóri Grænuvalla er verkleg á grillinu. Hún segir að aðstaðan sem sveitarfélagið býður upp á í Holti sé frábær og lífsgæðaaukandi fyrir börnin. Hana hryllir við tilhugsuninni að örfáir skemmdarvargar verði til þess að fjarlægja þurfi aðstöðuna. Mynd /epe

„Börnin ræða þetta mikið og tala bara um að það verði að finna lausn á þessu. Þau dvelja ekki við að það sé búið að skemma eitthvað eða það sem búið er að gerast heldur vilja þau finna lausn á vandanum,“ segir Helga að lokum.

Nemendur á Grænuvöllum eru með fasta gæðastund á degi hverjum sem þau nota í hvíld. Sumir slaka á og láta hugann reika, aðrir loka augunum og fá sér blund. Nokkur bananna ´í Holti héldu þennan sið heilagan, þó þau væru í útivist. Mynd/ epe