Egill P. Egilsson, ritstjóri.
Ljósmynd: Baldur Starri

Annan hvern þriðjudag er ég varla viðræðuhæfur, hálf manískur, úfinn yfir kollvikin,  illa til hafður og tauta jafnvel einhverja vitleysu fyrir munni mér. Við erum að sjálfsögðu að tala um „DeadlineDay“ Víkurblaðsins þ.e. síðasti dagurinn sem ég hef til að vinna efnið í blaðið og setja það upp með ómetanlegri aðstoð frá hönnuði og umbrotsmanni blaðsins Röðli Pú, það gera sér ekki nógu margir grein fyrir því að ég væri löngu hættur þessu ef ekki væri fyrir markvarðar-goðsögnina af 78‘ árgangnum.

Á þessum annasömu dögum fer heilinn í mér á yfirsnúning, verður afar frjór og hraðvirkur en ég gleymi því stundum að ég er farinn að hugsa upphátt þegar ég er að reyna sjá fyrir mér útlit greina, orðafjölda sem þarf til að fylla upp í ákveðin pláss, hverju ég þarf að sleppa og hvað þarf að endurskrifa og allt þar á milli. Á sama tíma er auðvitað allt áreiti í hámarki, fjöldi tölvupósta og símtala sem þarf að svara og oft hægara sagt en gert að halda einbeitingu.

Þá getur verið gott að stíga niður á andlegu kúplínguna, setja á sig heyrnartól með góðri tónlist sem bit er í,- Rachmaninoff eða Dead Kennedy‘s t.d., labba út og hreinsa hugann. Aldrei hefur þessi hugleiðsla mín verið árangursríkari en þennan þriðjudaginn er ég arkaði út í steikjandi síðvetrarsólina með Slayer á fullu blasti í tónatólunum. Hitti mann og talaði við hann um Liverpool á meðan ég roðnaði á kollvikunum.

Stuttu síðar áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert borðað frá því daginn áður og ákvað því að ná mér í vefju á veitingastaðinn Lókal sem er staðsettur í gamla sláturhúsinu niðri á bryggju á Húsavík. Vefjuna tók ég með mér og hélt á fund konu minnar, svona rétt til að kasta á hana kveðju vitandi það að ég ætti eftir að verja nóttinni á skrifstofunni.

þessu varð ég bara að koma að

Á stuttum fundi mínum við konuna, spurði ég hana út í hvernig hún væri að vinna á n.k. mánudag [á morgun] en hún er hjúkrunarfræðingur í vaktavinnu og ég get ekki lagt vaktirnar hennar á minnið dagpart fram í tímann,- ekki þótt lífið lægi við.

Aldrei þessu vant sagðist hún ekki vera með það á hreinu og þá lyftist á mér brúnin. Ég nefnilega var ekki að spyrja að þessu út í loftið. Á mánudag er afar sérstakur dagur og ég ákaflega stoltur af sjálfum mér að muna eftir honum án þess að nota snjalltækni nútímans. Svipur spúsu minnar benti aftur á móti til þess að hún væri ekki með á nótunum. „Nú af hverju spyrðu?“

– Tja, það er 15. apríl á mánudaginn,‘ segji ég þá.

Og enn, var kona mín eins og gapuxi í framan…

Það var ekki leiðarahöfundur sem flippaði yfir sig til að fagna vori og tímamótum í hjónabandi sínu með þyrluflugferðum. Þarna eru vellauðugir Rússar á ferð sem höfðu tekið sér þyrlu á leigu svona rétt sísvona til að skreppa í Sjóböðin fyrir hádegi og ná svo að máta buxur í Garðarshólma eftir hádegið. Mynd:epe.

„Við giftum okkur á þessum degi fyrir tveimur árum síðan,“ sagði ég þá og gat ekki á nokkurn hátt leynt gleði minni yfir þessu. Þarna fannst mér ég vera kominn með skotsilfur sem ætti að duga mér út úr hverju því klúðri sem ég á líklega eftir að rata inn í í þessu hjónabandi. Og seint mun ég gleyma svipnum á konunni og vantrúna í rödd henna. „Manst ÞÚ það?“

Þessi saga hefur ekki neinn tilgang, ég gat einfaldlega ekki annað en hrópað þetta út í kosmósið. Þetta varð að koma fram.


EF þú býrð á dreifingarsvæði Víkurblaðsins getur þú fengið Víkurblaðið frítt inn um lúguna,- en það er ekki ókeypis að búa það til,- þú getur hjálpað okkur að tryggja frjálst aðgengi að gagnrýnni umræðu og vandaðri blaðamennsku með því að ganga til liðs við ört vaxandi hóp VAL-ÁSKRIFENDA. Smelltu HÉR til að greiða í netbanka. Smelltu HÉR til að greiða með korti.

Egill P. Egilsson

ritsjóri