Ljósmynd: jyoast2000 via Twenty20

Kristján Pálsson skrifar


Eins og margir vita hef ég undanfarið hálft annað ár óskað aðgerða af hálfu Norðurþings til lækkunar umferðarhraða við efri hluta Uppsalavegar. Við götu þessa er nýliðun hafin hvað íbúa varðar. Börnum fjölgar, umferðarhraði eykst og þar með slysahætta af hans völdum. Ég hef sent Norðurþingi erindi með þessari ósk minni auk nokkurra greina í Skarpi. Svo kom að því að Byggðaráð samþykkti erindi mitt, en „ekki er sopið kálið“. Breytir þar litlu hvort æðsta stofnun sveitarfélagsins hefur samþykkt framkvæmdina og það innan ákveðinna tímamarka. Samþykkt þessi laut að því að 15. september 2018 yrði komin hraðahindrun á götuna.

Í gegn um tíðina hefur andað heldur köldu frá sumum starfsmönnum Norðurþings gegn uppsetningu hraðahindrana. Hvernig  þeir hins vegar með skikkanlegum kostnaði telja að  vinna megi  gegn hraðakstri um íbúðargötuna Uppsalaveg veit ég ekki, en kannski er þeim bara alveg sama?  Þó varð ánægjuleg breyting eftir að Byggðaráð kom að þessu máli á síðasta ári eins og ég gat um hér að framan. Þá hins vegar brá svo við að einn lykilstarfsmanna bæjarins sem sjá átti um uppsetningu samþykktrar hraðahindrunar á Uppsalaveg fór að haga sér undarlega. Ég vissi þá ekki það sem mér síðar var sagt að með háttalagi mínu væri ég kominn að sjálfum Versölum Sólkonungsins. Sökum smekks af viðkvæmara taginu ætti hann um það síðasta orð hvort eða hvenær hindrun þessi verði sett upp. Hér er átt  við bæjarverkstjóra. Sá virðist hafa góða reynslu af því að ganga í berhögg við samþykktir Byggðaráðs þegar honum sýnist svo. Ég hélt samt að svona höguðu sér bara afglapar. Trúi ég því tæplega að svona nokkuð sé yfir höfuð liðið í rekstri sveitarfélags án einhverra eftirmála, því þetta minnir á losaralegt stjórnkerfi sumra þróunarríkja þar sem pótintátar ýmsir af ódýrara taginu leika lausum hala.

Sá tími sem ég hef nuddað í þessu hefur um margt orðið mér lærdómsríkur, því það sem ég taldi mig vita  um stjórnkerfi Norðurþings vissi ég í raun og veru ekkert um. Þegar ég í barnaskap mínum stóð með samþykkt Byggðarráðs í höndum taldi ég að nú yrði hafist handa við uppsetningu marg umræddrar hraðahindrunar á Uppsalaveg efri. Svo lengi lærir sem lifir.

Í stað þess að setja upp hraðahindrunina sem Byggðaráð samþykkti, leið nú langur tími  þar sem bæjarverkstjóri dró lappirnar allt hvað af tók.  Mér gramdist  og mér runnu til rifja kjánaleg fjörbrot hins heimaríka  starfsmanns okkar. Mér finnst satt best að segja eðlilegt  að fólk í mínum sporum bæði  megi og geti  reiknað með því að Byggðaráð hafi komið samþykkt sinni í hendur þess er framkvæma skildi og efast  raunar ekki um það.

Að sjálfsögðu átti bæjarverkstjóri bara eina leið gagnvart þessu verkefni eins og öðrum slíkum: Að sjá til þess að uppsetning hraðahindrunarinnar yrði framkvæmd á þann hátt að ómeiddur kæmist hann frá því. Að því loknu og ef hann teldi þar með sæmd sinni misboðið gæti hann þegar heim er komið gripið til  gamla þjóðráðsins og sparkað í hundinn. Það hefur ýmsum gefist vel.

Sjá einnig: Forneskjulegar hraðahindranir eiga…

Nú er skemmst frá því að segja að þann 26. nóvember 2018, nærri 10 vikum eftir dagsetningu Byggðaráðs á verklokum   birtust hér fram undan húsi mínu við Uppsalaveg  starfsmenn áhaldahúss bæjarins  og settu upp hraðahindrun og voru fljótir að því. Þann tíma allan hafði enginn frá bænum samband við mig né nokkurn annan vegna ófyrirséðra tafa á uppsetningu. Slíkar tafir geta  komið fyrir og það skilja flestir. Heldur er þetta  hvimleiður umgengnismáti við þessar aðstæður.   Þó ég þekki ekki stjórnkerfi bæjarins eins og ég í upphafi taldi mig gera, mun ég  freista þess  að hugsa rökrétt og hér er niðurstaðan: Auðvitað var það bæjarverkstjóri  sem  að lokum hýða þurfti til verksins sem hann aldrei ætlaði að láta vinna.

Um það bil 20 metrum ofar við götuna lét hann menn sína setja upp merki um að hraðahindrun væri framundan eins og eðlilegt er, en enga aðra viðvörun. Og takið nú eftir: þeir merktu ekki hvar hraðahindrunin væri svo tækjastjórar ættu þess kost að lyfta tönninni á tæki sínu yfir hindrunina þegar unnið er að snjómokstri. Sá eiginleiki hefur þó um skeið verið til staðar í snjóruðningstækjum og þykir sá til þæginda. Eðli málsins samkvæmt gat enginn gefið starfmönnum Áhaldahúss fyrirmæli um þennan snautlega frágang annar en Bæjarverkstjóri.

Nýstárlegar leiðir hafa verið reyndar til að draga úr umferðarhraða eins og þessi þrívíða gangbraut á Ísafirði. Mynd: Bæjarins besta

Þremur dögum eftir þennan merkisatburð fór að snjóa og það talsvert. Undir snjófarginu kúrðu ómerktar hraðahindranir og biðu þar bráðfeigar  örlaga sinna, enda var þeim óðara sópað í burtu með snjónum. All sérstæð hirðusemi í meðferð fjármuna sveitarfélagsins hafði hér litið dagsins ljós, þó varla neitt sem ríður okkur að fullu, og hreint smáræði þegar þess er gætt að hér þurfti starfsmaðurinn  að þjóna lund sinni. Að það sé hins vegar veruleikinn  að ákalli um aukið umferðaröryggi í íbúðarbyggð skuli svarað á þann hátt sem ég hef hér gert að umræðuefni er að sjálfsögðu ekki í lagi. Hafi ég gleymt einhverjum eða haft  fyrir rangri sök sem fyrirmæli gáfu um þessi  vinnubrögð verð ég vonandi leiðréttur? Þarf virkilega enginn  að standa nokkrum reikningsskil gjörða sinna og ekki heldur að því er séð verður að gera sér þann  dagamun að skammast sín,  sem þó er öllum hollt sem til þess vinna?

Nærri má geta hvort viðhorf þess/þeirra til umferðaröryggis í þéttbýli  sem grein þessi snýst um hafi brýnt fyrir mönnum sínum að merkja staðsetningu fyrrnefndar hindrunar á Uppsalavegi. Nei, slíkt gæti orðið til þess að hún lifði veturinn af,  en hér skyldi  sýnt fram á  annað og með það að leiðarljósi var verkið unnið. Annars var sjálfur grundvöllur Nesjamennskunnar í bráðri hættu.

Upp úr áramótum   spurði mig einn starfmanna sveitarfélagsins  hvort ég væri nokkuð að missa trúna á mannkynið?  Þá lágu tætlur úr fyrrnefndri hraðahindrun í umkomuleysi á tvist og bast hér í götunni. Ég svaraði eitthvað á þá leið að ég væri aldrei alveg laus við trú á mannkynið, en af nýlega fenginni reynslu, síður á sumum persónum.

Það er flestu venjulegu fólki ljóst að veitu og fjarskiptafyrirtæki um land allt hafa frá upphafi merkt viðkvæma staði  þar sem strengir og aðrar lagnir liggja í jörð svo dæmi sé nefnt. Þetta er eins og flestir vita  gert svo öllum megi ljóst vera  hvað er framundan.

Sérkennileg er staða mín með baráttumál samþykkt og tímasett af Byggðaráði Norðurþings upp á vasann, sem þó dugar málefninu ekki til framgangs. Þess í stað  hefst hér aulaleg óhlýðni undirmanns við samþykkt þess. Með háttalagi sínu smánar hann samþykktir og ertir þann sem í barnaskap sínum vissi ekki annað en hér ríki nokkuð eðlilegt ástand.  Það þarf staðkunnugan mann til að lesa í kenjar af þessu tagi.  Þess vegna er það sem greinin hér á undan lítur dagsins ljós. Annað er mér ómögulegt.

Að framan sögðu velti ég því fyrir mér hvort smekkur undirmanna að viðbættum starfsaldri sé sú stærð að beri samþykktir Byggðaráðs ofurliði þegar svo ber undir? Kannski kjánaleg spurning af minni hálfu, og þó. Uppákoman sem Bæjarverkstjóri efndi til á Uppsalavegi í nóvember síðastliðinn styður vangaveltur af þessu tagi. Vegna  andstyggðar sinnar á verkefninu og meðvitað, skildi hann ekki hlutverk sitt og komst upp með það.

Sjá einnig: Ágreiningur um hraðahindranir

Að lokum þetta:

Við eðlilegar aðstæður ætti pistill af þessu tagi að vera óþarfur, en sá kantaði og leyfislausi yfirgangur sem ég hef lýst hér að framan er af því tagi að ekki verður við unað.

Kristján Pálsson