Víkurblaðið kynnir nýjan lið þar sem Þingeyingar nær og fjær verða í nærmynd með fjölbreyttum hætti. Magnús Halldórsson ríður á vaðið sem Þingeyingur í útlöndum og í næsta tölublaði verður aðfluttur Þingeyingur í nærmynd 

Þingeyingurinn Magnús Halldórsson kynnir „heimaborg” sína Seattle en þar hefur hann búið ásamt konu sinni Freyju V. Þórarinsdóttur frá því haustið 2016, eftir að hafa búið rúmlega 14 mánuði á Upper West Manhattan, New York og viðurkennir auðmjúklega að vera orðinn Kani.  Þau eiga tvo syni, Heimi Andra Magnússon og Halldór Elí Magnússon.

Seattle í roðanum

Magnús hefur starfað fyrir Kjarnann frá því í maí 2013, og er einn stofnenda þess fyrirtækis. „Hér úti ritstýri ég vikulegri útgáfu Vísbendingar, sem kemur til áskrifenda á föstudögum, en við keyptum þá útgáfu fyrir um ári síðan. Starfsemin hefur farið vaxandi, meðal annars útgáfa fréttabréfa á ensku, bæði daglegra og vikulegra. Fyrsta heila árið í hagnaði var í fyrra, og er fyrirtækið skuldlaust. Það er fínt að hafa einn erlendis, í litlu teymi, en við erum núna með sex starfsmenn, og allt í allt átta stöðugildi, með verktökum. Við fengum fjárfesta til liðs við okkur árið 2014, og stjórnarformaður félagsins er Hjálmar Gíslason, frumkvöðull, sem stofnað hefur sex fyrirtæki og selt þau, nú síðast Grid, sem vinnur að gerð hugbúnaðar sem tekur til breytinga á notkun Excel skjala. Ekki er útilokað, að Kjarninn hefji formlega starfsemi hér erlendis áður en langt um líður, og þá með ráðgjöf og þjónustu, meðal annars við útflytjendur frá Íslandi – sem eru stór hluti áskrifenda Vísbendingar. Seattle svæðið er orðið mikilvægt fyrir íslenskan útflutning, ekki síst eftir að Amazon keypti Whole Foods, sem hefur verið duglegt við að taka íslenskar vörur í sölu, meðal annars sjávarafurðir, skyr, lambakjöt og súkkulaði.

Freyja konan mín á og rekur fyrirtækið Gemmaq, sem safnar gögnum um kynjahlutföll í leiðtogastörfum skráðra fyrirtækja í heiminum, auk þess að greina samfélagslega ábyrgð skráðra fyrirtækja, eftir módeli sem hún á sjálf, og hefur fengið einkaleyfi fyrir á Bandaríkjamarkaði.

Fyrirtækið hjálpar notendum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkissjóðum, að gefa út svonefnd Gender Lens skuldabréf, sem eru vaxandi hluti af skuldabréfamörkuðum. Þau eru undirliður svonefndra grænna skuldabréfa. Breytingarnar má meðal annars rekja til sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna, og skuldbindinga kauphalla, sem hafa einsett sér að koma á jafnrétti á fjármálamörkuðum fyrir árið 2030. Það mun gerast í gegnum fjármagnsmarkaðina sjálfa, og til þess að ýta undir hraðari þróun, munu þeir sem sækja sér fé þurfa að kaupa gögn og greiningar, til að uppfylla fyrrnefnd skilyrði.

Fyrirtækið var formlega stofnað sumarið 2018, en má rekja aftur til 2015. Það hefur fengið 300 þús. USD fjármögnun, og er nú í fjármögnunarferli nr.2 , sem lýkur á vormánuðum. Því er ætlað að sjálfvirknivæða módelið, þannig að nöfn í Adobe skjölum og tilkynningum til kauphalla, séu sjálfkrafa kynjagreind, með notkun á Machine Learning og Neuro-linguistic Programming. Sá hugbúnaður gæti svo hjálpað til við ýmislegt annað. Hér á svæðinu er mikil þekking í hugbúnaðarbransa, sem hjálpar til.

Formlega hefur fyrirtækið síðan að selja aðgang að gagnabanka, á haustmánuðum, ef allt gengur upp, einkum varðandi ráðningar á starfsfólki. Eins og alltaf í frumkvöðlastarfsemi, þá snýst þetta um fífldirfsku, tímasetningar og dugnað, öðru fremur. Mikilvægasti hlutinn af öllum er að hlusta ekki á bölmóð, heldur halda fókus. (Þannig er þetta líka hjá öllum þeim fjölmörgu í Þingeyjarsýslu, sem djöflast áfram í eigin rekstri, svo það sé sagt. Það mætti oft bera meiri virðingu fyrir því, þó frumkvöðlaeðli sé reyndar mjög ríkt í Þingeyingum, þegar sagan er skoðuð.)

Við reiknum með að taka næstu 5 til 10 ár í að byggja þetta upp. Svo sér maður til hvernig ævintýrin koma að manni.“

Hvers vegna Seattle?

„Ástæðan fyrir því að við fjölskyldan búum hér, er sú að okkur líður vel hér og höfum komið okkur vel fyrir í útjaðri borgarinnar, í sveitarfélagi sem heitir Kirkland. Það er með tæplega 100 þúsund íbúa, og er í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Microsoft, þar sem starfa tæplega 50 þúsund tölvunördar við að búa til verðmæti úr „einhverju öðru“. Samfélagið allt er undir miklum áhrifum af þessari nálægð við höfuðstöðvar hugbúnaðarrisans. Stór hluti íbúa vinnur hjá Microsoft, eða í einhverju sem er skylt.

Magnús hér með Karli Hreiðarssyni á góðri stund í Seattle

Þetta er gott svæði fyrir frumkvöðlastarfsemi og þá sem vilja byggja upp fyrirtæki, þar sem hér er mikið af þekkingu á þeim hlutum, ekki síst því að fjármagna og „skala“ fyrirtæki frá grunni, og selja vörur og þjónustu í gegnum internetið. Þessi þekking hefur safnast hingað samhliða lygilegu uppgangstímabili og vaxtarskeiði hugbúnaðarfyrirtækja, með Amazon og Microsoft í fremstu víglínu, en líka mörg önnur stór fyrirtæki og sjóðir sem hafa komið sér hér fyrir. Þetta passar vel við það sem við erum að gera í vinnutengda lífinu.

Synir okkar hjóna, Heimir 12 ára og Halldór 7 ára, hafa það gott hér og líður vel í skólanum og á svæðinu, eins og okkur öllum. Allt annað er aukaatriði, þegar upp er staðið. Það tekur tíma að koma sér fyrir á nýju svæði – hvort sem það er stórborg í Bandaríkjunum eða Húsavík – og það er gaman að gefa þeim bræðrum tækifæri til alast upp í suðupotti eins og hér er. Skólastarfið er frábært, og undir miklum áhrifum af því að fólkið á svæðinu kemur úr öllum heimshornum, og er upp til hópa jákvætt og skemmtilegt, með alls konar áhugaverðar sögur í farteskinu.

Annað sem er heillandi við Seattle svæðið, er náttúrufegurðin. Þetta er óvenjuleg borg að því leyti, að hún er vaxin inn í skóg- og vatnslendi, með þrjá stórkostlega þjóðgarða í kringum borgina. Hér eru eldfjöll, jöklar og fjölbreytt dýralíf, í innan við tveggja tíma akstri frá borgarsvæðinu.

Dæmi um þetta eru Ólympíufjöllin. Franklin Roosvelt, Bandaríkjaforseti, heimsótti Ólympíufjöllin 1938, og kynntu fulltrúar átta ættbálka Indíána svæðið fyrir honum og fylgdarliði hans. Eftir heimsóknina kom hann í Hvíta húsið, og friðlýsti svæðið allt og gerði það að þjóðgarði. Gríðarlega stórt svæði. Washington ríki, í samstarfi við stofnun þjóðgarða í Bandaríkjunum og Indíána á svæðinu, hefur umsjón með svæðinu. Stórbrotið svæði, sem hefur verið á skrá UNESCO frá 1976.

Hvers saknar þú mest frá heimslóðum?

Ég sakna fjölskyldu og vina, fyrst og fremst, en líka náttúrunnar. Á sumrin gefst tími til að koma heim til Íslands, og njóta lífsins á Garðarsbraut, á ættaróðölum í Laxárdal, á Snæfellsnesi og vonandi náum við að komast í Fagradal á komandi sumri. Þegar maður býr í útlöndum, þá eru það þessi atriði sem verða ofar í huga manns, en áður.

Maggi þótti einhverntíma lunkinn í fótbolta og þykist geta kennt sonum sínum eitt og annað.

Ég reyni að svala aðeins þránni eftir að sjá Völsung spila, með því að horfa á flesta heimaleiki hér í beinni (og útileiki sem eru sýndir). Næ þeim snemma á morgnanna, set upp á tjald í garðinum fyrir stærstu leikina. Ævintýraleg spenna oft. Hápunktur síðasta tímabils var þegar Baldur [Kúta] breyttist í Baresi gegn Kára. Rosalegt.

Hverju mælir þú með fyrir aðra Þingeyinga sem eru að hugsa um að heimsækja borgina?

Á síðastliðnu ári komu nokkrir Þingeyingar hér í stutta heimsókn, og ég náði nú lítið að draga þau um svæðið. En á þeim seinniparti sem ég hitti þau fór ég með þau upp í hipster-a hverfið í West Seattle. Þar eru brugghús, plötubúðir og second hand verslanir vítt og breitt, og svolítið gamla Seattle. Lágstemmd hús, ekkert mjög ríkmannleg. En frábært hverfi. Heimavöllur grunge-ins.

Kalli Hreiðars kom hér einnig á mikilvægustu ráðstefnu í sögunni, og framlengdi dvölina örlítið. Ég fór með hann á helstu svæði, og meðal annars á hverfisbarinn, Thirsty Hop. Það er mikilvæg stofnun hér í samfélaginu.

Annars er ég á því að miðborgin sé skemmtileg, í stuttum stoppum. Pike Place Market er flottur, MoP safnið. Maður hefur ekki mikinn tíma til að kynnast borgum almennilega í stuttum heimsóknum, og þeim mun mikilvægara að taka miðborgirnar vel. Seattle miðborgin er þeim kostum gædd að vera lítil, og auðveld að fara um hana alla á einum degi.

Fyrir fólk sem stoppar aðeins lengur, þá er frábært að fara niður að vatni, og fara á kajak inn eftir vatninu á borgarsvæðinu, og skoða það þannig. T.d. framhjá Lake Union. Þar bjó Tom Hanks í flothúsi, í Sleepless in Seattle. Sumum finnst hún skemmtileg.

Aðeins nánar um borgina: Hagsaga þessa svæðis er stórmerkileg, því það eru ekki nema 30 til 40 ár síðan þetta var gamaldags bandarískt iðnaðarmannasamfélag, að stóru leyti. Boeing og herstöðin voru uppspretta alls í atvinnulífi, og þegar niðursveifla kom í rekstri hjá Boeing og í fjármagni hjá hernum, þá komu oft miklar og dramatískar dýfur hér. Menn á pickup, í alls konar brasi, voru algeng sjón (og er reyndar enn, en það er önnur saga).

Eftir ævintýralegan uppgang í hugbúnaðarbransanum – sem síðan hefur leitt til þess að flest stærstu tæknifyrirtæki heims eru hér með starfsemi – hafa komið nýjar stoðir undir hagkerfið. Við þetta hefur svo bæst, að höfnin og flugvöllurinn eru stórar og mikilvægar tengingar við bæði Asíu- og Evrópumarkað. Það er sirka jafnt langt frá Seattle til Tókýo og London. Uppgangurinn í Washington ríki er eitthvað sem ég hef átt erfitt með að útskýra vel fyrir fólki, en það kannski segir eitthvað að hér eru verðmætustu fyrirtæki heimsins með höfuðstöðvar og dýpstu rætur, með tilheyrandi margfeldisáhrifum, og líka að good old America er hér samofin, með stórum stofnbrautum og alls konar.

Seattle svæðið er heimasvæði þessa suðupotts. Bókin Idea Man sem kom út fyrir nokkru, um Paul Allen heitinn, annan stofnenda Microsoft, er skemmtileg fyrir þá sem vilja kynna sér hvernig þessi hugbúnaðarkafli borgarinnar hefur breytt henni.

Sumum finnst nóg um, þar sem það mikla ríkidæmi sem hefur fylgt þessum uppgangi hefur gjörbreytt samfélaginu, og sett marga innviði – eins og húsnæðismálaflokkinn og samgöngur – undir mikinn þrýsting. Umfang uppbyggingarinnar þessi misserin er gríðarlegt, meðal annars léttlestarkerfi sem mun tengja saman öll hverfi Seattle svæðisins. Microsoft kom því verkefni af stað með því að skuldbinda sig til að greiða 200 milljónir Bandaríkjadala í það. Það er klink fyrir fyrirtækið, þar sem það rekur strætókerfi í dag, til að koma starfsfólki til og frá vinnu, og milli húsa í höfuðstöðvunum.

Bræður á Spjör við Grundarfjörð, fjölskyldubústað

Eitthvað að lokum?

Ég vil kom hér að lífsmottói sem ég hef tileinkað mér, og reyni nú að fara eftir. Hvet Þingeyinga til hins sama. Takið eina tösku af jákvæðni með í allar ferðir, og aðra af þolinmæði. Gott er að hafa töluvert af góðu umtali um náungann, líka með í för. Svo ekki sé talað um húmor. Líklega er hann mikilvægastur af öllu. Svo er ég í ægilegu átaki núna – í byrjun árs. Ég held að ég sé sá eini bara, illa gott. Sjáumst í sumar.