Roller Derby - Ragnarök - Ice Sickie

Texti: Egill P. Egilsson

Ljósmyndir: Aðsendar

Viðtalið birtist fyrst í Víkurblaðinu #9 28.03.2019


Guðný Jónsdóttir kemur frá Árdal í Kelduhverfi en þegar hún bjó í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum langaði hana til að æfa fótbolta. Kaninn vildi hins vegar ekki leyfa of miklar snertingar í sportinu og því leitaði hún annað. Niðurstaðan varð íþrótt sem í fljótu bragði má lýsa sem slagsmálum á hjólaskautum. Guðný fann sig heldur betur í þessari íþróttagrein og gerði sér lítið fyrir og flutti hana með sér til Íslands, stofnaði deild og nú hefur greinin verið samþykkt inn í Íþróttasamband Íslands og fengið nafnið: Hjólaskautaat. Víkurblaðið ræddi við Guðnýju á dögunum um þessa sérstæðu íþrótt.

Landslið Íslands í hjólaskautaati. Mynd /aðsend

Guðný ólst upp í Árdal í Kelduhverfi en fluttist á suðvesturhornið til að leggja stund á nám, lauk framhaldskólanámi og síðan BA prófi til þroskaþjálfa  frá Kennaraháskólanum.

Þegar hún hafði lokið BA námi sínu fór hún á vegum AIESEC til Indlands. „Allir sem eru búnir með BA nám af einhverju tagi geta farið í svokallaða skiptivinnu. Þetta er með svipuðu sniði og skiptinám, nema maður fær vinnu við það sem maður var að læra. Ég fékk 6 mánaða starfsamning í skóla fyrir fatlaða í suður-Indlandi,“ útskýrir Guðný. Að því loknu ferðaðist hún um Indland í fimm vikur.

Elti ástina vestur um haf

Guðný segist hafa komið heim frá Indlandi með það í huga að taka því rólega. Hún hafi fengið vinnu á sambýli í Grafarvogi og ekki gert nein frekari framtíðarplön. „Þá kynnist ég manninum mínum, Reyni Ara Guðráðssyni. Við vorum ekki búin að vera lengi saman þegar hann fékk tilboð um að fara með vinnunni sinni til Atlanta í Georgíuríki í Bandaríkjunum en hann vinnur hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP.“

„Daginn sem ég komst í liðið hætti ég að reykja og hef ekki reykt síðan.“

Þau flytja vestur um haf í byrjun árs 2007 og planið var að dvelja þar í eitt ár. „Svo var þetta bara svo gaman og verkefnið hjá Reyni varð stærra í sniðum en upphaflega var gert ráð fyrir þannig að við vorum þarna í alveg sex ár og ég fékk, eftir smá basl með að fá atvinnuleyfi, vinnu í skóla fyrir fötluð börn.

Má ekki tuddast eins og heima

Guðný vildi finna sér áhugamál þar sem hún fengi  hreyfingu jafnt sem útrás. Hún byrjaði á því að æfa fótbolta með utandeildarliði á svæðinu en það var ekki eins og hún átti von á. „Bandaríkjamenn eru svo strangir á fótboltareglunum, það mátti ekkert tuddast eins og heima,“ segir hún og hlær. Dag einn var Guðný að kvarta yfir því við vinnufélagana hvað lítið væri varið í fótboltann en þá var henni bent á að hún ætti mögulega heima í Roller-Derby því þar mætti slást soldið.

VERTU MEÐ VÍKURBLAÐINU Í LIÐI

Guðný féll kolflöt fyrir íþróttinni strax og hún  þennan dag, bara við að heyra lýsingarnar. Í kjölfarið byrjaði hún að lesa sér til á netinu og komist að því að hún hefði tvo mánuði til stefnu til að ná næsta inntökuprófi (e. try out) fyrir lið á svæðinu. „Ég fór þá að skauta á fullu og komst inn í nýliðaprógram. Þetta voru fleiri ólík próf sem ég þurfti að ná en þessi íþrótt er svo vinsæl þarna á svæðinu að það er ekki sjálfgefið að komast í liðið þrátt fyrir að ná öllum prófum. Ég náði þeim öllum en þá tók við einhverskonar persónumat þar sem skoðað var hvernig ég myndi passa í ólíkar stöður. Ég komst inn en litlu munaði að mér yrði hafnað vegna þess að ég reykti,“ útskýrir Guðný og bætir við að Bandaríkjamenn líti orðið mikið niður á reykingar. „Daginn sem ég komst í liðið hætti ég að reykja og hef ekki reykt síðan.“

Guðsný í keppnisleik í Írlandi. Mynd: Nancy Geary.

Íþróttin hóf göngu sína árið 2002 í Texas og var lengi vel bara stunduð í Bandaríkjunum. Svo bættist Kanada í hópinn og nú er þetta komið út um alla Evrópu. Eins eru haldin heimsmeistarmót og komin landslið, íþróttagreinin nýtur sívaxandi vinsælda en er ekki komin inn á Ólympíuleikana.

„Roller Derby Ísland (RDÍ) var stofnað af Guðnýju ,,Ice Sickle’’ Jónsdóttur árið 2011, en hún hafði kynnst þessari spennandi íþrótt í Bandaríkjunum þar sem hún bjó og æfði með Atlanta Roller Girls“

„Ég stofnaði Roller Derby deild á Íslandi árið 2011 (RDÍ). Mér fannst þetta svo æðislegt að þegar ég var búin að stunda þetta í rúm tvö ár vildi ég prófa að setja þetta af stað á Íslandi, stofnaði Facebook-hóp í kringum það og fann fyrir miklum áhuga. Svo var ég í sumarfrí 2011 og þá ákvað ég að prófa að halda fund með stuttum fyrirvara á einhverju kaffihúsi og það hreinlega fylltist staðurinn. Deildin var því í raun stofnuð sumarið 2011 en ég flutti hins vegar ekki heim fyrr en árið 2013. Þannig að fyrstu tvö árin var ég ekkert með en var að leiðbeina stelpunum hér heima í gegnum tölvupóst,“ segir Guðný og hlær. „Þær vissu í raun og veru ekkert hvað þær voru að gera stelpurnar sem byrjuðu í þessu nema að þær voru að skauta en voru ekki beint að spila íþróttina. Svo þegar ég kem heim 2013 þá kemur á sama tíma stelpa sem hafði verið að stunda íþróttina í Þýskalandi og þá fór allt á fullt. Við vorum allt í einu með 15 stelpur sem voru búnar að vera leika sér í tvö ár og kunnu að skauta. Þess vegna var svo auðvelt að kenna þeim íþróttina,“ útskýrir frumkvöðullinn.

Guðný “Ice Sickle” Jónsdóttir.

Guðný viðurkennir að það hafi ýmsar hindranir verið í veginum sem hafi þurft að yfirstíga. Búnaður hafi t.d. ekki verið hægt að kaupa á Íslandi og það gekk ekki þrautalaust að fá inni í íþróttasölum. „Það héldu allir að við myndum rispa eða skemma gólfin. En við erum með sérstök hjól og hlífar þannig að við skemmum ekki neitt,- annað en handboltinn með harpexið sitt,“ segir hún ákveðin. „Til að gera langa sögu stutta þá tók þetta mjög langan tíma og fór hægt í gang. Auk þess vorum við eina liðið á Íslandi þannig að við þurftum að fara til útlanda að keppa eða fá útlend lið í heimsókn.“

Æft í bílakjallara

Eftir fyrsta opinbera fundinn hóf RDÍ að æfa í bílakjallara í miðbæ Reykjavíkur. „Fyrstu árin fóru í að ná undirstöðuatriðunum í því að hjólaskauta áður en hægt var að komast almennilega inn í íþróttina,“ útskýrir Guðný en árið 2014 fór ferðaliðið Ragnarök til Finnlands að keppa sinn fyrsta leik og hafa rúllað áfram síðan þá, með 4 heimaleiki að baki auk fjölda innandeildarleikja (e. scrimmages).

Árið 2016 var stofnað landslið Íslands í roller derby og í september var ferðinni heitið til Belgíu á Evrópumót. Kepptir voru fjórir leikir á einni helgi og að sögn Guðnýjar komu allir reynslunni ríkari heim.

Guðný viðurkennir að það hafi verið viðbrigði að stunda íþróttina á Íslandi eftir að hafa æft af kappi  í Atlanta þar sem lið voru á hverju strái og mikið keppt. Á meðan lengi vel voru einn til tveir leikir á ári hér heima. „Þetta er pínu flókið hérna. Við erum að lokka lið erlendis frá til að koma og keppa við okkur með því að bjóða þeim fría gistingu. Eins og t.d. um næstu helgi erum við að fá lið frá Þýskalandi í heimsókn. Þær eru fjórtán í liðinu og við líka svo þær gista bara heima hjá okkur en þurfa að borga sjálfar undir sig flug og annað uppihald,“ segir hún og bætir við að það hjálpi til að Ísland er vinsæll ferðamannastaður.

Hjólaskautaat fékk inngöngu í ÍSÍ

„Við erum orðin viðurkennd íþrótt á Íslandi og heitum hjólaskautaat en það er nýyrði yfir Roller derby á íslensku. Innganga í ÍSÍ (Íþróttasamband Íslands) strandaði meðal annars á því að ekki var til íslenskt heiti yfir íþróttagreinina. Þetta var ekkert smá flókið ferli og tók vel á annað ár. Við óskuðum að lokum eftir áliti frá Árnastofnun sem komst að þeirri niðurstöðu að hjólaskautaat væri rétta orðið fyrir þessa íþróttagrein. Þetta hefur verið mikill persónulegur sigur fyrir mig að komast inn í ÍSÍ  og ÍBR en lengi vel vildi engin taka okkur alvarlega. Þá er hólaskautaat-deildin á Íslandi einnig komin inn í WFTDA sem eru alþjóðasamtök greinarinnar,“ segir Guðný.

Guðný bendir á að þótt leikreglurnar sé kannski flóknar við fyrstu sýn þá sé ekki erfitt að læra leikinn. „Svo finnst flestum gaman að koma og sjá stelpur tuddast, þannig að jafnvel þó við fáum áhorfendur sem skilja ekki alveg reglurnar, þá koma þeir samt alltaf aftur,“ segir hún.

Hjólaskautaat er svokölluð jaðaríþrótt þar sem fimm skautarar spila saman í einu og keppt er á sporöskjulaga braut. Einn í liðinu er kallaður „Jammer“ og svo eru fjórir svokallaðir „Blokkerar“.

Jammerinn er með stóra stjörnu á hjálminum og skorar stig fyrir liðið sitt með því að eða skauta einum hring meira en mótherjarnir  í brautinni.  Blokkerarnir mynda veggi á brautinni til að koma í veg fyrir að Jammerinn úr hinu liðinu nái að komast að þeim og hringa þá. 

„Þetta er eiginlega bara kvennaíþrótt og alltaf verið talað um hana sem slíka. En síðustu ár hefur þetta aðeins verið að breytast. Það eru að koma blönduð lið og karlalið og meira að segja búið að stofna barnalið í einhverjum löndum. Þetta byrjaði samt upphaflega sem kvennagrein sem er frekar sérstakt, það eru ekki margar íþróttagreinar sem byrja sem kvennasport en það var eitt af því sem dró mig inn í þetta til að byrja með,“ segir Guðný að lokum.