Samkvæmt gögnum UNWOMEN hafa um 120 milljónir núlifandi stúlkna verið beittar kynferðislegu ofbeldi og þriðja hver kona í heiminum beitt kynbundnu ofbeldi. Bara í Bandaríkjunum voru yfir 1600 konur drepnar af karlmönnum, flestir makar eða fjölskyldumeðlimir skv. gögnum Women count USA.

Aðsend grein
Silja Jóhannesdóttir

Ég hef trú á því að heimur batnandi fer og þær byltingar sem hafa verið undanfarið séu að stinga á það kýli sem kynbundið ofbeldi er alls staðar í heiminum. Þó má aldrei hætta og ekki sofna á verðinum enda enn þá af nógu að taka til að leiðrétta.

Nú geta Húsvíkingar tekið þátt í einni byltingunni, Milljarði rís en það er árleg dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi. Milljarður rís er viðburður sem haldinn er víða um heim þar sem rúmur milljarður fólks dansar fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Milljarður rís fer fram á Fosshótel Húsavík þann 14. febrúar næstkomandi, korter yfir tólf á hádegi og mun Zumba hetjan Jóhanna Svava leiða dansinn.

Hér má sjá heimasíðu viðburðarins

Það er ömurleg staðreynd að konur um allan heim þurfa að þola óþolandi ofbeldi. Við mjökumst þó hægt og rólega í rétta átt og það verður ljósara með hverjum deginum að ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið.

Ekki missa af stærstu dansveislu heims – mættu og gefðu ofbeldi fingurinn enn einu sinni!