Blaðamaður Víkurblaðsins hitti Heron Oliveira í Framhaldsskólanum á Húsavík í vikunni þar sem síðarnefndi leggur stund á nám. Heron er frá Brasilíu en flutti til Íslands fyrir um ári síðan þegar foreldrar hans fengu vinnu hjá PCC á Bakka. „Allir útlendingar sem koma til Íslands til að vinna fara til PCC á Bakka,” segir Heron og brosir út í annað. 

Allir útlendingar sem koma til Íslands til að vinna fara til PCC á Bakka,

Heron bjó einnig í Aveiro í átta ár en það þótti skrásetjara blaðsins merkilegt því Aveiro var einmitt fastahöfn undirritaðs þegar hann stundaði millilandasiglingar á sínum yngri árum.  

Aðspurður segir Heron að Ísland sé afar frábrugðið því sem hann á að venjast frá heimalandi sínu og Portúgal, sérstakleg hvað veður varðar. „Ég er vanur hita nánast allt árið en hér er allt á kafi í snjó,“ segir hann og bendir forviða út um gluggann á snjóbingjurnar sem skafrenna vægðarlaust fyrir utan.  

Heron segir menningarheimana einnig ólíka og segist hafa þurft að venjast því að fólk sé mun lokaðra en hann þekkir frá Brasilíu og það eigi við um Evrópumenn almennt. „Þeir halda sig meira út af fyrir sjálfan sig, eða eru meira inn á við. Mér brá soldið við það í byrjun en svo vandist það,“ segir Heron en hann vill meina að honum hafi þó gengið mjög vel að aðlagast lífinu á Húsavík og hafi eignast fullt af vinum og bendir í kringum sig á nokkrar stelpur sem sátu með honum í sófa á gangi skólans því til sönnunar. 

Heron á einnig systur sem er í efsta bekk Borgarhólsskóla. „Hún hefur aðlagast nýjum heimkynnum vel, mun betur mér ef ég á að vera hreinskilinn. Hún talar íslensku miklu betur en ég,“ segir Heron en þau vinna bæði í Netto. Hann sér það líka fyrir sér að setjast að á Íslandi, hann sé að leggja stund á nám í verkfræði og segir möguleika sína til náms betri hér en annars staðar og ekki síður atvinnumöguleika ef iðnaðaruppbygging heldur áfram á svæðinu. 

/epe