Mývetningar mæla hamingju sína

Greinin birtist fyrist í Víkurblaðinu #4

Skútustaðahreppur
Mynd: Hörður Jónasson

Þekkingarnet Þingeyinga hefur tekið að sér skemmtilegt verkefni fyrir Skútustaðahrepp er snýr að því að mæla og auka hamingju íbúa sveitarfélagsins. Undanfarið hefur staðið yfir símakönnun meðal íbúa sveitarfélagsins en rannsóknin er liður í því að ná fram meðvitaðri ákvarðanatöku í átt að aukinni hamingju íbúanna.  

Rannsóknarsvið Þekkingarnetsins sér um framkvæmd og úrvinnslu könnunar þar sem faglegt teymi sér um öll gögn og meðferð persónulegra upplýsinga.
Sveitarfélagið vonast eftir að íbúar taki vel í þessa könnun til að svarhlutfall verði sem best og nýta megi upplýsingar íbúum til hagsbóta.   

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

„Þetta er verkefni sem Skútustaðahreppur biður okkur um að gera og við sjáum um framkvæmdina á. Það er verið að mæla ýmsa þætti er snúa að heilsu og vellíðan. Þarna er ætlunin að bera saman niðurstöður við könnun sem Landlækir lét gera. Þetta sýnir metnað sveitafélagsins til þess að finna út þau atriði sem sveitarfélagið getur bætt sig í,“ segir Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, sérfræðingur á rannsóknarsviði Þekkingarnets Þingeyinga. 

Gréta bendir einnig á að Skútustaðahreppur séu klárir sigurvegarar í nýrri mannfjöldarannsókn sem ÞÞ gerði opinbera nýlega. „Þarna er að eiga sér stað ótrúleg fjölgun á ungu fólki og börnum. Væntanlega eru heilsársstörf í ferðaþjónustu að skýra þessar tölur. Skútustaðahreppur er þarna að fara öfuga átt í mannfjöldakúrvunni miðað við önnur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum og færa sig í átt að aukinni sjálfbærni með því að fá inn fjölskyldufólk á barneignaraldri.“