Norðurþing gerir ekki þjónustusamning við Útlendingastofnun

Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík. Mynd/epe.

Á fundi byggðaráðs Norðurþings 21. mars sl. var tekin fyrir beiðni um forathugun á vilja ráðsins og sveitarstjórnar til að gera þjónustusamning við Útlendingastofnun vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Þjónustusamningurinn ætti að snúa að félagslegri þjónustu og stuðningi við umsækjendur um alþjóðlega vernd, á meðan þeir bíða niðurstöðu vegna umsóknar sinnar. Um er að ræða þjónustu eins og að veita umsækjendum húsaskjól, fæði og félagslegan stuðning.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, formaður byggðaráðs í fjarveru Óla Halldórssonar segir í samtali við Víkurblaðið að húsnæðismál á svæðinu komi í veg fyrir að sveitarfélagið geti farið í viðræður um slíkan þjónustusamning að svo stöddu. „Við viljum gjarnan taka þátt í að aðstoða en þurfum að geta mætt þeim kröfum sem eru í þessum samningum. Vonandi getum við skoðað þetta þegar niðurstaða kemst í húsnæðisverkefni okkar, Búfesta og Íbúðalánasjóðs,“ segir Kolbrún Ada.