Nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík

-Vonast til að ríkið taki ákvörðun innan skamms

Kristján Þór
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

Eins og fram kom á vef Rúv í dag liggja nú fyrir drög að samkomulagi á milli velferðarráðuneytisins og sveitarfélaganna um byggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík. Samkvæmt því sem kemur fram í frétt Rúv er um að ræða 54 rými sem koma í stað þeirra eldri sem í dag eru nýtt í Hvammi; húsnæði sem ekki var hannað sem hjúkrunarheimili heldur dvalarheimili. Aukinheldur verða í nýja hjúkrunarheimilinu sex ný rými. Hér er verið að tala um aukningu sem því nemur.

Að sögn Kristjáns Þórs Magnússonar, sveitarstjóra Norðurþings hefur Velferðarráðuneytið tekið verkefnið út og það sé aðeins tímaspursmál hvenær skrifað verði undir samkomulag. Heildarkostnaður er áætlaður 2,2 milljarðar og ber ríkið 85% kostnaðar og sveitarfélögin 15%. Kristján segist reikna með því að verkið taki 3-4 ár frá því að það hefst.