„Um fimm hundruð manns hafa skráð sig og bíla sína inn á vef Vaðlaheiðarganga.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í gær. Þar er jafnframt rætt við  Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga, þar sem hann lýsir því að vonir standi til þess að göngin verði opnuð fyrir umferð með seinnipartinn í dag eða kvöld. „Það er stöðugt verið í úttektum og að laga það sem þarf að laga. Fyrsta hugmynd var að klára eftir vinnu á morgun [það er í dag, föstudag] en það gæti verið að unnið verði fram eftir til að ná því,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið.

Þó enn séu göngin lokuð er óneitanlega gott að sjá 70 km til Húsavíkur á skiltinu. Mynd/Vaðlaheiðargöng

Á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganga var ritað fyrir skemmstu að lokafrágangur stæði nú yfir, en ekki fékk staðfest hvenær opnað verður fyrir almenna umferð. Síminn gangsetti í gær farsímasenda í Vaðlaheiðargöngum og er því nú komið bæði 3G og 4G farsímasamband í göngin sem auka ætti öryggi og ánægju allra sem fara um göngin. Þeir sem ekki eru í áskrift hjá Símanum með farsíma geta hringt í 112 úr símum sínum þó þeir séu almennt ekki á kerfum Símans.