“Opnaði augu mín fyrir mikilvægi þess að setja sig í spor annarra”

Eva Hjaltalín segir frá því sem hún er að lesa

Bókin mín

Eva Hjaltalín


Bókin sem ég er að lesa núna er Norma eftir Sofi Oksanen sem mér finnst stórgóð þar sem hún virðist vera samblanda af fantasíu, glæpasögu og samfélagsádeilu. Sofi er sérlega góður penni þótt ég viðurkenni að bækur hennar séu alls ekki að smekk allra.

Það eru ótrúlega margar bækur sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina og ég gæti nefnt fjöldamargar en sú sem ég ætla að minnast á er Brennu-Njáls saga. Ekki bara vakti hún hjá mér áhuga á fornbókmenntum heldur sýnir hún breyskleika mannsins mjög vel og hvernig fólk myndar sér mismunandi skoðanir á ýmsu eftir hugarástandi þess og hvar það er statt í lífinu. Það opnaði augu mín fyrir mikilvægi þess að setja sig í spor annarra áður en maður dæmir.