„Orðfimi höfundar er hér í hæstu hæðum“

Jóhannes Sigurjónsson segir frá bókinni á náttborðinu

Jóhannes Sigurjónsson, ritstjóri.

Jóhannes Sigurjónsson er ritstjóri Skarps en hann var einnig einn af stofnendum Víkurblaðsins fyrir 40 árum.

„Ég er að lesa Sextíu kíló af sólskini. Stórkostlegt verk eftir Hallgrím Helgason. Þarna toppar Grim sig, Höfundur Íslands var góð en þessi bók er enn öflugri og snilldarverk. Hún er svo frábærlega stíluð að það er örugglega ómögulegt að þýða hana svo vel sé á önnur tungumál. Orðfimi höfundar er hér í hæstu hæðum og nýsköpun málsins og ætli ég hafi ekki rekist á ein 150 samsett orð sem aldrei hafa áður verið rituð á íslensku, fyrir svo utan nýyrðin. Tær snilld, eins og Kristján frá Vegamótum myndi segja.

Bók sem enn situr í mér frá unglingsárum er Tortilla Flat eftir John Steinbeck. Ekkert meistaraverk en húmorinn og andrúmsloftið í verkinu svo notalegt og ljúft að þetta var og er yndislestur. Það rennur mikið rauðvín um síður þessarar bókar, en þrátt fyrir ítarlestur hennar tókst mér aldrei að ánetjast rauðvíni að ráði!

Bókin var held ég þýdd á íslensku en þýðinguna hef ég ekki lesið.“