„Pabbi hvenær koma páskarnir?“

Leiðari Víkurblaðsins #11

Súkkulaði Jesús

 Greinin birtist fyrst sem leiðari í Víkurblaðinu #11 fimmtudaginn 25. apríl.


Þegar þetta er ritað er fyrsti dagur vinnuvikunnar eftir langt páskafrí. Undanfarna tvo mánuði, eða allt frá því að páskaegg fóru að prýða hillur matvöruverslana, hef ég þurft að ganga í gegnum það að svara yngri syni mínum sömu spurningunni hvern einasta dag þegar ég skila honum á leikskólann. „Pabbi hvenær koma páskarnir?“ Hefur sá stutti spurt dag eftir dag. Og sama hvað svar ég gaf, þá voru viðbrögðin alltaf á svipaða lund; hann reyndi að prútta niður tímann fram að páskum. „Það eru tíu dagar fram að páskum,“ sagði ég við hann fyrir alls ekki svo löngu síðan. Þá setti sá stutti ævinlega á sig einbeitingarsvip hins íhugula, svaraði með miklum sannfæringakrafti og vonarglampa í augum: „En tvo daga?“

Já nokkurn vegin svona liðu dagarnir og vikurnar fram að páskum.

Nostalgía páskanna

Sjálfur hef ég alltaf verið mikill páskamaður en ég er sérlega mikill aðdáandi þess að eiga langt samfellt frí. Ég man líka vel eftir því sem barn hvað páskunum fylgdi mikil bið, því auðvitað var það í þá daga eins nú að ungviðið hlakkaði mest til þess að geta opnað páskaeggin sín á páskasunnudag. Ég er þó sannfærður um að biðin sé smáfólkinu léttbærari í dag en hún var mér. Föstudagurinn langi var nefnilega mjög langur í raun og veru enda ekki nokkur staðar opið, ekkert við að vera og það mátti helst ekki brosa. Sem betur fer fyrir mig sem foreldri er meira um að vera fyrir börnin nú til dags og nýtti ég mér það til fullnustu og fór í sund með strákana mína flesta daga páskahelgarinna.

Konan mín sem þurfti að vinna alla páskana fékk þá frábæru hugmynd að láta strákana leita að páskaeggjunum sínum á páskadagsmorgun. Það er eitthvað sem líklega hefði riðið mér að fullu í æsku minni ef slíkt hefði verið lagt á þolinmæðisrifin mín að þurfa eftir langa bið að leita að helvítis súkkulaðinu. Við létum þó á þetta reyna og konan hannaði einfaldan og skemmtilegan ratleik með vísbendingum. Það er óhætt að segja að leikurinn hafi slegið í gegn hjá drengjunum okkar báðum (5 og 7 ára) og fullvíst að slíkt verður endurtekið að ári. Þá verður jafnvel lagt meira í leikinn og ekki óhugsandi að hann verði færður út og um allan bæ.

 Gleðilegt sumar

Það leynir sér ekki að Víkurblaðið er með þynnra lagi í þetta sinnið en sökudólgurinn er fyrrnefnt páskafrí. Virkir vinnudagar voru einfaldlega ekki nógu margir til að vinna efni í fleiri síður. Ekki það að undirritaður sé feiminn við það að vinna á hátíðar og tyllidögum en þegar allir eru meira og minna í frí þá reyndist þrautinni þyngri að ná svörum við fyrirspurnum í tæka tíð eða að finna viðtalstíma sem hentaði fyrir viðmælendur og svo framvegis.

Svo spilar auðvitað líka inni í, svo ég væli nú aðeins að kostnaður við að prenta 8 síður er lægri en að prenta 12 eða 16 síður. Hingað til hafa auglýsingatekjur ekki dugað fyrir prentun og dreifingu blaðsins og Val-áskrifendur, þó þeim hafi fjölgað jafnt og þétt eru ekki komnir í þá tölu að rekstur Víkurblaðsins geti talist sjálfbær. Bjartsýnin er engu að síður til staðar ekki síst nú þegar vor er í lofti og dagatalið segir að nú sé formlega komið sumar. En ef þið viljið halda lífi í blaðinu með mér, þá er hægt að fara inn á vefinn vikurbladid.is og velja sér áskriftarleið og upphæð til að greiða með kreditkorti eða í netbanka, ég get haldið áfram með ykkar stuðningi svo lengi sem ég stend í lappirnar.

Gleðilegt sumar.

Egill P. Egilsson

ritstjóri