Í dag geta Raufarhafnarbúar gengið Ásgötuna án þess að leggja lífi og limi í hættu ásamt því að geta rúntað á bílum á malbikuðum plönum. Því ber að fagna og þvílík dásemd! Þess fyrir utan er Garðarsbraut á Húsavík nú orðin holulaus og tilfinningin að ganga um gangstéttir í Lyngholti gríðargóð. Rétt bráðum geta svo börn á öllum aldri rennt sér í rennibrautinni glæsilegu við sundlaug Húsavíkur og í heild hefur fjöldi framkvæmda í Norðurþingi þetta árið farið fram úr björtustu vonum.

Nú er búið að samþykkja að láta hanna göngustíginn Stangarbakkastíg og jafnframt farið að huga að því að sækja um styrki vegna göngustíga að Yltjörn og að iðnaðarsvæðinu á Bakka á Húsavík. Vinna við umhverfisstefnu sveitarfélagsins er í þann mund að hefjast. Sorphirðing og eyðing er í sífelldri endurskoðun og um þessar mundir er unnið að nýjum útfærslum varðandi sorpílát fyrir almenning. Þá var líka farið í umhverfisátak til að losna við rusl á almennum svæðum á austursvæði Norðurþings.

Ánægjulegt er að tekin hefur verið ákvörðun um að taka upp aðalskipulag Norðurþings og fer formleg vinna af stað á nýju ári. Aðalskipulag gefur færi á að marka stefnu til komandi ára um uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins. Segja má að í aðalskipulagi birtist best uppbyggingarstefna og framtíðarsýn hvers sveitarfélags. Því er afar mikilvægt að sem flestir komi að þeirri vinnu og verður víðtækt samráð haft í ferlinu.

Virk vinna er einnig í gangi við að finna fleiri fyrirtæki til að nýta hið góða iðnaðarsvæði sem er á Bakka. Einnig er verið að ganga frá samningi við Húsavíkurstofu sem mun styðja við fyrirtæki í ferðaþjónustu til heildarmarkaðssetningar. Þar fyrir utan er verið að vinna í smáum skrefum að því að undirbúa svæðið við Reyðarárhnjúk sem framtíðarskíðasvæði og loksins! loksins! er farið að vinna að því að ganga frá  Reykjaheiðarvegi. Nú hvet ég alla sem við veginn búa að þrýsta á sitt fólk í sveitarstjórn svo að vegurinn komist á framkvæmdaáætlun næsta árs!

Þetta er lítil innsýn inn í öll þau verkefni sem liggja á borði sveitarstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins. Það þarf hugrekki til að skilja á milli hvenær á að taka af skarið með verkefni sem eru kostnaðarsöm, umdeild eða erfið í framkvæmd að sama skapi er það súrt í broti að taka ákvörðun um að láta mikilvæg verkefni bíða til að halda sjó í rekstri. Trúið mér að það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað er flestum fyrir bestu.  Ég tel að við sem í sveitarstjórn, ráðum og nefndum sitjum gerum okkar allra besta til að skoða allar hliðar mála og taka ákvörðun svo að mál sitji ekki of lengi í kerfinu. Það er ekki alltaf það sem allir vilja eða kjósa helst en það er það hlutverk sem við vorum kjörin til.

Ákvarðanir sveitarstjórnar eru umdeilanlegar og gjarnan heyrast gagnrýnisraddir, sem er vel. Gagnrýnin skerpir okkur í vinnunni og minnir okkur á að rökstyðja og ígrunda vel allar ákvarðanir. Framkvæmdir hafa farið fram úr áætlun sem er tilefni til endurskoðunar á vinnulagi og áætlunargerð. Unnið er að bættum ferlum til að draga úr líkum á að slíkt gerist. Nýtt skipulag nefnda eða ráða sveitarfélagsins með vikulegum fundum býður m.a. upp á tíðari upplýsingagjöf um stöðu verkefna og bætta eftirfylgni af hálfu þeirra sem í ráðunum sitja.

Mikilvægt er að horfa til framtíðar, festast ekki því að gera hlutina eins og „þeir hafa alltaf verið gerðir“ og muna að þó eitthvað hafi verið gert rangt áður þá þarf ekki að halda því áfram. Okkar er valið og okkar er einnig valið hvort við horfum jákvætt eða neikvætt á verkefnin.

Áfram Norðurþing!

Silja Jóhannesdóttir, forman Skipulags- og framkvæmdaráðs