Prinsipp-Hetjur Meirihlutans……!!

Stefán Guðmundsson skrifar

Kæru Húsvíkingar og aðrir Þingeyingar – mér er bæði ljúft og skylt að upplýsa ykkur um þau mál er varða Flókahúsið og hinn alræmda hleðsluvegg sem hefur verið mikið í umræðunni síðustu mánuði.  Vinnubrögð vinabandalagsins og hins gjörspillta meirihluta sem kennir sig við prinsipp og þ.m.t. að hafa „allt uppi á borðinu“.  Helstu persónur og leikendur eru kjörnir fulltrúar sem virðast tilbúnir að höggva í okkur í Gentle Giants linnulaust; að skipulags & byggingarfulltrúanum meðtöldum.

Þeir sem hafa farið fremstir í þessum atlögum eru: Kristján Þór Magnússon oddviti meirihlutans og sveitarstjóri,  Örlygur H. Örlygsson forseti sveitarstjórnar og varaformaður skipulags og framkvæmdaráðs,  Óli Halldórsson form byggðaráðs, Silja Jóhannesdóttir form. skipulags og framkvæmdaráðs, Helena E. Ingólfsdóttir og Gaukur Hjartarsson skipulags og byggingarfulltrúi.

Ég hef áður látið það koma fram að oft á undanförnum 17 árum hefur reynst erfitt að glíma við sveitarstjórnir hvers tíma; en alltaf hefur náðst ásættanleg lending.  Fyrir 5 árum síðan myndaðist nýr meirihluti þar sem VG virtist hafa tögl og haldir þegar líða tók á það kjörtímabil.  Sveitarstjórinn þóttis þá vera ópólitískur og með fögur fyrirheit.  Ok – allir tilbúnir að gefa honum tækifæri; enda blautur á bak við bæði os.frv.  En það átti svo fljótlega eftir að koma í ljós hvaða mann hann hafði að geyma í pólitíkinni.  Nú hefur algerlega tekið steininn úr síðustu misseri og fullkomlega eftir kosningar síðasta vor; hvar hann var tilbúinn að stinga menn í bakið hægri vinstri og þó aðallega til vinstri – eðli málsins og vinahópsins samkvæmt.  Hvað gera sumir menn jú ekki fyrir 100 milljóna króna ráðningarsamning og góðan stól.

Til þess að gera langa sögu stutta – þá ákvað ég að taka saman nokkra punkta úr þessu ferli – til útskýringa og samanburðar – hefst þá upptalningin:

  1. Flókahúsið.

Við feðgar höfðum leigt Flókahúsið undir okkar vaxandi starfssemi í hátt í 12 ár af bænum.  Á síðasta kjörtímabili var ákveðið að selja Flókahúsið og auglýsa.  Gott og vel.  Undirritaður gjörla í hvað stefndi og fyrir hönd GG óskaði hann eftir forgangsviðræðum til að kanna hvort hægt væri að ná samningi; áður en til auglýsingar kæmi.  Viðræðum var hafnað.  Hafnað að taka einn fund við traustan leigjanda til að kanna stöðuna.  Það var sagt vera prinsipp atriði að auglýsa allar eigur bæjarins og hafa allt uppi á borðinu.

Vikunni áður var áhaldahús bæjarsins selt án auglýsingar.  Skömmu síðar var gengið til samninga um skemmu leikfélagsins. Án auglýsingar.  Prinsipp-atriðin í hávegum.

  1. Sala og uppgerð Flókahússins.

GG átti hæsta tilboð í Flókahúsið.  Meirihlutann setti hljóðan og vinabandalagið kom ekki upp stöku orði einhverjar vikur á eftir; fólk má svo að geta í eyðurnar – hverjum það var ætlað með auglýsingunni og höfnun fundarins um forgangsviðræðurnar.

Umræddur meirihluti ákvað  í kjölfarið að setja verulega íþyngjandi kvaðir á okkur í kaupsamningi og auka þannig verulega við kostnaðinn.  Þakgerðin sem hafði staðið óhreyfð í 55 ár þurfti að breytast. Hún var orðin ómöguleg á þessum tímapunkti. Eldvarnarvegg skyldi komið upp á milli Flóka og Helguskúrs og frá honum gengið tryggilega.  Á okkar kostnað.  Án þessara kvaða yrði ekkert af kaupsamningi. Kaupsamningur dróst um ca. 6 mánuði vegna þess að uppskipti lóðarinnar höfðu gleymst og aldrei haft samráð við okkur um þau uppskipti.  Aldrei. En viti menn; loksins tókst okkur að byrja framkvæmdir við Flókahúsið haustið 2017 með einvala samstilltum hópi harðjaxla sem lögðu dag við nótt að gera húsið að því sem það er í dag.  Öllum til mikillar ánægju…..segjum flestum.  Stöðugt stríðsástand var við nágranna í Helguskúr og náði það hámarki uppúr áramótum 2017/2018 þegar verið var að reyna að ganga frá suðurhlið Flókahússins í kring um eldvarnarvegginn góða sem var eitt af skilyrðum í kaupsamningi.  Bæjarapparatið hljóp eins og fætur toguðu sem lengst í burtu, í hvert skipti sem nágranninn var að tefja fyrir okkur í stað þess að standa við samkomulagið um kvaðirnar og tryggja okkur skilyrði til að uppfylla þær. Skipulags & byggingarfulltrúinn dró taum nágrannans linnulaust gegn okkur; í stað þess að tryggja að við gætum uppfyllt þær þungu kvaðir sem hann og kjörnir fulltrúar lögðu á okkur sem skilyrði fyrir kaupunum.  Í miðju ferlinu verðlaunaði svo bæjarapparatið nágrannann á stöðuleyfinu týnda; með allsherjarstöðuleyfi til 6 ára á lóð Norðurþings.  Suðurhlið Flókahússins er enn ófrágengin; hún liggur undir skemmdum.  Hvorki fyrr né síðar í heilt ár hefur Skipulagsfulltrúinn, né varaformaður og formaður skipulagsráðsins spurt einnar spurningar um hvernig menn hyggist ljúka framkvæmdum á þeirri hlið.  Sama gildir um aðra kjörna fulltrúa meirihlutans.  Prinsipp atriði að leggja á þungar kvaðir….en taka svo til fótanna þegar þarf að tryggja skilyrðir fyrir því að kaupandinn geti uppfyllt þær; það er hetjulegt en lýsir umræddum aðilum í hnotskurn !!

  1. Frágangur lóðar. Hleðsluveggurinn.

Undirritaður vann með Faglausn og Garðvík að því að gera lóðarfrágang eins vel úr garði og mögulegt væri.  Lóðarfrágangurinn átti að vera í stíl við húsið, þar sem ekkert væri til sparað í að prýða það umhverfi eins vel og mögulegt yrði.  Vandaðar tölvuteikningar með útfærslum voru lagðar fyrir apparatið og óskað hóflega eftir ca. 2m norðan við húsið. Ca. 1,5m austan við húsið og Ca. 1m sunnan við húsið.  Umrædd mál voru sett fram í formlegu erindi og rökstudd vel.  Þessar fjarlægðir voru fyrst og fremst hugsaðar til þess að verja húsið og þjónusta, þ.m.t. fyrir samsafni og rusli nágrannans og til þess að eldvörnin yrði meiri,  lagnir Flókahússins af margvíslegum toga gætu verið innan okkar svæðis og samræmis myndi gæta í heildarásýnd lóðarinnar.  Gerður var verksamningur við Garðvík, grjótið í veggleðslurnar var sérframleitt í verkið os.frv.  Umræddum fjarlægðum var nokkurnveginn hafnað í tvígang að því er virtist svona af því bara yfir kaffibolla og ekki einn bæjarfulltrúi af þeim sem mest hafa haft sig í frammi um málið hefur haft samband og viljað kynna sér málið.  Framkvæmdir við lóðina drógust mikið vegna annríkis verktaka en hófust svo af fullum krafti uppúr miðjum júlí 2018.  Þá kom ýmislegt í ljós á umræddum lóðarmörkum þegar farið var dýpra og aðstæður til vegghleðslu kannaðar.  Allskonar brunnar lagnir og frárennsli gerðu það að verkum að nauðsynlega þurfti að hliðra áðurnefndum mörkum til um einhverja sentimetra; þ.m.t. heitavatnslögnin í Helguskúr lá þar í boga. Skipulagsfulltrúinn var ekki viðlátinn enda sumarfrí á þeim tíma.  Haft var samband við formann Skipulagsráðs bæði með tölvupóstum og sms sendingum frá 15. Júlí. Hún sá sér aldrei fært að mæta á vettvang í heilar 4 vikur til skrafs og ráðagerða um þá framkvæmd og aðstæður sem verið var að fara í.   Við og Garðvík reyndum þá eftir fremsta megni að finna þá bestu lausn sem var í sjónmáli fyrir umræddan hleðsluvegg; bæði norðan og austan við húsið.  Gerðum það af heilindum miðað við þær aðstæður sem blöstu við.  Niðurstaðan var sú að farið var á milli brunna norðan við húsið og 32cm útfyrir þá línu sem hugsuð var eða sem nemur steinabreiddinni og einhverja 47 cm austan við húsið; meðal annars af sömu ástæðum og til þess að veggurinn þar væri í flúkti við grunn Helguskúrs; tæki tillit til lagna sem þar voru og niðurfalla og raskaði sem minnst því umhverfi sem þar var fyrir.

  1. Föstudagurinn 17. ágúst 2018.

Enn eina ferðina hafði nágranninn verið með vandræði við starfsmenn Garðvíkur og m.a. haft í hótunum.  Þá birtist skipulagsfulltrúinn óvænt sem og form. skipulagsráðsins.  Talaði hvorki við kóng né prest af okkar hálfu en sendi undirrituðum svo tölvupóst 4 klst. síðar.  Sagðist hafa mælt þær vegghleðslur sem komnar voru og verkið væri þar með stöðvað.  Skömmu síðar kom svo krafa um niðurrif.  Við færðum ítarleg og góð rök í málinu.  Á þau var ekki hlustað og nauðsynlegt að rífa og eyðileggja þær milljónir sem þegar voru komnar í veggina.  Enn og aftur var óskað eftir málamiðlun; beðið afsökunar á því að nokkrir samverkandi þættir væru þess valdandi að þessir sentimetrar væru í spilinu á lóð hafnarinnar sem þó hafði enga truflun í för með sér til framtíðar; og meira að segja boðist til þess að helluleggja göngustíg norðan við hleðsluvegg bænum að kostnaðarlausu.  Sömuleiðis var reynt að sækja um stöðuleyfi fyrir veggina til 6 ára líkt og var búið að veita nágrannanum skömmu áður. Öllu hafnað.  Í staðinn hefur það verið ítrekað margoft að ef GG fjarlægir ekki veggina; þá muni sveitarfélagið; Prinsipp-hetjurnar sjá til þess að það verði gert á kostnað fyrirtækisins og þar við situr. Flækjustigið er hinsvegar nokkuð í slíkri aðgerð.  Garðvík á efnið og veggina þar til verkinu er að fullu lokið.  Verktakar á Húsavík ætla ekki að koma nálægt þessu verki og eðlilega.  Undirritaður hefur ítrekað skorað á kjörna fulltrúa að mæta sjálfa og framkvæma þetta löðurmannlega verk með niðurrifið – hann skuli skaffa þeim sleggjur og hafa eina sjálfur við móttöku þeirra.  Kjark þeirra brestur; þeir ætla að láta aðra um óþrifaverkin….prinsipp-hetjurnar sjálfar og eru samkv. nýjustu upplýsingum farnar að leita til Akureyrar og víðar, til þess að fá verktaka þar um slóðir til þess að rífa umrædda veggi.  Hetjurnar sjálfar.

  1. Sambærileg tilvik og aðstæður.

Það vita þeir sem vilja að háttvirtur skipulags og byggingarfulltrúi hefur ótal dæmi á sínu borði þar sem hann hefur hliðrað til eftir hentugleikum.  Þau dæmi eru í tugavís og þannig á hann að vinna þegar og sérstaklega ef óvissan er mikil og ekki verið að ganga á hlut nokkurs.  Hann hefur hvorki talið það eftir sér í metravís fyrir okkar helstu keppinauta hingað til, né heldur inn í aðrar byggingar sbr. Hvalbaks snyrtingarnar inní verbúð í eigu hafnarsjóðs.  „Minnihátar frávik“ sagði hann og þurfti ekki fyrir nefnd.  Ég hefði skilið þessu ofsafengnu viðbrögð betur við hleðsluveggjunum ef við hefðum verið komnir með þá í metravís og jafnvel inn í stofu hjá nágranna.  Því er ekki fyrir að fara og skrifast þessu viðbrögð á illkvittni og pólitískar refsingar.  Höldum því til haga að Skipulags & Byggingarfulltrúinn hefur verið á bakinu á undirrituðum þau 17 ár sem hann hefur staðið í uppbyggingu GG.  Undirritaður tók svo þátt í því að henda í einn framboðslista þremur vikum fyrir síðustu kosningar af góðum ástæðum og ruglaði þar með þaulskipulagt plott oddvitans og annarra fylgifiska hans í pólitíkinni. En skoðum þá myndrænan samanburð af því sem stendur næst okkur af sambærilegu og sumt glænýtt og samtíma veggframkvæmdunum:

Veggurinn góði að austanverðu í beinni línu við grunn Helguskúrs
Veggirnir báðir að norðan og austan. Skipulagsfulltrúinn hefur haldið því fram í greinargerð að veggurinn að austan þrengi verulega að í sundinu og sé takmarkandi fyrir umferð. En það er óvart göngubrúin fræga sem takmarkar umferðina í sundinu sem og klassískir fylgihlutir úgerðanna sem þar eru með aðstöðu. Ath. umrædd göngubrú var sett upp á sínum tíma án leyfis. Skipulagsfulltrúinn gerði sér svo lítið fyrir í kjölfarið og stækkaði lóð Gamla Bauks til suðurs um c.a. 4,5m til að hún rúmaðist innan þeirrar lóðar. Allt OK segja prinsipp-hetjurnar.
Þá hefur Skipulags & Byggingarfulltrúinn sömuleiðis sagt það í greinargerð,með blekkingum, að göngustígurinn milli Flóka og Gamla Bauks; að um hann fari tugir þúsunda ferðamanna á hverju ári. Og þar sé gert ráð fyrir hjólastólum, barnavögnum, aksturstækjum og jafnvel snjómoksturstækjum. Um þennan tiltekna stíg fara að jafnaði 2-3 manneskjur á ári í áratugi og þrátt fyrir að af honum hafi farið 32cm í vegghleðslu. Þá eru enn eftir 170 – 190cm þar sem hann er þrengstur. Löglegur göngustígur miðast við að lágmarki 160cm. Umræddan göngustíg buðumst við til að helluleggja og prýða; sveitarfélagin að kostnaðarlausu sem eina af mörgum málamiðlunum. Hafnað. En ath. gangbrautin er enn undir stigamannvirki keppinautanna 15 árum síðar; svo annt er skipulagsfulltrúanum um gönguleiðir.
Þar næst er sjálfsagt að sýna myndir af þeim vegg sem frægastur er að verða. Staðsettur við Cape Hotel hvar forseti bæjarstjórnar og varaform. Skipulags & byggingarnefndar er með sinn rekstur. Umræddur veggur var kominn niður á sama tíma og skipulagsfulltrúinn stöðvaði framkvæmdir við Flókahús með 4 klst. fyrirvara. Veggurinn við Cape Hotel hefur staðið þar nú í tæpa 5 mánuði og ekki enn verið ákveðið hvernig verður farið með hann samkv. nýlegri greinargerð skipulagsfulltrúans; jafnvel þótt hann skagi útfyrir gangstétt og hefti alla umferð þar í alfaraleið og líti auk þess út fyrir að vera kolólöglegur. Skipulagsfulltrúinn reyndi að vísu að kenna Mannviti um þessi mistök; en þeir vita sem vilja að Mannvit teiknar og hannar eingöngu það sem skipulagsyfirvöld vilja. Og öllu jafna hefjast framkvæmdir ekki í slíku verki nema að undangengnu samþykki skipulagsyfirvalda. Klassísk vinnubrögð hjá prinsipp-hetjunum. En það ber auðvitað að írteka að forseti sveitarstjórnar sem er varaform. skipulagsráðs hefur gengið hart fram í að veggurinn við Flókahúsið verði rifinn og milljónir um leið í vaskinn. Hann þarf auðvitað ekki að greiða eina krónu þótt hans veggur verði rifinn; það eiga skattgreiðendur að gera ef til þess kemur. Hann hefur hinsvegar ekki sést til að skoða aðstæður við Flókahúsið, né heldur haft áhyggjur af því að suðurhlið Flókahúss verði kláruð; þrátt fyrir skýrar kvaðir af hans hálfu þar um. Bílarnir á þessu bílastæði munu svo eflaust skaga líka langt út á umrædda gangstétt eftir aðstæðum. Prinsipp segja þeir…..þegar hentar. Ég má segja þeir…..ekki þú.
Förum þá í restina aftur niður á bryggju; þar kennir ýmissa grasa og ekki annað að skilja í greinargerð Skipulagsfulltrúans að sumt af því hafi einhverntímann verið inni á deiliskipulagi en sé það ekkert endilega í dag; en hann lítur framhjá því þegar hentar og alþekkt hefur verið. Vinabandalagið segir OK. Prinsipp stundum og stundum ekki; allt eftir því hver á hlut að máli. Hér eru grjóthleðslur ofl. allt utan lóðar samkv. skipulagsfulltrúanum og gula línan dregin enn utar.
Skipulagsfulltrúanum var bent kurteislega á það í greinargerð um daginn að það væri fleira sem næði útfyrir lóðarmörk á svæðinu og hefði gert það undanfarin 10-15 ár og það hlyti að vekja áhyggjur hjá honum þegar hann væri að tala um þrengingu á akstursleið í sundinu. Hann sagðist hafa brugðist við ( 10-15 árum síðar ) og sent erindi á hafnarstjóra þess efnis. Liðnir eru ca. 3 mánuðir og áhyggjur hans virðast hafa týnst. Amk. þegar sumir eiga í hlut; þá er það ekki orðið prinsipp-atriði……ekki frekar en oft áður í hans störfum; og allt með samþykki þeirra kjörinna fulltrúa sem eiga í hlut og hann heyrir undir.
Þessi mynd sýnir miðasölur beggja fyrirtækjanna GG og NS. Okkar fyrirtæki fékk leyfi fyrir nokkrum árum til þess að setja miðasölu ofan á hús björgunarsveitarinnar, það skyldi vera í nákvæmlega þeirri línu og fjarlægð að götu og mynd sýnir. Á stöðuleyfi og laust frá þaki. Skömmu síðar fékk NS leyfi til þess að setja sambærilega miðasölu á lóð sem er við hliðina….líka á stöðuleyfi og átti að vera í nákvæmlega sömu fjarlægðarlínu við götu og miðasala GG. Aldeilis ekki. Í fyrsta lagi er sú miðasala steinsteypt frá upphafi við undirliggjandi plötu og tengd mannvirkinu fyrir neðan. Í öðru lagi var heimilað að hún yrði færð 2m framar og nær götu. Þar var markmið keppinautanna að reyna að skyggja á sjónlínu miðasölu GG, þar sem 95% af farþegum koma inn í bæinn þeim megin, að sunnanverðu. Sami leikur hafði verið leikinn með fyrri miðasölu þeirra. Allt eftir bók prinsipp-hetjanna !! Ps. NS hafði fría aðstöðu fyrir miðasölu ofan á þaki verbúðanna í 15 ár…..allt í boði skattgreiðenda.
Myndin sýnir eina af nýjustu framkvæmdunum. Gallageymsluhús keppinautanna sem voru sett upp í sumar með leyfi Framkvæmda & Skipulagsráðsins. Þarna fyrir nokkrum árum var skipulagður reitur fyrir torgsölu og þjónustuhús á stöðuleyfi. Húsin áttu að vera að hámarki 12fm á einni hæð. Keppinautunum var bent á breytta ímynd hafnarsvæðisins með tilkomu Flókahússins og eðlilegt væri að þeir kæmu umræddum húsum fyrir framan Gamla Bauk, til þess að skyggja ekki á nýjasta og glæsilegasta húsið við höfnina; Flókahúsið. Allt kom fyrir ekki. Umræddum gallageymslum var komið fyrir beint í andlit Flókahússins í sumar rétt eftir að Flókahúsið var tilbúið. Á einhverjum reit. Og þau voru 2 tveggja hæða og ummál þeirra var 26,7fm. Skipulags & Byggingarfulltrúinn sást aldrei með tommustokkinn við umrædd hús……….og aðrir kjörnir fulltrúar vinabandalagsins glottu með oddvitann í broddi fylkingar. Prinsipp-hetjurnar sjálfar.

Kæru Húsvíkingar og nærsveitamenn. Hér hef ég aðeins stikklað á stóru vegna þeirrar umræðu sem hefur verið á mörgum stöðum um þessi málefni undanfarna mánuði og misseri.  Umræddur meirihluti vinabandalagsins fer hamförum gegn okkur í GG eins og dæmin sýna.  Þar virðast kjörnir fulltrúar meirihlutans komast upp með að mismuna látlaust og jafnvel í skjóli myrkurs; sbr. leynisamkomulagið um farþegagjöldin á kostnað bæjarbúa –  tek það síðar.  Kjörnu fulltrúarnir í meirihlutanum með Kristján Þór Magnússon í broddi fylkingar hafa fellt allar grímur; leyfa skipulagsfulltrúanum að leika lausum hala og virðast ekki geta sýnt nokkur einustu mörk á milli andúðar á mér; fyrirtækinu og starfsfólki þess; og því að eiga að sinna skyldum sínum með hagsmuni heildarinnar og jafnaðarsjónarmið að leiðarljósi; samfélagsins og þeirra fyrirtækja sem renna stoðum undir það samfélag.  Eftir þrotlausta uppbyggingu á GG til 17 ára með einvala hópi starsfólks alla tíð; verandi í vægast sagt óheilbrigðu samkeppnisumhverfi lengst af og hafandi ráðist í fyrstu alvöru framkvæmdina á hafnarsvæðinu; hversu dapurt er að hafa slíkan sértrúarsöfnuð vinstrisinnaðra kjörinna fulltrúa meirihlutans með óvönduðum embættismanni í lykilhlutverki; hversu döpur er sú staðreynd.   Mismunun virðist vera aðalsmerki þessa meirihluta í bland við einelti og valdníðslu; ásamt óheiðarleika, vanþekkingu, tækifærismennsku og asnaskap í sandkassa.

Góðar stundir & það er örstutt í næstu kosningar; munum það.

Virðingarfyllst

Stefán Guðmundsson framkv.stj. GG