Rennibrautin sem margir hafa beðið eftir var vígð rétt í þessu í Sundlaug Húsavíkur og var sundlaugarpartíi slegið upp að því tilefni.

Fullorðna fólkið lét fara vel um sig í pottunum á meðan ungviðið renndi sér í Bláu Þrumunni. Mynd/epe

Fjöldi manns var saman kominn í lauginni en Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi giskaði gróflega á að um 2500 gestir væru í lauginni en hann sagði nokkur orð áður en hann opnaði rennibrautina. Honum til halds og trausts var Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

ÞAð var ekki lengi að myndast biðröð við nýju rennibrautina. Mynd/epe

Efnt var til samkeppni um nafn á rennibrautina en það voru börn úr grunnskólum sveitarfélagsins sem völdu nafn en kosið var um fimm bestu tillögurnar.
Hlutskarpast varð nafnið Bláa Þruman en það var Davíð Leó Lund sem átti tillöguna. Að launuim fékk Davíð Leó árskort í sund fyrir alla fjölskylduna auk þess sem honum var boðið að renna sér fyrstu ferðina. Pilturinn ungi var hins vegar upptekinn á fótboltaæfingu og leyfði því systur sinni, Anitu Ruth að renna sér fyrstu ferðin í Bláu Þrumunni en pabbi hennar, Kristinn Jóhann Lund sat undir henni. Hann viðurkenndi í samtlai við blaðamann skömmu síðar að hann hafi verið hálf smeykur en niður komu þau heilu og höldnu og ekki annað að sjá en að feðginin hafi skemmt sér vel.