Rennibrautin mun kosta 60 milljónir segir sveitarstjóri

Staðreyndavaktin

Staðreyndavakt Víkurblaðsins sem hóf göngu sína fyrir alvöru í síðasta tölublaði heldur áfram. Tilgangur staðreyndavaktarinnar er að taka fyrir málefni líðandi stundar sem mikið eru í umræðunni og fá staðreynt fullyrðingar og getgátur sem gjarna er kastað fram, ýmist í opinberri umræðu eða á kaffistofunum.


Vatnsrennibraut í Sundlaug Húsavíkur var til umræðu í síðasta blaði en ekki tókst að ljúka þeirri umræðu. Þar kom fram að áfallinn kostnaður við verkefnið þegar Víkurblaðið spurðist fyrir um málið væri rúmar 37 milljónir króna en upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að heildarkostnaður við verkið væri rúmlega 41 milljónir.

Í kjölfarið sendi Víkurblaðið eftirfarandi fyrirspurn á viðeigandi aðila innan stjórnsýslu Norðurþings: Vegna umfjöllunar Víkurblaðsins #8 um vatnsrennibraut í Sundlaug Húsavíkur, óska ég eftir frekari upplýsingum sem eru eftirfarandi:

Haft er eftir Hjálmari B. Hafliðasyni að þegar upphafleg ákvörðun um kaup og uppsetningu rennibrautarinnar var tekin hafi kostnaður átt að vera 13 milljónir króna.

– Hvenær var ákvörðun tekin um að kaupa vatnsrennibraut og setja upp í Sundlaug Húsavíkur?

– Á hvaða kostnaðargrundvelli var sú ákvörðun tekin, þ.e. lá fyrir kostnaðaráætlun, og hversu mikla fjármuni átti upphaflega að setja í verkefnið?

– Hvenær var umrædd vatnsrennibraut keypt?

– Hver var seljandi?

– Hvað kostaði rennibrautin?

– Hvað kostaði að flytja rennibrautina til Húsavíkur (að meðtöldum tollgjöldum, geymslugjöldum osfrv. ef það á við)?

– Hver er áfallinn kostnaður vegna uppsetningar?

– Hver er áfallinn kostnaður vegna hönnunar í kringum framkvæmdina?

– Hver er áfallin kostnaður vegna kostnaðarmats framkvæmt af Faglausn ehf. (og annarra greininga ef við á)?

– Annar áfallinn kostnaður?

Komið hefur fram að gengið hafi verið að tilboði verktaka um frágang í kringum rennibrautina. HBH lætur hafa eftir sér að það hafi hljóðað upp á 15 milljónir króna.

– Hvaða verktaki átti tilboðið?

– Er rétt að það hafi verið upp á 15 milljónir?

Haft er eftir verkefnastjóra á framkvæmdasviði að áfallinn kostnaður um sl. mánaðamót hafi verið um 37 milljónir króna og að upphafleg kostnaðaráætlun hafi gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á 41 milljón króna.

Hvenær var kostnaðaráætlun sem þarna er vísað til gerð, lögð fram og samþykkt?

– Miðað við stöðu verkefnisins í dag, hver er áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina?

Fyrirspurnin var upphaflega send 18. mars sl. og það var að lokum Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri sem svaraði fyrirspurninni á þriðjudag skömmu áður en blaðið fór í prentun.

Kristján tók sérstaklega fram að verkefnisstjóri væri ekki við en að svörin væru tekin saman á grunni skjala sem hann hafi útbúið. En kostnaðurinn við þetta verkefni hefur myndast með eftirfarandi hætti:

„Áður en framkvæmdaáætlun fyrir árið 2017 var samþykkt var ekki ráðist í heildstætt kostnaðarmat á því hvað framkvæmdin með öllu tilheyrandi myndi kosta. Við fyrstu ákvörðun um að setja upp rennibraut voru aðeins settar 13 m.kr á fjárhagsáætlun fyrir árið 2017. Það byggði á frumathugun frá framleiðanda á því hvað 1 stk. rennibraut út úr búð með uppsetningu, en án allrar jarðvinnu, frágangs og uppbyggingar undirstaða og annars tilfallandi myndi kosta. Öðrum kostnaði var ekki áætlað fyrir í framkvæmdaáætlun fyrir árið 2017,“ útskýrir Kristján í skriflegu svari.

Á árinu 2017 er fyrirtækið Faglausn ehf. fengið til að kostnaðarmeta verkefnið í heild sinni. „Miðað var við ofangreint tilboð frá SportTæki ehf. um að rennibrautin með uppsetningu kostaði þá liðlega 15 m.kr. með aukabúnaði frá framleiðanda. Það heildarkostnaðarmat sem Faglausn skilaði af sér í júní 2017 hljóðaði samtals uppá 35,8 m.kr. m.v. fyrirliggjandi forsendur þess hvað þyrfti að gera á lóðinni.

Á fjárhagsáætlun ársins 2018 voru svo ákvarðaðar 25 m.kr í verkefnið, sem hugsað var sem viðbót við þann kostnað uppá 13 m.kr sem gert var ráð fyrir að félli til á árinu 2017, að því gefnu að kostnaðarmat Faglausnar frá í júní 2017 (kostnaður við það var rétt tæp 500 þús.) héldi.

Því tilboði sem svo var tekið í rennibrautina (ekki alveg sama braut og upphaflegt tilboð hafði borist í) frá SportTæki til sveitarfélagsins 15. nóvember 2017 og hljóðaði þá kostnaður við brautina sjálfa og uppsetningu hennar uppá 20,4 m.kr. Uppfærð kostnaðaráætlun Faglausnar m.v. það tilboð á heildarverkefninu var þá komin í um 41 m.kr.

Á fyrri hluta ársins 2018 var óskað eftir tilboðum í jarðvinnu og undirstöður fyrir brautina og var lægra tilboðinu sem barst frá Rein og Steinsteypi tekið í það verkefni uppá 5,4 m.kr. Hönnunargögn Verkís sem fengið var til að hanna undirstöður og lagnir kostaði 1,8 m.kr. Á árinu 2018 féll til kostnaður við pípulagnir uppá um 2,8 m.kr, flutningur á braut og aukaverk vegna uppsetningar og uppihalds starfsmanna við uppsetningu uppá 4 m.kr. Kostnaður við rafmagnsvinnu nam tæpum 900 þús, og annar áfallinn kostnaður m.a. vegna vinnu Vélaverkstæðis Gríms og annars umstangs Þjónustumiðstöðvar Norðurþings og aukaverka Reinar og Steinsteypis alls uppá 1,7 m.kr.

Því var bókfærður kostnaður á verkefnið rétt um 37 m.kr áður en tilboð barst í frágang í kringum rennibrautina, og girðingu utan um lóðina frá Guðmundi Vilhjálmssyni. Það tilboð sem skipulags- og framkvæmdaráð gekk að nýverið hljóðaði uppá á 15,7 m.kr í frágang á svæðinu, girðinguna og hellulagnir innan lóðar við rennibraut. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina mun því nema tæpum 60 m.kr þegar uppi er staðið,“ segir í svari Kristjáns.

Smelltu hér ef þú vilt greiða mánaðarlegt framlag til Víkurblaðsins