Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps segist bjartsýnn á framtíð heilsársferðaþjónustu í sínu sveitarfélagi enda sé aðdráttarafl svæðisins síst minna yfir veturinn. „Ferðamannatímabilið hefur verið að lengjast enda fegurðin í Mývatnssveit yfir vetrartímann bara meiri ef eitthvað er. Hér er ótrúlega öflug vetrarafþreying fyrir ferðamenn sem byggst hefur upp hin síðari ár, segir Þorsteinn og nefnir jeppaferðir, snjósleðaleigu, hundasleðaferðir, skipulagðar göngu- og hjólaferðir, snjóskíði á Mývatni, hestaferðir og margt fleira. „Þá hafa norðurljósin mikið aðdráttarafl, Jarðböðin eru frábær upplifun yfir vetrartímann. Þá eru hér veitinga- og gististaðir opnir allt árið þannig að úrvalið er nóg. Hér eru því allar forsendur til þess að efla vetrarferðaþjónustuna enn frekar og sú markaðssetning er á fullu á vegum Mývatnsstofu og gengur vel.“

Þorsteinn Gunnarsson
Þorsteinn Gunnarsson, Sveitarstjóri Skútustaðahrepps

Jólasveinarnir í Dimmuborgum er gott dæmi um verkefni sem Mývatnsstofa hefur að unnið markvisst að til að efla ferðaþjónustuna yfir háveturinn. „Verkefnið byggir á gömlum grunni en mikill kraftur hefur verið settur í það og verður mikil veisla í Dimmuborgum á aðventunni. Reyndar hefur þetta verkefni teygt anga sína yfir sumartímann og gekk það vel að bókanir fyrir næsta sumar hafa farið fram úr björtustu vonum,“ útskýrir Þorsteinn.

Sveitarstjórinn segir brýnt að horft sé til framtíðar í  skipulagsmálum og bendir á að sérstakur stýrihópur sveitarfélagsins vinni nú að stefnumótun fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. „Sveitarfélagið er nú að deiliskipuleggja Höfða sem er vinsæll ferðamannastaður og eina landið sem er í eigu sveitarfélagsins. Þar er stefnt að uppbyggingu. Þá vonumst við til þess að semja við Vegagerðina um fyrsta áfanga í uppbyggingu göngu- og hjólreiðastígs  kringum Mývatn, fyrsti áfanginn er úr Reykjahlíð í Voga. Í sumar vorum við í samstarfi við Umhverfisstofnun um sorpílát á helstu ferðamannastöðum við Mývatn sem gekk vel. Sveitarfélagið er því að styðja við bakið á þessum ferðamannastöðum.“

Þorsteinn leggur áherslu á að sveitarfélögum í landinu verði tryggðar auknar tekjur af gistináttaskatti sem renni til sveitarfélaga eins og núverandi ríkisstjórn boðar í stjórnarsáttmála en sú tilfærsla er ekki á dagskrá þingsins í vetur. „Sveitarstjórnin hefur lýst formlega yfir miklum vonbrigðum með framgang málsins,“ segir hann og bætir við: „Jafnframt er mikilvægt að skipting gistináttaskattsins á milli sveitarfélaganna verði með sanngjörnum hætti. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru gistinætur í Skútustaðahreppi árið 2017 samtals 184.498 talsins. Því má áætla að  ríkissjóður fái varlega áætlað um 30-35 m.kr. í tekjur af gistináttaskatti  sem í staðinn gætu nýst hér á svæðinu í beina innviðauppbyggingu vegna ferðaþjónustunnar. Sveitarstjórn hefur jafnframt skorað á Samband íslenskra sveitarfélaga að fylgja þessu máli fast eftir gagnvart ríkisvaldinu því hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélögin.“

Vill uppbyggingu við Akureyrarflugvöll

„Hér hafa sveitarfélögin staðið saman að því að þrýsta á ríkisstjórnina og ISAVIA að leggja fram áætlun um framtíðaruppbyggingu Akureyrarflugvallar með hliðsjón af skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann um uppbyggingu flugvallarins, með það tvennt að markmiði: Að opna nýja gátt inn í landið hið fyrsta til að auka ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins og að tryggja varavöll fyrir hina miklu flugumferð í Keflavík. Þá voru miklar gleðifréttir að hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur nú hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Allt svæðið nýtur góðs af þessu,“ segir Þorsteinn og bætir við að lokum: „Samvinna og traust aðila á milli er lykilatriði að mínu mati til þess að ná árangri í markaðssetningu Mývatnssveitar.“