Segir frá algjöru niðurbroti og kvíða í starfi

Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður og rithöfundur heimsækir Norðurþing

Sölvi Tryggvason

Á fimmtudag nk. stendur Norðurþing  fyrir áhugaverðum fyrirlestri í tengslum við verkefnið „Heilsueflandi samfélag.“

Sölvi Tryggva­son, fjölmiðlamaður gaf nýverið út bókina: Á Eigin Skinni, sem er afrakstur áratugsvegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi fólki um allan heim, auk þess að gera endalaust af tilraunum á sjálfum sér þegar kemur að kælingu, föstum, næringu, hreyfingu, bætiefnum og fleiru og fleiru.

Sölvi hefur áður sagt frá al­gjöru niður­broti og glímu við kvíða í starfi sínu á frétta­stofu Stöðvar 2 fyrir rúmum ára­tug sem varð kveikjan að bókinni.

Fyrirlesturinn verður kl. 19.30 fimmtudaginn 2. maí í sal Framsýnar á Húsavík og verður honum sjónvarpað í gegnum fjarfundabúnað beint á Bókasafnið á Kópaskeri og Grunnskólann á Raufarhöfn.

Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Norðurþings sagði í samtali við Víkurblaðið að þetta væri í fyrsta sinn sem viðburði á vegum sveitarfélagsins væri sjónvarpað með þessum hætti. Það hafi reyndar verið sjónvarpað frá viðburðum í gegnum Facebook áður. „Við erum með ráðum að gera þetta svona núna til þess að ná að gera þetta að samfélagslegum viðburði þar sem fólk þarf að koma saman til að hlýða á fyrirlesturinn í stað þess að streyma honum á símann heima hjá sér,“ segir hann.

Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Norðurþings. Mynd/epe

Kjartan Páll lofar afar áhugaverðum fyrirlestri og hvetur fólk á öllum aldri til að mæta hvort heldur sem er á Húsavík, Kópaskeri eða á Raufarhöfn. „Við erum mjög spennt að sjá hvernig þetta fyrirkomulag heppnast,“ segir hann og bætir við að það sé ekkert því til fyrirstöðu að í framtíðinni verði slíkir viðburðir haldnir á t.d. á Kópaskeri eða á Raufarhöfn og sjónvarpað á hina staðina. Þá bendir hann á að ávinningurinn með slíku fyrirkomulagi fyrir sveitarfélagið sé fjölþættur. Kostnaður sé lægri ef aðeins er haldinn einn viðburður í stað þess að ferðast á milli staða og kaupa fleiri viðburði. Svo megi ekki vanmeta kolefnisfótsporið sem sparast með þessum hætti.