Víkurblaðið heyrði í Þórunni Harðardóttur á dögunum en hún hefur verið í forsvari fyrir siglingadeild Völsungs. „Það er til eða var, siglingadeild innan Völsungs en hún hefur hins vegar ekki verið starfandi um nokkurt skeið. Það er samt til einhver búnaður í tengslum við deildina, bátar, kajakar og aðstöðuhús niðri í Fjöru. Það er draumur okkar að endurvekja þetta og koma deildinni aftur í drift,” segir hún en það stendur til að í tengslum við Sumarfrístund verði boðið upp á siglingarnámskeið af einhverju tagi.

Sjá einnig: VILJA OPNA NÝJAR DYR ÍÞRÓTTANNA

„Vonandi tekst að endurvekja þetta frábæra starf og það er ánægjulegt ef Frístundin vill koma inn í það,” segir Þórunn.

Hvað sérðu fyrir þér að hægt væri að bjóða upp á í sumar í tengslum við siglingar?

„Við erum með þessa litlu seglbáta sem eru með einu segli og skel sem kallaðir eru optimistar. Við eigum fjóra slíka, tvo kajaka og einn aðeins stærri seglbát, það ætti að vera hægt að gera eitthvað úr því,“ útskýrir Þórunn og rifjar upp að siglingadeild Völsungs hafi áður verið með siglinganámskeið í samstarfi við siglingaklúbbinn Nökkva á Akureyri. „Það var alltaf hugsunin að fá þá aftur til að vera með námskeið á Húsavík.“

Sjá einnig: Metnaður lagður í Sumarfrístund yngstu barnanna