„Veturinn hefur verið góður og mikið að gera, sem er jákvætt. Við rekjum þetta að stórum hluta til sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða og tilkomu Vaðlaheiðarganga,” segja Guðrún Þórhildur Emilsdóttir og Guðbjartur Fannar Benediktsson á veitingastaðnum Sölku á Húsavík.

„Við heyrum það á viðskiptavinum okkar að þeir séu á leið í sjóböðin eða koma frá þeim, þannig að það er alveg á hreinu að böðin draga að sér marga, sem síðan hefur jákvæða áhrif á til dæmis veitingastaðinn okkar. Húsavíkingar eru sömuleiðis mjög tryggir og góðir viðskiptavinir, sem við erum afskaplega þakklát fyrir.”

Rætt verður við Guðrúnu Þórhildi og Guðbjart Fannar í þættinum Að norðan á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld. Einnig verður rætt við Kristján Þór Magnússon sveitarstjóra Norðurþings í þættinum. Hann segir að uppbygging sjóbaðanna styrki ferðaþjónustuna á svæðinu á margvíslegan hátt. Sjóböðin stuðli að því að ferðafólk dvelji lengur á svæðinu, sem sé þýðingarmikið fyrir atvinnumál sveitarfélagsins, sérstaklega ferðaþjónustu.

„Uppbygging sjóbaðanna tókst vonum framar og lengir ferðamannatímabilið til muna. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt yfir vetrarmánuðina og við bindum miklar vonir við sjóböðin, sérstaklega varðandi það markmið ferðaþjónustunnar að fá ferðafólk til að dvelja lengur á svæðinu,” segja þau Guðrún Þórhildur og Guðbjartur.

Viðtölin við Kristján Þór sveitarstjóra og eigendur Sölku verða aðgengileg hérna á Víkurblaðinu á morgun.