Staðreyndavaktin


Staðreyndavakt Víkurblaðsins hefur nú göngu sína eins og áður hefur verið boðað. Tilgangur staðreyndavaktarinnar er að taka fyrir málefni líðandi stundar sem mikið eru í umræðunni og fá staðreynt fullyrðingar og getgátur sem gjarna er kastað fram, ýmist í opinberri umræðu eða á kaffistofunum.

Nú þegar eru fjölmörg erindi til skoðunar hjá viðeigandi stofnunum að tilstuðlan Víkurblaðsins og taka sum erindin lengri tíma en önnur að fá staðreynd. Sum þessara erinda haf komið inn á borð ritstjórnar eftir ábendingar frá lesendum en önnur hafa verið tekin beint út úr opinberri umræðu.

Fyrsta mál á dagskrá er ný vatnsrennibraut í Sundlaug Húsavíkur en fjölmargir lesendur hafa haft samband við ritstjórn og verið að velta fyrir sér kostnaði við framkvæmdirnar. Sumir þeirra hafa viðrað áhyggjur af mikilli framúrkeyrslu í kostnaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Katli Gauta Árnasyni, verkefnastjóra á framkvæmdarsviði Norðurþings við fyrirspurn Víkurblaðsins sem send var 26. febrúar sl. „er staðan á verkefninu í dag þannig að vatnsrennibrautin er uppsett og til stendur að klára frágang svæðisins í kringum brautina fyrir vorið.“ Svarið barst blaðinu 28. febrúar sl.

„Viðræður við verktaka standa yfir og er vonast til að þessi vinna hefjist fljótlega.

Áfallinn kostnaður við verkefnið eins og það stendur í dag eru rúmar 37 milljónir króna en upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir að heildarkostnaður við verkið væri rúmlega 41 milljónir.

Töluverð vinna er eftir við frágang svæðisins og því allar líkur á því að verkefnið fari fram úr áætlun og eru ástæður þess fjölþættar. Þar ber helst að nefna að forsendur verkefnisins hafa breyst nokkuð sem hefur falið í sér aukinn kostnað.

Ekki er ljóst á þessum tímapunkti hversu mikið verkefnið mun fara fram úr upphaflegri áætlun en vinna við að leggja mat á það stendur yfir ásamt undirbúningi við að koma brautinni í notkun fyrir sumarið,“ segir jafnframt í svari Ketils. Ekki tókst að afla gagna áður en blaðið fór í prentun sem staðfestir að heildarkostanaður við verkið væri rúmlega 41 milljónir króna né heldur hvort um sé að ræða upphaflega kostnaðaráætlun.

„Þetta er að fara langt fram úr áætlun“

Á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings nú í vikunni kom fram að fyrir liggur tilboð frá verktaka fyrir frágang í kringum vatnsrennibrautina. Ráðið samþykkti tilboðið og sömuleiðis að verkið verði sett inná framkvæmdaáætlun 2019.

Þá lögðu þrír fulltrúar í minnihluta fram tillögu um að gerð verði úttekt á verkferlinu.

„Í fjárhagsáætlun 2017 og í framkvæmdaáætlun fyrir sama ár var ákveðið að kaupa og setja upp rennibraut við Sundlaug Húsavíkur. Verkinu er enn ekki lokið og ljóst að það mun fara langt fram úr áætlunum. Undirritaðir leggja til að verkið verði tekið út. Í úttekt skal miða við upphaf málsins þegar ákvörðun var tekin, til dagsins í dag. Niðurstöður verða lagðar fyrir nefndina til kynningar,“
segir í bókuninni en það eru Heiðar Hrafn Halldórsson, Hjálmar Bogi Haliðason og Kristján Friðrik Sigurðasson sem settu tillöguna fram og var hún samþykkt.

Í samtali við Víkurblaðið á þriðjudagskvöld sagði Silja Jóhannesdóttir formaður ráðsins að verkið væri að fara langt fram úr áætlun en treysti sér ekki til að segja til um nákvæmar tölur. „Það er ástæðan fyrir því að minnihlutinn kemur með þessa tillögu um að greina verkið. Það er hluti af þessu ferli sem við erum að reyna bæta okkur í,“ segir hún og bendir á að framkvæmdir út á Höfða hafi farið í greiningu einnig. „Þar kom ýmislegt í ljós sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Það er ástæðan fyrir því að við erum að gera þetta núna. Auðvitað veit maður í grunninn að þetta er byggt á veikum gögnum þegar farið var af stað og þetta er að fara langt fram úr áætlun miðað við það sem við hefðum átt að gera okkur grein fyrir í upphafi eða þeir sem tóku þá ákvörðun,“ útskýrir Silja og segir mikilvægt að fara ofan í saumana á málinu.

„Það hafa verið verk sem er farið af stað í þar sem kostnaðaráætlun liggur ekki nægilega vel fyrir og það er vegna ákvarðana stjórnmálafólks ekki starfsmanna sveitarfélagsins. þetta er hluti af því sem við ætlum að reyna stemma stigu við. Það er nýtt inni í ráðinu hjá okkur að vera með reglulega yfirferð á framkvæmda- og viðhaldsáætlun. Það gerir okkur mögulegt að stíga inn í verkferla og þá hliðra til annars staðar svo framkvæmdaáætlun í heild standist en það verður auðvitað að gera úttekt á þessari framkvæmd.“

„Léleg ráðstöfun á peningum skattborgara“

Hjálmar Bogi Hafliðason, fulltrúi Framsóknarflokks sagðist telja að tilboðið sem gengið var að um frágang rennibrautarinnar hafi hljóðað upp á 15 milljónir króna þegar Víkurblaðið náði tali af honum á þriðjudagskvöld. „Og þá er verkinu ekki lokið. Ég held að miðað við það sem nú liggur fyrir komi endanlegur kostnaður til með að liggja á bilinu 60 til 65 milljónir króna,“ segir Hjálmar Bogi.

Þá bendir hann á að verkið sem var lagt af stað með hafi átt að kosta 13 milljónir. „Fyrst þegar ákveðið var að kaupa rennibraut og það sett inn á framkvæmdaáætlun 2017,“ segir Hjálmar Bogi og vísar þá væntanlega til þess að kaupverð rennibrautarinnar hljóðaði upp á 13 milljónir króna. Þá átti eftir að reikna með kostnaði við flutninga, uppsetningu og frágang.

„Upphaflega talan sem við vorum að vinna með var 13 milljónir þegar farið var af stað í verkið og þetta bendir bara til þess að það sé vaðið af stað án þess að skoða hvað hlutirnir kosta.“

Hjálmar Bogi útskýrir tillöguna sem minnihlutinn lagði fram:

„Við viljum að það sé tekið út ferlið frá því að þetta er ákveðið, þar sem tillagan kemur fyrst fram. Þetta eru bara vond vinnubrögð að henda svona fram og setja okkur í þau spor núna að fá þetta tilboð um að klára þetta. Okkur er ekki stætt á öðru en að segja já því annars værum við að segja við ætlum að hafa þetta hálfklárað. Þá getum við alveg eins selt rennibrautina. Við viljum að gerð verði nákvæm úttekt á ferli málsins því þetta eru ekki boðleg vinnubrögð fyrir sveitarfélagið og léleg ráðstöfun á peningum skattborgara. Við eigum ekki að fara svona með fjármunina.“

Víkurblaðið treystir sér ekki til að kalla þetta fyrsta mál staðreyndavaktarinnar full-staðreynt. Til þess þarf að afla frekari gagna og ekki er öllum spurningum svarað enn, en Víkurblaðið mun halda áfram að spyrja þeirra.


Víkurblaðið er með annað stórt mál á könnu staðreyndavaktarinnar og hefur óskað eftir gögnum um málið. Þann 25. febrúar sl. sendi blaðamaður Víkurblaðsins eftirfarandi beiðni á skrifstofu Norðurþings: „Vegna umfjöllunar fyrir Víkurblaðið í vikunni óska ég eftir efttirfarandi upplýsingum:

“Útskrift/rafrænni útskrift af erindum og svörum til hafnanefndar og skipulagsnefndar  undanfarin 10 ár frá ferðaþjónustufyrirtækjunum: Gentle Giants hvalaferðir ehf. annars vegar og Norðursiglingar hins vegar.“

Ástæða beiðnarinnar er vegna fullyrðinga sem komið hafa fram að undanförnu í sambandi við „veggjamálið“ svokallaða. Komið hafa fram ásakanir um að sveitarfélagið mismuni fyrirtækjunum sem hér um ræðir, þ.e. að annað þeirra fái fleiri beiðnir samþykktar hjá hinu opinbera. Umbeðin gögn höfðu enn ekki borist þegar Víkurblaðið #8 fór í prentun en þau svör fengust að lögfræðingur væri að fara yfir gögnin áður en hægt væri að senda þau. Það má vænta þess að gögnin skili sér á næstu dögum sem gefur góðan tíma til að rýna í þau og sannreyna hvort fyrirtækið fær fleiri beiðnir samþykktar og jafnframt að greina hverskonar beiðnir eru samþykktar og hverjum er hafnað.

Styrkja Víkurblaðið til að veita valdhöfum aðhald ♥