Byggðaráð Langanesbyggðar kom saman í gær en á fundinum var m.a. rætt um drög að stefnu stjórnvalda í almenningssamgöngum sem kynnt var 14. febrúar sl.

Ráðið mótmælir harðlega þeim hugmyndum um að skerða flugsamgöngur um Þórshöfn og Vopnafjörð. Í ályktun sem byggðaráð sendi frá sér kemur fram að skerðingahugmyndirnar séu í ósamræmi við Skosku leiðina svokölluðu sem mikið hefur verið til umfjöllunar undanfarið og gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

Ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Um leið og byggðaráð Langanesbyggðar fagnar því að samþætta eigi almenningssamgöngur á landinu, mótmælir byggðaráð harðlega þeim hugmyndum að skerða flugsamgöngur m.a. við norðaustur hluta landsins, þ.e. Þórshöfn og Vopnafjörð. Þessar skerðingarhugmyndir eru einnig í ósamræmi við hina svokölluðu skosku leið sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi samgönguáætlun. Jafnframt verður að teljast að einstök markmið, um fyrirhugaðan niðurskurð á flugsamgöngum, gangi gegn megin markmiðum samþykktarinnar um samfélagslegt hlutverk hennar, þ.e. eflingu lífsgæða með aðgangi að skilvirku og heildstæðu almenningssamgöngukerfi og aukinni þjónustu, tryggu aðgengi að opinberri þjónustu í nærumhverfi sem og á höfuðborgarsvæðinu.

  • Í samgönguáætlun 2019-2033 sem var lögð fyrir Alþingi á haustþingi voru   metnaðarfull markmið. Meðal þeirra var lagt fram það markmið að íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarinnar á um 3½ klst. með samþættum ferðatíma, akandi, með ferju eða í flugi. Á sama tíma eru lögð fram umrædd drög að stefnumörkun í almenningssamgöngum þar sem lagt er til að leggja af ríkisstyrk á innanlandsflugi til Vopnafjarðar/Þórshafnar og lögð áhersla á að styrkja almenningsvagna.
  • Ætla má að ferðatími með strætisvagni til Húsavíkurflugvallar frá Þórshöfn og flugi til Reykjavíkur, eins og gert er ráð fyrir í áætluninni, verði um 5 klst. aðra leiðina með viðkomu á Raufarhöfn og Kópaskeri.
  • Ökutími milli Þórshafnar og Reykjavíkur er um 7-8 klst. í einkabíl í góðri færð. Ferðatími  yrði því um 10-12 klst. með strætisvagni. Það segir sig sjálft að hugmyndir um niðurskurð á flugi og bættum almenningssamgöngum fara ekki saman.
  • Tilvist flugvallarins á Þórshöfn og við aðra þéttbýlisstaði  er  nauðsynlegur þáttur í öryggi íbúa, þar sem sjúkraflug er nokkuð algengt á svæðinu. Dæmi eru um þar sem sjúkraflug hefur skipt öllu máli við að koma sjúklingum undir læknishendur hratt og örugglega.
  • Veðurfar á Norðausturlandi býður ekki upp á að íbúar svæðisins reiði sig einvörðungu á vegasamgöngur, sér í lagi á stað eins og í Langanesbyggð þar sem allar slíkar samgöngur eru um langa fjallvegi, en aðrar almenningssamgöngur eru ekki í boði fyrir íbúa á svæðinu.

Af þessum ástæðum vill byggðaráð leggja þunga áherslu á mikilvægi þess að flugþjónusta til Vopnafjarðar og Þórshafnar verði ekki skert. Það skiptir miklu máli að fjarlægar byggðir landsins búi við traustar og skilvirkar almennings- og sjúkrasamgöngur. Flug fyrir íbúa á þessu svæði er því  ekki ósvipað og ferjur eru fyrir Vestmannaeyinga, íbúa í Grímsey og Hrísey, þ.e. nauðsynlegur valkostur.“