Skjálfandi listahátíð: Jenný Lára Arnórsdóttir

Jenný Lára Arnórsdóttir

Skjálfandi listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudaginn 17. maí.

Þetta er í 8. sinn sem Skjálfandi listahátíð er haldin í Norðurþingi, og er hátíðin samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina þar sem heima- og aðkomufólk leiða saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í samkomuhúsinu á Húsavík.

Yfir 50 listamenn taka þátt að þessu sinni en fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Tónlist, myndlist, gjörningar og vídeólist er meðal þess sem gestum verður boðið upp á.

Víkurblaðið í samstarfi við Skjálfanda listahátíð kynnir þátttakendur en nú er komið að hæfileikaríkri leikkonu, höfundi og leikstýru: Jenný Láru Arnórsdóttur.

Jenný Lára Arnórsdóttir útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá The Kogan Academy of Dramatic Arts í London árið 2012.

Hún hefur leikstýrt þó nokkrum verkum, bæði hjá sjálfstæðum leikhópum sem og áhugaleikhópum, þar með talið Dýrunum í Hálsaskógi hjá LH árið 2016. Hún er meðlimur í leikhópnum Umskiptingar, sem er atvinnuleikhópur sem starfar á Norðurlandi en hún sá um framleiðsluna á fyrsta verki þeirra Framhjá rauða húsinu og niður stigann.

Einnig leikstýrði hún og framleiddi gamanóperuna Piparjúnkan og þjófurinn sem sýnd var í Samkomuhúsinu á Akureyrarvöku 2017. Þá var hún verkefnastjóri Listasumars og Akureyrarvöku sumarið 2018.

Jenný Lára hefur unnið mikið með Verbatim-formið, nú síðast í leikverkinu Skjaldmeyjar hafsins sem var frumsýnt í samstarfi við Leikfélag Akureyrar 28. mars síðastliðinn.