Næstkomandi laugardag 22. desember mun Hlaupahópurinn Skokki hlaupa áheitahlaup til styrktar Velferðarsjóði Þingeyinga. Mun hlaupið fara fram við íþróttavöllinn á Húsavík og hefjast í kringum 8 leytið en enda um hádegisbil. Þeir hlauparar sem hlaupa lengst munu fara um það bil maraþon sem eru 42,2 km. Hringirnir verða yfir 100 talsins. Að sögn Heiðars Halldórssonar á þetta verkefni sér þónokkra sögu: „Upprunalega hugmyndin var frá Ágústi okkar Óskarssyni um að hlaupa 101 hring á íþróttavellinum, en algengt er að hann þurfi að hlaupa þar um helgar enda vaktmaður á sjúkrabíl í hlutastarfi. Þegar kom í ljós að veður yrði líklega með ágætum þá helgi sem hlaupið ætti að fara fram kom upp sú hugmynd að gefa æfingunni aukið gildi og hlaupa í áheitaskyni. Nafn Velferðarsjóðs Þingeyinga kom fljótlega upp og þótti vel við hæfi að leggja þeim sjóði lið svona í aðdraganda jólanna.“

Meðlimir Skokka hvetja einstaklinga jafnt sem fyrirtæki til að leggja málefninu lið. Það er hægt að leggja fjárframlög til sjóðsins á bankareikning hjá Sparisjóði Þingeyinga 1110-05-402610- kennitala: 600410-0670. „Svo er auðvitað öllum velkomið að kíkja á okkur á laugardaginn, hvetja eða tölta nokkra hringi okkur til samlætis! Við lofum hátíðarfílíng“, bætir Heiðar við.

Velferðarsjóður Þingeyinga var stofnaður árið 2008. Hlutverk hans er að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur fjárhagslega og með matargjöfum í tilfellum þar sem lögbundnar stoðir hafa ekki dugað til. Einu tekjur sjóðsins eru þær sem velunnarar hans leggja honum til. Eðli málsins samkvæmt gengur mikið á innistæðu sjóðsins í desember og er því afar mikilvægt á þessum tímamótum að taka höndum saman og halda sjóðnum gangandi.