Skolun á gufuveitu Gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi

Bjarnarflag. Mynd: Landsvirkjun.

Að undanförnu hefur staðið yfir endurnýjun á aflvél og tengdum búnaði Gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi og hillir nú undir verklok. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landsvirkjunar.

Föstudaginn 29. mars fór fram þrýstiprófun á gufulögnum og gekk prófun að óskum.

Þriðjudaginn 2. apríl er áformað að hefja skolun á gufuveitu stöðvarinnar. Gufa er þá látin streyma frá borholum sunnan þjóðvegar, í gegnum gufuveituna og skiljur, að aflvél og út í hljóðdeyfi við stöðvarhús. Aðgerðin getur tekið 7 til 10 daga en henni mun fylgja einhver hávaði frá hljóðdeyfi.

Landsvirkjun mun fylgjast vel með þróun mála með vöktun og mælingu hljóðstigs við stöðina sem og á völdum mælistöðum í Reykjahlíðarþorpi.  Reynt verður að lágmarka óþægindi sem af þessu kunna að hljótast. Landsvirkjun vonast til að framkvæmdin takist áfallalaust. Hér má finna nánari upplýsingar til að koma ábendingum á framfæri.