Kópasker. Mynd: Wikipedia/Petr Brož

Jarðskjálftahrina hefur nú staðið yfir síðan á laugardag í nágrenni við Kópasker og hafa skjálftarnir numið hundruðum sem komið hafa fram á jarðskjálftamælum. Flestir eiga skjálftarnir upptök sín á bilinu fjóra til tíu kílómetra suðvestur af Kópaskeri en það svæði er hluti af Grímseyjarbrotabeltinu. Það er Rúv sem greinir frá þessu.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í frétt á ruv.is að hrinan hafi staðið lengur en aðrar á nákvæmlega þessu svæði. „Við sjáum að það er mikil spenna þarna sem er að losna og skjálftahrinunni er ekki lokið og við getum ekki útilokað að það komi stærri skjálfti þarna á þessu svæði. Allt upp í sex að stærð teljum við að geti losnað einhversstaðar á Grímseyjarbeltinu,” segir hann í viðtali við RÚV.

Síðan á þriðjudagskvöld hafa alls mælst níu skjálftar yfir þrír á stærð og sá stærsti mældist 4,2 stærð á miðvikudagkvöld kl. 20:29.