Stríðið gegn villunni

Greinin birtist fyrst sem leiðari í Víkurblaðinu #7

Leiðari

Egill P. Egilsson ritstjóri


Ákall til íbúa Norður sýslunnar

Eipi
Egill P. Egilsson

Víkurblaðið var eitt sinn bæjarblað á Húsavík og var upphaflega stofnað sem slíkt. Nú tæpum 40 árum síðar er yfirlýst markmið blaðsins að vera fjölmiðill allra Þingeyinga.
Ég reyni auðvitað mitt besta að vera með augu og eyru sem víðast og sinna öllum þingeyingum sem best ég kann. Þó má svo sannarlega gera betur og sjálfum finnst mér austursvæðið verða full mikið útundan. Ég kalla sérstaklega eftir því að íbúar frá Kelduhverfi og austur á Bakkafjörð hafi samband við blaðið og segi frá því sem gæti þótt áhugavert, bendi mér á áhugaverða viðmælendur, hvort sem það tengist íþróttum, menningarmálum, atvinnulífi eða mannlífi almennt. Saman getum við gert Víkurblaðið að fjölmiðli sem allir Þingeyingar eru stoltir af, blaði sem eftir verður tekið langt út fyrir þingeyska efnhagssvæðið.

Þó svo að ég beini þessum orðum sérstaklega að austursvæðinu að þessu sinni þá mega Þingeyingar hvar í heimi sem þeir eru taka þetta til sín. Ég dreymi um það að við getum litið á Víkurblaðið sem sameign okkar allra. Með fyrirfram þökk.
Staðreyndavakt Víkurblaðsins.

Staðreyndavakt Víkurblaðsins er tekin til starfa

Þá er ég farinn af stað með vinnu við nýjan lið í Víkurblaðinu sem ég kalla því ágæta nafni Staðreyndavakt Víkurblaðsins. Eins og allir vita þá hefur þjóðfélagsumræðan breyst umtalsvert á undanförnum árum með tilkomu internetsins og síðar samfélagsmiðla. Fleiri hafa nú aðgang að gjallarhorninu ef svo má að orði komast. Aðgengi að upplýsingum er miklu betra en nokkru sinni fyrr, en að sama skapi er svo mikið af þeim að erfitt getur verið að finna kjarnann í málefnum líðandi stundar. Afþreyingarkrafan verður sífellt meiri og hefur jafnvel smitast yfir á stærstu fjölmiðla landsins.
Það er ekki lengur gefið að yfirlýstir fréttamiðlar hafi dagskrárvaldið í þjóðfélagsumræðunni heldur getur hver sem er sett hvaða málefni sem er á dagskrá og viðkomandi þóknast, á twitter eða Facebook og öðrum samskiptamiðlum. Allir hafa rödd, líka þeir sem hafa ekkert að segja með henni.

Þetta hefur vissulega marga kosti í för með sér. Almenningur er ekki háður valdi annarra, fjölmiðla eða stjórnvalda til að fá skoðun sína birta. Að sama skapi verður oft og tíðum minna taumhald á umræðum á opinberum vettvangi hins stafræna. Fullyrðingar fá að flakka hvar og hvenær sem er í hverju skúmskoti alnetsins. Sumar réttmætar… Aðrar alls ekki.

Eitruð viðhorf

Rangar fullyrðingar lifa því miður jafngóðu og í sumum tilfellum betra lífi í stafrænni veröld heldur en þær sem réttar eru. Um allan heim hefur bergmálshellir samfélagsmiðla búið til heilu samfélög manna sem lifa og hrærast í hreinum fantasíu heimi rangra upplýsinga. Magnið af fjarstæðukenndum upplýsingum og brjálæðislegum samsæriskenningum er svo yfirgengilegt á netinu að sífellt fleira fólk er hreinlega farið að vantreysta öllum upplýsingum sem kemur frá yfirvöldum og vísindasamfélaginu. Og þá á ég ekki við að gagnrýnin hugsun sé komið á hærra plan, nei ofsóknarbrjálæðið er alls staðar.
Sífellt stækkandi hópur fólks trúir því að lyfjafyrirtækin séu í einhverju allsherjar samsæri um að eitra fyrir ungabörnum með stórhættulegum bóluefnum. Hver hefur ekki heyrt mýtuna um að bólusetning ungbarna auki líkurnar á því að einstaklingurinn sem bólusettur er þrói með sér einhverfu. Algjör dómsdagþvæla, sem vísindin eru löngu búin að hrekja, en villan veður áfram og hópur villuráfandi fólks dreifir úr sér og stefnir okkur hinum í voða með eitruðu viðhorfi sínu.

Þá eru heilu netsamfélögin um allan heim, stórir hópar fólks sem skilgreina sig sem „flat earthers“ eða fólk sem trúir því að jörðin sé flöt. Ekkert fær haggað þessu fólki í villu sinni og þess væri óskandi að það fengi sér langan göngutúr fram af brúninni.
Þessi villa er líka til á minni skala en er ekki síður skaðleg fyrir alla umræðu. Digurbarkalegar yfirlýsingar eru látnar flakka í kommentakerfum og í umræðum á samfélagsmiðlum og er sannleikurinn alls ekki alltaf hafður að leiðarljósi.
Því ætlar Víkurblaðið að svara kalli og byrja með staðreyndavakt. Markmiðið er skýrt. Hvar sem stórar fullyrðingar verða áberandi í opinberri umræðu sem hefur tengingu við Þingeyjarsýslur og Þingeyinga; og þar sem ekki eru færð fullnægandi rök fyrir þeim, þá kemur Víkurblaðið til skjalanna. Og reynir að afla gagna sem annað hvort sanna eða afsanna viðkomandi fullyrðingar.

Nú þegar eru fleiri slíkar fullyrðingar í rannsókn og hafa verið sendar viðeigandi aðilum og stofnunum til rannsóknar. Kallað hefur verið eftir gögnum sem munu varpa ljósi í eitt skipti fyrir öll á ýmiss ágreiningsmál sem komið hafa upp innan samfélags okkar.