Í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands er mikið um dýrðir í Þingeyjarsýslum. Meðal viðburða eru hátíðartónleikar Kvennakórs Húsavíkur sem fara fram í Húsavíkurkirkju klukkan 17 1. desember. Kolbrún Ada Gunnarsdóttir flytur hátíðarræðu við tilefnið.

„Við í kvennakórnum ætlum að hafa hátíðardagskrá en ekki hefðbundna jólatónleka í ár. Við Unnur Hafliða fengum þessa hugmynd strax í vor að syngja ekki alltaf sömu jólalögin,“ segir Ásta Magnúsdóttir í samtali við Víkurblaðið.

Píanó leikari er Steinunn Halldórsdóttir og engin önnur en Hólmfríður Benediktsdóttir stjórnar kórnum af sinni alkunnu snilld en nú stefnir í kynslóðaskipti því Ásta dóttir hennar tekur við kórnum á næsta ári.

Á tónleikunum verða flutt íslensk ættjarðarlög við ljóð þjóðskálda okkar sem ruddu braut þjóðarinnar í átt að sjálfstæði Íslands „Þetta eru svona kvennakórsútsetningar,“ útskýrir Ásta. /epe