Takk fyrir viðtökurnar

Leiðari

Þetta nýja tímabil Víkurblaðsins fer vel af stað og viðtökurnar hafa verið framar fáránlegustu vonum mínum.

Árnaðaróskum hefur rignt yfir mig á þessum fyrstu dögum mínum sem sjálfstæður útgefandi; slíkan meðbyr hef ég fengið og skynjað frá ykkur lesendur mínir, að hrjúft hjarta mitt er orðið að dísætu hlaupi.

Þessi fyrstu skref nýja Víkurblaðsins hafa verið harður en góður skóli. Stóran hluta starfsins er ég enn að læra á meðan ég framkvæmi. Og þó vökustundirnar séu óhóflega margar þá hífar reynslan mig gleði. Það má eiga von á því að Víkurblaðið taki sér nokkra mánuði í það að fullmótast og ritstjórnarstefnan að slípast til.

ÉG vil því nota tækifærið um leið og ég þakka ykkur af öllu mínu hjarta fyrir viðtökurnar og kveðjurnar; að hvísla að mér hugmyndum; verið ófeimin við að gagnrýna mig; látið mig vita af viðburðum og því sem er að gerast í kringum okkur. Sérstaklega þið sem búið utan stór-Húsavíkursvæðisins. Ég óska þess svo innilega að geta sinn öllum Þingeyingum eins vel og þið eigið skilið.

Fyrirmyndir

Öll samfélög þurfa á góðum fyrirmyndum að halda. Fólki sem á einn eða annan hátt þjappar okkur saman, fyllir okkur stolti og vísar okkur veginn. Við vinnslu á þessu tölublaði rötuðu tvær konur í fréttirnar, af sitthvorri kynslóðinni. Konur sem hvor um sig setur okkur hinum viðmið sem vert er að fylgja.

Önnur þessara kvenna er Elísbet Ingvarssdóttir sem er nemandi í 5. bekk Borgarhólsskóla. Hún lauk nýlega við að lesa hundruðustu bók sína á þessu ári en hún setti sér það markmið um miðjan janúar sl. að lesa hundrað bækur fyrir árslok. Fréttir af þessu tagi eru ákaflega ánægjulegar ekki síst vegna þess að heimsendaspám læsis og Íslenskunnar  hefur svo gjarna verið haldið á lofti í fjölmiðlum undanfarin ár og þjóðfélagsumræðan hefur á köflum verið sjóðandi heit þegar kemur að þessu málefni. Það er meira en að segja það að bjóða slíkri neikvæðni birginn og sína fram á það með jafn skýrum og afgerandi hætti og Elísabet hvernig megi ná markmiðum sínum og vera um leið fyrirmynd annarra til að ná sama árangri. Vel gert Elísabet.

Anna Karólín Vilhjálmsdóttir er hin konan sem er fyrirmynd sem eftir er tekið. Hún er handhafi Kærleikskúlunnar 2018 sem Eliza Reid forsetafrú afhenti henni við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum á dögunum. Árlega velur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra handhafa Kærleikskúlunnar í viðurkenningarskyni fyrir mikilvæg störf í þágu fatlaðra í samfélaginu. Anna Karólína er vel að þessari viðurkenningu komin enda hefur hún unnið algjört brautryðjenda starf í þágu fatlaðra og stutt við og eflt íþróttaiðkun þeirra um árabil en hún er framkvæmdastjóri Special Olympics og þróunarsviðs Íþróttasambands fatlaðra á Ísland. Anna Karólína er svo sannarlega ein af flottustu fyrirmyndum sem Húsavík hefur alið af sér.

Njótum tímans… saman

Nú er vel liðið á aðventuna og jólin á næsta leiti, jólalögin taka sífellt meira pláss á öldum ljósvakans, flestum til gleði en öðrum til ama. Aðventan og jólin eru tími hamingjunnar, hátíð þess mennska í okkur og minnir okkur á að það er kærleikurinn sem gerir okkur að manneskjum.

Það er samt ekki alltaf jafn einfalt að finna þessa mennsku á þeim hröðu tímum sem við lifum á. Það er pressa alls staðar frá, að vera svona eða hinsegin, kaupa þetta eða hitt og svo framvegis. Það getur verið auðvelt að falla í freistni og eyða um efni fram, ekki síst vegna sífellt gylltari tilboða um að kaupa núna og borga seinna. Og alltaf hangir hún yfir okkur þessi krafa um að kaupa meira drasl og ekki ætla ég að setjast í hásæti og þykjast öðrum betri í þessum efnum.

Einhvern veginn finnst mér eins og sífellt fleira fólk gangi um með nagandi tómleika  tilfinningu innra með sér og þurfi sífellt að vera leita eftir einhverju utanaðkomandi til að fylla þetta tómarúm með gleði og hamingju. Hvort sem það er jólabjór eða hlutir úr plasti, nýtt sjónvarp á raðgreiðslum eða utanlandsferð á yfirdrætti, þá er fróin sem af því hlýst skammvinn og tómleikinn nagar eftir sem áður. Það er nefnilega þannig að þetta tómarúm sem svo margir finna fyrir þarf alls ekki að fylla heldur tæma, og þegar tekið er til í þessu svo kallaða tómarúmi kemur oftar enn ekki í ljós að hamingjan var þarna eftir allt saman, alveg sultuslök innra með okkur en samt í hálfgerðri kremju út af öllu stressinu og vitleysunni ofan á henni. Og þegar við finnum þessa hamingju þá áttum við okkur betur á því hvað er í raun og sann mikilvægt í þessu lífi og það er tíminn. Hvernig við verjum honum og með hverjum. Og tíminn okkar er líka besta gjöfin sem við getum gefið þeim sem okkur þykir vænt um. Gleðileg jól.

Egill P. Egilsson