Texti: Egill P. Egilsson


Notalegir straumar fóru um undirritaðan við annars óákjósanlegar aðstæður á laugardagskvöld fyrir viku. Ég var að aka um þjóðveg 85 í átt til Húsavíkur í myrkri, hríð og þæfingsfærð. Gildi lista í samfélaginu var mér umhugsunarefni, hversu mikilvæg listin er okkur manneskjunum þó stundum áttum við okkur ekki á því. Sérstaklega verður maður var við að listin sé töluð niður, einmitt þegar vel árar efnahagslega í samfélaginu sem við búum í. En þegar kreppir að finnum við betur fyrir því tómarúmi sem verður ef við hleypum ekki listinni að hjartanu. Þá virðumst við hafa meiri þörf fyrir að láta skemmta okkur, vekja okkur til umhugsunar um það óhversdagslega eða bara almennt að láta hreyfa við okkur. Það er nefnilega alltaf listin sem að dregur fram mennskuna í okkur þegar ekkert annað er fært um það. Þetta ættum við alltaf að hafa hugfast hvernig sem árar.

Ástæða þessa ljúfu hugrenninga minna í bílstjórasætinu á S-kóreskum jepplingi fyrir rúmri viku síðan var sú að ég var á heimleið úr Reykjadal, þar sem ég hafði verið á minni fyrstu frumsýningu Leikdeildar Eflingar að Breiðumýri.

Leikfélagið frumsýndi verkið Brúðkaup eftir Guðmund Ólafsson en á síðasta leikári sýndi leikfélagið einmitt verk eftir sama höfund, Stöngin inn! Alls var síðarnefnda verkið sýnt 17 sinnum og voru áhorfendur yfir 1200 talsins.

Vala Fannell, leikstsjóri.

Brúðkaup er annað skiptið á Breiðumýri fyrir fleiri en höfundinn; en Vala Fannell sér um leikstjórn annað leikárið í röð. Hún hefur getið sér góðan orðstír, bæði sem leikstjóri og leikkona enda verið viðriðin leiklist frá því hún fékk sitt fyrsta hlutverk í atvinnuleikhúsi 7 ára gömul. Jaan Alavere stjórnar tónlistinni eins og svo oft áður og gerir það  snilldarlega.

Ég verð að játa að Brúðkaup er ekki aðeins fyrsta frumsýningin sem ég sé á fölum félagsheimilisins að Breiðumýri heldur fyrsta leikverkið yfir höfuð í dalnum fagra, þó ég skammist mín fyrir að játa það. Ég hafði vissulega heyrt talað um sérlega skemmtilega stemningu á leiksýningum Eflingar en aldrei látið verða af því að taka rúntinn í dalinn að sjá sýningu fyrr en nú. Og fyrsti dómur fellur þar með og hann sá að þetta er örugglega ekki í síðasta sinn sem ég fer í leikhús í Reykjadal.

Brúðkaup fjallar, eins og titillinn bendir til, um brúðkaup. Í verkinu er Herdís Eva loksins gengin út og ætlar að ganga að eiga hann Bjarna Þór, sem er traustur starfsmaður Heimilistækja. Ýmislegt fer úrskeiðis í brúðkaupinu eins og von er til í gamanleik. Í fyrsta lagi leggst séra Guðrún í lungnabólgu og þá verður að kalla til fyrrverandi sóknarprest sem er farinn að kalka allverulega. Það tekur því nokkurn tíma að gefa brúðhjónin saman á hlaðinu við gamalt félagsheimili sem stendur úti í sveit. Síðan er boðið til veislu inni. Það vill svo óheppilega til að veislustjórinn er ákaflega ástfanginn af brúðinni og reynir hvað hann getur til að ná ástum hennar

Það er aðdáunarvert hvernig þetta skemmtilega áhugamannaleikhús nær að gera úr annars litlu sviði og umgjörð. Sviðsmynd er til fyrirmyndar og þó að leikreynsla leikaranna sé misjöfn og valdið á listforminu eftir því, þá skín leikgleðin í gegn alla sýninguna og aldrei dauð stund.

Reynsluboltarnir, bræðurnir frá Hömrum stíga ekki feilspor frekar en endranær og eiga hvor um sig nokkrar ógleymanlegar senur. Fyrir ókunnuga þá er ég að sjálfsögðu að tala um Hörð og Jón Benónýssyni. Sá fyrr nefndi fer með hlutverk Ásgeirs Þórs, föður brúðgumans en Jón fer með hlutverk séra Egils. Þeir bræður eiga á þriðja tug leikverka að baki með leikdeild Eflingar.

Tónlistarstjóranum og Leikstjóranum klappað lof í lofa. Mynd/epe

Jakob Á. Róbertsson fer með eitt aðalhlutverkanna í frumraun sinni með Eflingu en hann leikur brúðgumann, Bjarna Þór. Eftir smá taugatitring í byrjun óx Jakob með hverri mínútu og átti fantafína frumraun. Sömu sögu er að segja af öðrum leikendum með minni reynslu, voru fljótir að finna taktinn og róa frumsýningartaugarnar og sýningin varð betri eftir því sem á leið. Það var kraftur í leik Erlu Ingileifar Harðardóttur sem fer með hlutverk brúðarinnar. Systir brúðarinnar, hin þrígifta (og fráskilda) Elín Rós varð að einni skemmtilegustu persónu sýningarinnar í fumlausri túlkun Guðrúnar Gísladóttur; meinfyndin og öryggið uppmálað.

Að öllu öðru ólöstuðu þótti mér mest um sjálfa upplifunina;  af því að sitja til borðs með kaffi og með því frá Kvenfélagi Reykdæla nánast ofan í hljómsveitinni og í slíkri nálægð við sjálft leikverkið að manni leið eins og hluti af sýningunni. Fullssetinn salurinn var líka mjög góður og upplifunin af því að finna hversu mikla þýðingu óþreytandi starf Leikdeildar Eflingar og afurðirnar frá þeirri merku stoð hefur á mannlífið í samfélaginu, fyllti mig aðdáun og nautn. Þessi aðdáun mun fylgja mér áfram og hér með verð ég árlegur gestur Leikdeildar Eflingar á Breiðumýri.