Hilda Kristjánsdóttir

Bókin á náttborðinu mínu heitir ,,Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant” og er eftir Gail Honeyman.

Sagan fjallar um Eleanor, konu sem lifir einföldu lífi og þykir stórskrítin af samstarfsfólki hennar. En eitthvað hefur komið fyrir hana, eitthvað sem skýrir hegðun hennar, örin í andliti hennar og múrana sem hún hefur reist í kringum sig. Svo gerist atvik, sem brýtur upp hversdagsleikann og neyðir hana til að horfast í augu við allt sem hún hefur afneitað fram að þessu. Atvik sem færir henni ný tengsl við lífið.
Þetta er fyrsta skáldsaga Honeyman og var hún tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna og seld til margra landa áður en hún kom út.

Að nefna eina bók sem hefur haft sterk áhrif á mig er erfitt, því það koma nokkrar til greina en mig langar að nefna að þessu sinni bókina ,,Bræður af Ströndum” eftir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing.
Bókin er heimildarit sem hefur að geyma sýnishorn úr textum þeirra bræðra Halldórs og Níelsar Jónssona auk þess sem birt eru bréf eftir þriðja bróðurinn, Ísleif og einnig bréf ekkju Halldórs, Elínar Samúelsdóttur.

Eftir þá Halldór og Níels liggja miklar skrifaðar heimildir af ýmsum toga en báðir voru þeir fátækir bændasynir á síðari hluta nítjándu aldar sem síðar hófust upp í stétt sjálfstæðra bænda og ólu allan sinn aldur í Strandasýslu. Texti þeirra veitir nákvæma innsýn í líf fólks á fyrri tíð.

Bók þessi er sú fyrsta í ritröð sem nefnist Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Ritröðinni er ætlað að birta persónulegar heimildir sem varðveittar eru í handritasöfnum og hafa ekki áður komið fyrir sjónir almenning né fræðimanna.

Bókin hafði djúpstæð áhrif á mig og ekki spilltu fyrir þjóðfræðilegu nálganirnar sem Sigurður Gylfi notaðist við. Fyrir vikið nær lesandi að lifa sig algjörlega inn í efnivið bókarinnar, finna fyrir fátæktinni, ástinni, kulda, lykt og vonleysi. Það kvikna einhverjar dulmagnaðar tilfinningar við það að lesa þessa bók, svo miklar að þú gleymir henni aldrei og talar oft um hana.