„Þarna má finna bæði ástir og svik, spennu og drama“

Bókin mín: Kristjana María Kristjánsdóttir

Kristjana María Kristjánsdóttir er búsett á Rennesøy, Rogalandi í Noregi. Hún segir frá bókinni á náttborðinu:

Í þessum töluðu orðum hef ég á náttborðinu mínu bókina Þyrnifuglarnir eftir Colleen McCullough.

Úr sjónvarpsseríu sem gerð var eftir bókinni á 9. áratugnum.

Þessa bók las ég fyrir mörgum árum og hef haft hana í „baköfðinu“ eins og við segjum hér í Noregi, alveg síðan þá. Hef í þó nokkurn tíma ætlað mér að lesa hana aftur en það var ekki fyrr en núna á nýju ári að ég skellti þessari 661 blaðsíðna bók á náttborðið.

Þó ég sé lestrarhestur og bókaunnandi mikill þá vita þeir sem þekkja mig að 661 blaðsíða verður stór áskorun fyrir sveimhuga mig sem er stútfull af athyglisbrest. Þetta verður spennandi og mun taka svakalega langan tíma.

Bókin fjallar um ástir ungrar konu og prests í áströlsku óbyggðunum. Sagan spannar sögu þriggja kynslóða og byrjar í Nýja Sjálandi, berst þaðan til Ástralíu og svo til Evrópu. Þyrnifuglarnir var metsölubók víða um heim og gerðir voru sjónvarpsþættir eftir bókinni sem nutu mikilla vinsælda.

Það eru skemmtilegar lestrarstundir framundan hjá mér og ég man hversu mikil áhrif bæði sagan sjálf, umhverfið og persónurnar höfðu á mig þegar ég las þessa bók fyrst. Það eru þannig bókatilfinningar (já þetta er nýtt orð) sem ég elska.

Þess má geta að síðustu þrjá daga hef ég ekki litið í bókina þar sem ég fékk sendingu að heiman af Víkurblaðinu og sit núna og skemmti mér konunglega yfir fréttum,  greinum og myndum og alls konar skemmtilegheitum frá heimabænum. Yndislegt.

Það sem situr í mér eftir þann lestur er að mig langar alveg ofboðslega mikið í leikhús!

Það er erfitt að velja eina bók sem hefur haft áhrif á mig. Ég hef ótrúlega gaman af Íslendingasögunum og ef ég á að velja bara eina þá ætla ég að velja Laxdælu, afhverju? Jú því mér fannst alltaf svo ótrúlega gaman að kenna þá bók í Borgarhólsskóla. Man skýrt og greinilega að ég hafði nú mun meira gaman af henni en nemendur mínir oft á tíðum en mér fannst hún bara skemmtilegri og skemmtilegri eftir því sem ég las hana og kenndi hana oftar.

Þarna má finna bæði ástir og svik, spennu og drama, svo ekki sé minnst á ástarþríhyrninginn fræga… allt sem rómantíkusarfíkillinn (já annað nýtt orð) ég þarf. Ætli Guðrún hafi ekki hitt naglann á höfuðið þegar hún sagðist hafa verið þeim verst sem hún unni mest. Það á sennilega oft við marga í dag… bara á annan hátt.