Anita Karin Guttesen er Þingeyingur í nærmynd

Umsjón: Sigrún Aagot


Þingeyingurinn í nærmynd að þessu sinni er leirlistakonan Anita Karin Guttesen sem býr á Laugum í Reykjadal, hún er þriggja barna móðir, gift og kennari að mennt. Undanfarin ár hefur Anita Karin staðið fyrir leirnámskeiðum fyrir byrjendur í Listasmiðjunni á Laugum.

Hvað ertu að kenna á keramik námskeiði?

Ég kenni grunnatriði leirmótunar, þ.e. klassískar aðferðir við að móta leir og byggja upp nytjahlut eða skúlptúr. Ég kenni reyndar ekki leirrennslu, til þess þarf ég fleiri rennibekki, en við erum að rúlla út leirpylsur, fletja út plötur, byggja upp með leirkúlum, vinna í gipsmót svo eitthvað sé nefnt.

Ég reyni að hlusta eftir því hvað hver og einn vill gera og hjálpa þeim svo við að komast í mark með hugmyndir sínar. Þannig að verkefnin eru oftast einstaklingsbundin og útkoman ansi fjölbreytt hjá þátttakendum. Ég hef verið mjög heppin með þátttakendur því ég sjálf læri líka í hvert skipti sem ég held námskeið. Ég reyni svo að fræða um eðli leirsins sem hefur mikil áhrif á vinnuferlið, hvernig t.d. raki og þurrkun hjálpa til í ferlinu. Leirinn er vandasamur í umgengni og krefst þolinmæði. En á sama tíma er hann líka þakklátur efniviður sem maður getur leyft sér að vera hispurlaus við í framkvæmd.

Næstu skref í ferlinu, sem eru brennsla og glerjun, hafa einnig mikil áhrif á lokaniðurstöðuna og stundum koma verkin öðruvísi út en stóð til. Oft eru það gjafir sem maður fær þegar maður opnar ofninn og einstaka sinnum súr lærdómur sem maður þarf að draga af vinnuferlinu. En leir er afar gefandi efniviður að vinna með og segja flestir sem prófa að hann hafi ótrúlega róandi áhrif og veiti slökun og vellíðan. Enda koma þátttakendurnir aftur og aftur.

Uppruninn skiptir máli

Anita Karin að störfum

Anita Karin segir að það skipti hana miklu máli hvaðan hún kemur. „Hvað ég hef upplifað á 40 árum, fólkið sem ég umgengst, fjölskylda mín og vinir. Ég er t.d. hálfur Færeyingur sem hefur alltaf verið stór hluti af mér þó ég hafi ekki endilega getað útskýrt það, fyrr en ég fór að fara þangað oftar á fullorðinsárum. Gæði fólksins í Færeyjum, náttúran og menningin þar talar sterkt til mín og gefur mér einhverja óútskýrða vellíðan og næringu þegar ég er þar. Svo er ég alin upp í Danmörku, Mosfellsbæ og hef búið ca. hálfa ævina á Laugum. Afar ólík umhverfi, aðstæður með alls konar fólki og samskiptum sem hafa haft áhrif og kennt mér á eitt og annað um lífið og tilveruna.

Það að eiga rætur annarsstaðar held ég styrki mann í að skilja annað fólk og menningu. Tenging við fólk og náttúru eru hluti af mér, enda sé ég það í verkum mínum þó það sé ekki bein hugsun á bakvið það. Litir, blæbrigði, andstæður hrífa mig. Eftir listnámið og dvöl í Danmörku á fullorðinsárum togaðist lengi á í mér hvort ég ætti að helga mig alfarið listinni eða halda áfram starfi mínu sem kennari og hafa listina sem hliðargrein sem getur þá vaxið eða skroppið saman eftir aðstæðum hverju sinni. Hið síðarnefnda varð niðurstaðan því það rann upp fyrir mér að það er nauðsynlegt að vinna með öðru fólki þó að einveran og næðið hafi sína kosti í listinni.“

Hvernig kviknaði áhugi þinn á keramiki?

„Það var að einhverju leyti tilviljun en samt þegar ég hugsa til baka blundaði þessi sköpunarþrá í mér. Ég hef alltaf haft eitthvað skapandi við hönd eða í kollinum en gerði aldrei neitt í því. En í grunninn er sagan soldið einföld. Við ákváðum að elta námsdraum til Danmerkur og þegar þangað var komið leiddi eitt af öðru. Ég var ekki ákveðin hvað ég ætlaði að gera, var fyrst í fæðingarorlofi með yngsta barnið okkar. Við bjuggum í nokkurskonar Íslendingahverfi þar sem ég frétti af listaskóla í Árósum. Það var eitthvað sem heillaði við að fara í fullt nám í listaskóla og leirlistin kallaði bara sterkt á mig. Þannig einn daginn sótti ég um, skilaði inn gögnum og fór í viðtal og nokkrum dögum seinna var ég komin inn ásamt nokkrum öðrum góðum íslenskum konum úr hverfinu. Við tók afar krefjandi en skemmtilegur tími, sem ég mun alltaf hugsa til baka með þakklæti yfir því hvað ég lærði og öllum þeim skrefum sem ég tók næstu fjögur árin í náminu. Ég skipti svo yfir í skúlptúradeild á þriðja ári þar sem við unnum bæði klassískt með módel og leir/skissur/gifs en pældum mikið í nútímalist, innsetningum og útilistaverkum.

Er hægt að lifa á því að gera keramik?

„Já ef þú virkilega helgar þig því og ert hæfileikaríkur. Þetta er eins og með annað, þú þarft að vinna fyrir því, sýna seiglu og úthald, vera frumlegur og áræðinn, smá heppinn en þó aðallega trúr sjálfum þér. Við Íslendingar eigum ótrúlega marga flotta leirlistamenn og sumir þeirra ná að lifa af því.“

Er þetta námskeið fyrir byrjendur sem og lengra komna?

„Ég reyni að koma til móts við alla. Ég fer alltaf yfir grunnatriðin á hverju námskeiði miðað við byrjendur og oftast eru allir að bæta einhverju við. Þeir sem koma aftur eða hafa fyrri reynslu taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og halda áfram og ég reyni að gefa góð ráð um útfærslur og/eða möguleika í stöðunni. Þannig allir geta komið og byrjað á sínum hraða. Að vinna í leir er eitthvað sem allir ættu að kynnast því maður lærir svo margt um sjálfan sig í leiðinni, svo er þetta svo skemmtilegt.

Næsta námskeið byrjar 3. mars og stendur yfir fjóra sunnudaga, frá klukkan 09:00-13:00.