Fjölskylduráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum á dögunum að hefja verkefnið „Þjónustan heim“ en það leysir af hólmi það sem áður hét heimaþjónusta aldraðra. Verkefninu er ætlað að efla heilsu og lífsgæði aldraðra með aukinni þjálfun og hreyfingu með faglegri leiðsögn sjúkraþjálfara. „Þjónustan heim“ mun svo sinna eftirfylgni. Þjónustan mun ná til um það bil 60 heimila í sveitarfélaginu.

 

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags

er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

„Við erum að auka fjölbreytni og miða þjónustuna að öllum sem á henni kunna að halda, hvort sem það er hjálp við að komast á fætur eða, innlit með samveru, aðstoð við að versla eða heimaþrif. Allt fellur þetta nú undir þjónustuna heim,“ sagði Hróðný Lund félagsmálastjóri í samtali við Víkurblaðið á dögunum.

Björg Björnsdóttir hélt erindi á föstudag fyrir starfsfólk heimaþjónustunnar sem hún byggir á mastersverkefni sínu um heilsueflingu aldraðra. Blaðamaður Víkurblaðsins fékk að lauma sér með á fyrirlesturinn  en þar komu fram margar áhugaverðar hugmyndir.

„Okkur langaði til að fara í svona hreyfiverkefni eins og verið er að gera í Sóltún Heim, í Reykjavík. Spáð er 60% aukningu í þjónustu við aldraða næstu 15 árin og því er verið að reyna auka hreyfingu og getu fólks með það að markmiði fólk haldi sjálfstæði sínu lengur. Starfsfólk Þjónustunnar heim er að fara í þjálfun hjá Björgu til að læra þessar æfingar. Það mun svo fylgja fólki í þjálfun einu sinni í viku auk þess að gera þessar æfingar með fólki heima fyrir í heimsóknum,“ útskýrir Hróðný og bætir við: „Þetta er í raun fyrsta stóra opinbera verkefnið sem við í félagsþjónustunni byrjum á í tengslum við heilsueflandi samfélag.

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök o.fl.

Á erindinu kom m.a. fram að 60 til 85 prósent aldraðra um allan heim hreyfa sig ekki að gagni og kyrrseta er algeng dánarorsök. Þá kom fram að ýmsar rannsóknir bendi til þess að með aukinni líkamlegri áreynslu geti aldraðir dregið verulega úr ýmsum kvillum sem valda því að þeir þurfi á læknisþjónustu og stofnanavistun að halda. „Í sveitarfélaginu Norðurþingi er engin opinber stefna til í heilsueflingarmálum aldraðra. Mér finnst því felast nokkur áskorun í því að vinna að verkefni sem gæti nýst til þess að auka hreyfingu aldraðra í Norðurþingi og sem innlegg í stefnumótun heilsueflingar aldraðra. Ástæðan fyrir því að aldraðir eru teknir sem sérstakur hópur í þessu verkefni er að þeir hafa ákveðna sérstöðu. Mögulega gætu þeir orðið útundan í almennri heilsueflingu vegna þess að ekki er tekið nægjanlegt tillit til þarfa þeirra, reynslu og getu,“ sagði Björg og bætir við „Engin stefna í málefnum aldraðra er til í Norðurþingi. Ég tel að heilsueflandi aðgerða sé þörf í sveitarfélaginu ekki síst til þess að gera öldruðum kleift að búa lengur sjálfstætt og draga úr þörf hjúkrunarrýma í framtíðinni.

/epe.