Texti: Sigrún Aagot

Ljósmyndir: Halldóra Kristín/ HKB Photography


Halldóra Kristín Bjarnadóttir (Dóra Kristín) og Örn Björnsson búa í fallegu einbýlishúsi við Þingeyjarskóla í Aðaldal. Þau hafa lagt sitt af mörkum við að auðga hið þingeyska samfélag, en þau eiga tveggja ára dóttur, hana Iðunni Emblu og eru að undirbúa komu nýs erfingja. 

Örn segir að Dóra Kristín hafi sannfært hann um að flytja í Þingeyjarsveit. „Það var eiginlega spurning um að flytja hingað eða á Vopnafjörð. Ég vildi vera á Vopnafirði, og hún í Aðaldal“, segir Örn, en hann er frá Vopnafirði.

Örn Björnsson og Halldóra Kristín Bjarnadóttir. Mynd: aðsend/Halldóra Kristín

Dóra Kristín ólst upp í Aðaldal og segist alltaf hafa kunnað vel við þetta svæði. „Sérstaklega eftir að ég flutti burt og fór í nám erlendis, þá fannst mér alltaf betra og betra að koma heim“. Dóra Kristín segir að Aðaldalur hafi boðið upp á meiri atvinnutækifæri fyrir sig, en hún er ljósmyndari. „Við prófuðum að vera með annan fótinn á Vopnafirði í 2 ár og okkur líkaði það mjög vel, en Aðaldalur bauð upp á aukin tækifæri fyrir mig, maður er aðeins meira miðsvæðis og getur þannig þjónustað stærri markhóp“. „Við ætluðum að prófa að leigja hérna einn vetur, vegna þess að hérna hefur Dóra Kristín tækifæri fyrir ljósmyndunina. Síðan skoðuðum við þetta hús og vorum sannfærð um að kaupa það.“

„Maður verður sjálfur að drífa sig af stað“

Dóra Kristín er innfæddur Aðaldælingur og er með öflugt bakland í sveitinni. Örn játar að það hafi verið stór kostur. „Dóra er náttúrulega að koma heim, það þekkja hana allir hérna,“ segir hann en tekur fram að samfélagið hafi einnig tekið vel á móti sjálfum sér.

Að sögn Dóru Kristínar er það allt of algengt að fólki finnist eins og ekkert sé um að vera í litlum samfélögum. „Það byggir svolítið á manni sjálfum að kynnast fólki, maður verður sjálfur að drífa sig af stað.“ Þau hafa hvort um sig búið á höfuðborgarsvæðinu og erlendis, en segjast ekki hafa upplifað það að hafa minna fyrir stafni á landsbyggðinni.

Örn og Iðunn Embla njóta náttúrufegurðarinnar í Aðaldal.

Örn tekur heilshugar undir þetta. Hann segir að þetta sé eitthvað sem þau þekki vel, enda bæði fædd og uppalin í minni samfélögum úti á landi. „Þegar maður býr úti á landi er það sjálfum manni að kenna ef manni leiðist,“ segir Örn og bætir strax við: „Það er ekki hægt að ætlast til þess að einhver hafi ofan af fyrir þér, ábyrgðin er þín. Í svona litlu samfélagi gerir maður sér grein fyrir því hvað það er mikilvægt að leggja hönd á plóg til að samfélagið þróist, við sem ungt fólk getum ekki kvartað og sagt að sveitarfélagið ætti að gera hitt og þetta, það er undir okkur komið að gera það.“

Vantar sjoppu í sveitina

Ég myndi dýrka það ef það væri einhver staður í dalnum þar sem maður gæti kíkt á daglega og rifið kjaft við Aðaldælinga

Örn og Dóra Kristín eru sammála um að þjónustan í sveitarfélaginu sé mjög góð, stutt sé til Húsavíkur þar sem öll þjónusta er til staðar, ásamt því sem þau reyna að versla í heimabyggð. Iðunn Embla fæddist á Akureyri og voru foreldrarnir mjög ánægðir með þjónustuna þar. „Við lágum inni í nokkra daga að dúlla okkur“, segir Örn og Dóra Kristín tekur undir orð hans: „Ég er mikið að fá ungabörn í myndatökur og það láta allir mjög vel að þjónustunni á Akureyri, ég held að við séum mjög heppin með þetta allt.“

Hins vegar má alltaf vera meiri fjölbreytni í samfélaginu að sögn Arnar: „Mér finnst vanta sjoppu, eða einhvern stað þar sem fólk rekst á hvert annað. Hér í þessum dal er enginn svona staður, þó það sé alltaf ljúft að fara í Dalakofann, en það er þó smá spölur“, útskýrir hann og bætir við að það sé fullt af fólki í sveitinni sem sjáist aldrei nema á þorrablóti. „Ég myndi dýrka það ef það væri einhver staður í dalnum þar sem maður gæti kíkt á daglega og rifið kjaft við Aðaldælinga“, segir Örn.

„Þú aðlagast því samfélagi sem þú elst upp í“

Dóra Kristín viðurkennir að hún hafi verið skeptísk varðandi félagslífið í sveitinni. „Það kom mér á óvart“, segir hún en hennar áhyggjur voru meðal annars fámennið, hvernig væri fyrir börnin okkar ef þau væru ein í árgangi. Hún bætir því við að Örn hafi verið jákvæðari yfir þessu og þetta yrði eitthvað sem þau myndu bara takast á við.

Örn segir að það væri það besta í stöðunni að hafa fullt af börnum hérna, en bætir því við að það sé ekki endilega slæmt að börn séu í fámennum bekkjum eða eigi færri vini: „þá áttu bara betri vini, þú aðlagast því samfélagi sem þú elst upp í. Þetta er ekkert verra en annarsstaðar, bara öðruvísi.“

Iðunn Embla ásamt heimilshundinum Hnotu

Örn og Dóra Kristín sjá það ekki sem hindrun að þurfa í framtíðinni að keyra Iðunni Emblu til Húsavíkur eða Akureyrar, á æfingar eða til að sækja félagslíf. Þau bæta því við að núna geta leikskólabörn í sveitinni mætt í íþróttaskóla á laugardögum í Ýdölum, svo eru frjálsar og sundæfingar fyrir eldi börn á Laugum.

Vilja sjá sameiningu

Örn myndi helst vilja hafa öflugt knattspyrnufélag í sveitarfélaginu, bæði fyrir börnin en einnig sem sameiningartákn. „Þetta er pínu flókið, hér er svo mikið af héraðssamböndum og rígur þeirra á milli,“ segir Örn og vill hann sjá sameiningu, þrátt fyrir að hann efist um að það muni gerast. „Annað hvort fara allir í fótbolta hjá Völsungum eða KA eða öll þessi sambönd innan sveitarfélagsins sameinast í eitthvað eitt,“ segir hann og bætir við að sér finnist eins og það sé yfirleitt einhver ein manneskja í hverju héraðssambandi sem vill halda þessu óbreyttu.

Stundum vildi ég óska þess að við gætum haft tíma til að láta okkur leiðast

Örn og Dóra Kristín eru ekki eina barnafólkið í sveitinni, „Það eru mömmuhittingar, ungt fólk og barnafólk hópar sig saman og reynir að hittast, það vita allir að það er auðvelt að lokast inni“, segir Örn. Þegar Dóra Kristín eignaðist Iðunni Emblu voru mæður að bjóða henni í mömmuhópa, bæði á Húsavík og líka í sveitinni. „Það var alveg hellingur af félagslífi sem maður gat sótt sér.“

Þau segja að þegar þau beri sína upplifun saman við sögur sem þau heyra af vinum sínum sem búa annars staðar, átta þau sig á því hvað samfélagið og leikskólinn sé liðlegur. „Leikskólinn var tilbúinn að taka við Iðunni Emblu 9 mánaða ef við hefðum þurft á því að halda,“ segir Dóra Kristín, en vinnufyrirkomulagið hjá henni var með því móti að þau gátu skipulagt sig þannig að hún byrjaði á leikskóla þegar það hentaði þeim.

Gönguleiðirnar í Aðaldal eru engum líkar.

„Leikskólinn er alveg frábær,“ segir Örn. Þau nefna til dæmis sögur af fólki sem reynir að brúa bilið til 2-3 ára aldurs, þar sem er ekki pláss í leikskólum eða hjá dagmömmum. „Þetta er eitthvað sem við þekkjum ekki,“ segir Dóra Kristín og tekur fram að þau hafi getað valið um að Iðunn Embla væri ekki í leikskóla á föstudögum, og þurfa þar af leiðandi ekki að greiða fullt gjald, en það eru ekki allir leikskólar sem geta boðið upp á svona liðlegheit. „Það eru mörg atriði sem eru ekki sjálfsögð en eru hér í boði“, útskýrir hún.

„Þeim fannst ég vera að setja starfsvettvang minn og frama á frest“

Spennandi tímar framundan í AðaldalÖrn segir að þau hafi flutt á besta tíma í Aðaldal. „Það eru svo mörg börn hérna í Aðaldal, leikskólinn er að springa, allt fullt af börnum“, segir hann og nefnir Vopnafjörð til samanburðar, en þá var til dæmis 2015 árgangurinn barnlaus. „Það er mjög niðurdrepandi fyrir samfélagið þegar það sér að það sé að deyja út“, en tekur fram að börnunum hafi þó fjölgað á Vopnafirði.

Leikskólinn Barnaborg flytur í stærra húsnæði næsta haust, yfir í Þingeyjarskóla þar sem áður var sundlaugaraðstaða og lítið nýtt rými. „Það eru mjög spennandi tímar framundan, það er verið að græja nýjan leikskóla og það verður gaman að sjá hvernig það þróast“, segir Dóra Kristín.
„Við sluppum við versta tímann í skólasameiningunni, við erum að sjá kostina í þessu þegar þetta er svona hægt og rólega að sameinast“, útskýrir hann og bætir við að honum þyki á sama tíma miður að krakkarnir í Þingeyjarskóla, Mývatnssveit og Stóru-Tjarnaskóla þekkist lítið miðað við hversu stutt er á milli.

Skaðleg orðræða á landsbyggðinni

Þegar hjúin ákváðu að setjast að í Aðaldal fékk Dóra Kristín að heyra talsverða gagnrýni fyrir það að setjast að úti í sveit. „Það var bara frá fólki sem að þekkir ekki til,“ segir Dóra Kristín en það var fólk sem hún hafði verið í samskiptum við í höfuðborginni eða erlendis frá. „Þeim fannst ég vera að setja starfsvettvang minn og frama á frest“, segir Dóra Kristín undrandi og hálf hneyksluð áður en hún bætir við: „Það voru margir sem bentu mér á að þetta yrði gat í ferilskrána“, segir Dóra Kristín.

Halldóra Kristín er ljósmyndari og fjölmiðlafræðingur og rekur ljósmyndaþjónustu undir vörumerkinu HKB Photography.

Örn tekur undir orð unnustu sinnar og segir að Dóra Kristín sé enn að fá spurningar þess efnis hvort hún geti virkilega unnið hérna. „Við erum bara mjög sátt hérna, okkur líður vel og það gengur allt mjög vel“, segir Dóra.

Orðræðan í litlu samfélögunum út á landi einkennist oft á minnimáttarkennd að sögn Arnar. Það er beinlínis gert ráð fyrir að unga fólkið flytji burt úr þorpunum ætli það sér að ná árangri í lífinu. Það er algengt að halda að grasið sé grænna hinum megin, en þetta er líka svona á Vopnafirði, það eiga allir að fara, þú „meikar“ það ef þú ferð úr dalnum.“

Halldóra Kristín og Iðunn Embla

Örn segir að þau hafi nú búið í Aðaldal í fjögur ár og ekki enn hafa þau náð að láta sér leiðast. „Stundum vildi ég óska þess að við gætum haft tíma til að láta okkur leiðast,“ segir Örn brosandi.

Lífskilyrðin betri í Aðaldal

Það er oft gestkvæmt í Aðaldal en Örn og Dóra Kristín segja að vinir þeirra utan að landi hafi verið dugleg að heimsækja þau í dalinn í gegnum tíðina. Þau lýsa því að það sé sérstök upplifun að skynja heimahagan í gegn um augu annarra, náttúruna og friðsældina. Þá hafi þau áttað sig enn betur á því hversu heppin þau eru í raun og veru. Þá segir Dóra Kristín að þau séu dugleg að senda vinum sínum deiliskipulög og fasteignaauglýsingar, til að lokka þau í sæluna til sín. „Vinum okkar finnst þessi staður vera sælureitur, þau koma og njóta þess að slaka á og eiga góða daga“, segir Dóra og gefur Erni lokaorðið: „Þau sjá að við höfum meiri tíma, minni afborganir og þar af leiðandi meiri pening milli handanna.“