Texti: Egill P. Egilsson


Leikfélag Húsavíkur (LH) frumsýndi á laugardag sl. leikverkið BarPar eftir Jim Cartwright í Samkomuhúsinu. Leikstjórn er í tryggum höndum en það er Vala Fannel sem stýrir töfrunum.

Leikritið gerist, eins og nafnið bendir til, á ónefndri krá eina kvöldstund og fá áhorfendur innsýn í líf hjóna sem eiga krána og nokkurra bargesta sem reka nefið inn þetta kvöld.

Benóný Valur Jakobsson í hlutverki sínu. Mynd: Pétur Jónasson.

Benóný Valur Jakobsson og Jóna Björg Arnardóttir leika hjóni­n sem virðast hata hvort annað – hún daðrar skammlaust við alla gestina og drekkur út gróðann á meðan hann reynir að hafa stjórn á hlutunum. Skrautlegir og óvæntir gestir setja strik í reikninginn og hafa mikil áhrif á þau hjónin.

Frumsýningardagar eru alltaf sérstakir í huga mér,- það að fara á frumsýningu er svo mikil hátíð, maður klæðir sig upp á, verður aðeins skotnari í konunni sinni og lífið verður strax aðeins meira virði.

Ég leit við baksviðs fyrir sýningu til að heilsa aðeins upp á leikara, leikstjóra og aðra aðstandendur, rétt til að sjá hvort taugaveiklun væri nokkuð að gera vart við sig; og til að þykjast taka einhverjar myndir til að festa á spjöld sögunnar. En þær vinna líklega ekki til margra verðlauna frekar en fyrri daginn.

Guðni Braga og Karl Hannes Sigurðsson, baksviðs fyrir frumsýningu. Mynd/epe

Það var heldur ekki mikið um skelfingarsvipi eða veiklaðar taugar. Fólk virtist fullt tilhlökkunar og sumir að koma sér hægt og rólega inn í karakter. Aðspurðir þóttust nú flestir finna fyrir fiðringi, það hætti aldrei.

Verkið fer af stað sem gaman-drama, með nokkrum bráðfyndnum senum en strax í upphafi fær áhorfandinn á tilfinninguna að eitthvað meira sé í vændum. Eitthvað djúpt og sárt. Það tók mig líka smá tíma að venjast látbragðinu en leikritið gerist eins og fyrr segir inni á krá sem mest allan tímann er þétt setinn gestum. Það eru þó aldrei margir leikarar á sviðinu samtímis en þeir eiga gjarna í orðaskiptum við persónur sem aldrei sjást, ímyndaðir gestir ef svo mætti að orði komast og eins er drukkið úr „ósýnilegum“ glösum. Ég bölvaði því aðeins í hljóði að það hafi ekki að minnsta kosti verið bætt við hljóðbrellum til að líkja eftir troðfullum bar. Fljótlega áttaði ég mig þó á því að einfaldleikinn og þessi hráa framreiðsla er ekki til þess gerð að spara örfáa aura. Þessi framsetning neyðir mann til að gaumgæfa persónurnar af dýpt og skynja huldar víddir þeirra. Það er pínu óþægilegt að upplifa sig svona aleinan með persónunni sem talar en til þess er leikurinn gerður. Maður á að skekja sér aðeins til í sætinu, þannig byggist spennan upp á áhrifaríkan og eftirminnilegan hátt.

Karl Hannes Sigurðsson og Karen Erludóttir í hlutverkum sínum. Ljósmynd: Pétur Jónason.

Verkið fjallar þegar á öllu er á botninn hvolft um mannlega bresti, sorgir og tilfinningar sem aldrei fá að komast út úr myrkrinu. Um manneskjurnar sem eru beygðar og bugaðar undan þunga sorga sinna og leita skjóls fyrir þeim á botni bjórglasa og göróttra hanastéla. Þetta tilfinningabrim byggist upp, hægt en mjög örugglega alla sýninguna þar til það brýtur á áhorfendum af fullum þunga í lokasenunni. Varnargarðar koma að litlu gagni og dramatíkin flæðir langt yfir bakka sína.

Ég stalst til að líta í kringum mig í salnum á meðan áhrifaríkasta senan stóð yfir. Það mátti sjá fínar frúr fikta í slæðum sínum og vel þroskaða karlmenn aka sér í sætunum. Hendur þeirra virtust hafa gleymt hlutverki sínu og leituðu ráðvilltar að tilgangi. Þeir klóruðu sér ofan á nefhryggnum og nýttu síðan fyrsta tækifæri sem gafst þegar ljósin dofnuðu lítið eitt til að nudda „rykörðu“ úr augunum.

Það er sannarlega gaman að koma út í kvöldsvalann eftir vel heppnaðan farsa, hífaður af endorfínum hlátursins. Sú víma sem hláturinn framkallar hjálpar manni að gleyma öllum heimsins áhyggjum – veraldlegum og óveraldlegum.

Gott átakanlegt tilfinningadrama eins og LH býður upp á að þessu sinni er ekki minna hughrífandi nema síður sé. Ég að minnsta kosti gekk út í kvöldsvalann að sýningu lokinni örlítið önnur manneskja en sú sem sat í sæti nr. 4 á fjórða bekk. Það var ekki laust við að Samkomuhúsið hafi á þessum tveimur tímum skilað af sér aðeins þroskaðri útgáfu af mér (engar áhyggjur,- það er langt í fullþroskann). Umfram allt minnir þessi sýning áhorfandann á að harmurinn býr innra með okkur öllum, og meira til. Hún neyðir mann til að velta harminum fyrir sér, taka hann jafnvel berskjaldaðan með sér heim og rannsaka hann nánar þegar höfuðið leggst á koddann. Og ég held að það sé einmitt hverri manneskju hollt að rannsaka myrkrið í sjálfri sér með reglulegum hætti, þyrla aðeins upp í tilfinningum sem fullorðinsárin kenna allt of mörgum fela, bæla og reyna að gleyma. Það er einmitt hin ósýnilega togstreita tilfinninganna sem gerir okkur að manneskjum og þegar leikhúsgestir ganga út í húmið með þá vissu í farteskinu, þá getur leikstjórinn verið viss um að vel hafi tekist til. Listaverkið er fullkomnað.

Leikstjóri verksins er Vala Fannell og leikarar eru sjö talsins en hlutverkin fjórtán.

Vala Fannel skilar verkinu óaðfinnanlega frá sér. Mynd/epe

Það hefur verið löng hefð fyrir því í þingeyskum fjölmiðlum að hafa stór orð um sýningar áhugaleikhúsanna á svæðinu og oftar en ekki er fjallað um verk þeirra með gildishlöðnum frösum á borð við „stórkostlegur leiksigur“ og annað í þeim dúr. Það er nefnilega vandasamt fyrir blaðamann á litlum staðbundnum snepli að ætla setjast í dómarasæti og dæma frammistöðu einstakra leikara af fullri hörku. Við erum nefnilega að tala um áhugaleikhús og yfirleitt er hluti leikaranna reynslulitlir á sviði. Yfirleitt eru sýningar áhugaleikhúsa þannig að þeir sem mesta hafa reynsluna beri sýningarnar uppi og svo eru reynsluminni leikarar sem hafa löngun, leikgleði en ekki alltaf fullt vald á listinni. Þessi blanda er mjög einkennandi fyrir áhugaleikhúsið og enginn í minni stöðu hefur mikla löngun til að beita fullri hreinskilni þegar frammistöðu á sviði er ábótavant.

Þess vegna fylgir því alltaf smá kvíði líka að mæta á frumsýningar, vitandi að

Jóna Björg Arnardóttir átti frábæra spretti og óx í takt við spennuna. Mynd: Pétur Jónasson

það þarf að skrifa um sýninguna og maður vill gera það vel og af heilum hug. Hvað ef flestir leikararnir verða nú ömurlegir? Hvað ef sýningin missir gjörsamlega marks?

Í þetta sinn get ég óhræddur fellt dóm af hreinskilni án þess að særa neinn. Í sýningu LH á BarPar er enginn veikur hlekkur, þarna eru allir að gera góða hluti. Benóný Valur Jakobsson hefur áður farið á kostum á fjölum Samkomuhússins en þetta er hans þriðja sýning með LH. Hann fer með hlutverk bareigandans og Jóna Björg Arnardóttir leikur konu hans og meðeiganda. Stígandinn í leik þeirra beggja fylgdi stígandanum verkinu hnífjafnt og í lokasenunni var enginn í vafa,- þau voru manneskjurnar sem þau léku.

Styrkja ♥

Þá er ekki hægt annað en að geta Karls Hannesar Sigurðsson sem kom inn í sýninguna á lokametrunum þegar Friðrik Marínó Friðriksson þurfti frá að hverfa. Aðeins 10 daga hafði Karl Hannes til að læra rullu sína og skila henni á sviðið. Fyrri hluta sýningarinna stelur hann senunni með frábærri túlkun sinn á hinum klaufalega kvensama Moth og eftir hlé kemur hann einnig sterkur í hlutverki hins óörugga og yfirþyrmandi Roy.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir fer á kostum, hér með Sigurði Illugasyni. Ljósmynd: Pétur Jónasson

Ég ætla að halda gamla frasa í heiðri og tala um stórkostlegan leiksigur eftir frammistöðu Kolbrúnar Ödu Gunnarsdóttur en hún fer með þrjú hlutverk í sýningunni. Ég hef séð Kolbrúnu oft áður á sviði en aldrei hef ég séð hana njóta sín jafn vel og í BarPar. Hún fór hamförum í orðsins fyllstu merkingu og hefur augljóslega vaxið í sjálfsöryggi með reynslunni. Sérstaklega sterk var túlkun hennar á gömlu konunni í upphafi sýningar, sem sat hokin og veikluleg úti í horni. Í einræðusenu Kolbrúnar gerði hún einmitt það sem aðeins er á færi þeirra bestu. Hún lét sviðið skreppa saman og gufa upp nema rétt í kringum hana sjálfa. Hún bað ekki um skilyrðislausa athygli leikhúsgesta, hún hrifsaði hana til sín og gerði það áreynslulaust. Í öðrum senum fann maður til vanmáttarkenndar og öfundar að vera ekki risastór og loðinn karlmaður „say no more“. Óaðfinnanleg frammistaða.

Tónlistin er einnig eftirtektarverð en það er Kristján Halldórsson sem semur hana og textana semur hann einnig í slagtogi við Hörð Benónýsson. Hljómsveitin er auðvitað öll góð en þarna er Kiddi Halldórs upp á sitt allra næmasta og hefur aldrei sungið betur. Virkilega góð lög og fábærir textar sem hreyfðu við manni, ég vil fá „soundtrackið“ á plötu takk.

Ég vildi að ég gæti gert öllum þeim sem standa að sýnigunni betri skil en pappírinn er takmarkaður. En óhætt er að segja að hér hafi LH skilað góðu verki af sér, mjög góðu. Og það hlýtur að vera vitnisburður um styrk leikstjórans, Völu Fannel. Mig skortir reyndar fagþekkinguna til að greina ágæti framlags hennar en afraksturinn er góður, það er Vala Fannel sem heldur í tauminn og virðist vita upp á hár hvenær á að gefa slaka og hvenær á að toga af alefli. Þess vegna er útkoman eins og hún er: Óaðfinnanleg! Takk fyrir mig

Einn tveir og… allir í leikhús!

STYRKJA ♥