Greinin birtist fyrst í Víkurblaðinu #10 

Margt smátt gerir eitt stórt – Veldu þér áskriftarleið


Skrifað var undir samstarfssamning á milli Framhaldsskólans á Húsavík (FSH) og íþróttafélagsins Völsungs við formlega athöfn í skólanum í síðustu viku.

Markmið samningsaðila er að bjóða upp á öflugan afreksíþróttaáfanga þar sem sérstaklega er hlúð að iðkendum sem vilja skara fram úr í sinni íþróttagrein. Iðkendur á vegum Völsungs sem jafnframt stunda nám við FSH, geta valið afreksíþróttaáfanga við skólann og fengið hann metinn til eininga.

Iðkendur munu fá verklegar aukaæfingar með þjálfara í sinni sérgrein ásamt fræðsluerindum, kynningum og heimsóknum þar sem mikið verður lagt upp úr lífstíl og hugarfari afreksíþróttafólks.

Samkvæmt samningnum skuldbindur FSH sig til að halda utan um áfangann í áfangakerfi sínu og sjá um skráningar og útvega aðstöðu fyrir fræðsluerindi eftir þörfum.

Völsungur annast þjálfun nemenda í þeim íþróttagreinum er um ræðir, skipuleggur fræðsluerindi, kynningar og heimsóknir. Báðir aðilar skuldbinda sig til að halda hvorum öðrum upplýstum um námsframvindu nemenda.

„Skólinn greiðir Völsungi 50.000,- kr. á mánuði, níu mánuði af starfsári skóla, sem er þá 450.000,- kr. yfir skólaárið. Við erum að gera þennan samning núna til skólaársins 2020 og meiningin er auðvitað að taka þennan samning upp aftur í mars og endurnýja hann með þessu fjárframlagi. Við teljum að þetta skipti gríðarlega miklu máli í þessu samstarfi að það eigi sér stað þessi greiðsla til þess að styrkja þetta starf enn frekar,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari FSH áður en skrifað var undir samninginn.

: Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldskólans á Húsavík og Hallgrímur Jónsson, gjaldkeri og starfandi formaður Völsungs undirrita samninginn. lengst til vinstri er Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs. Lengst til hægri er Halldór Jón Gíslason, aðstoðarskólameistari. mynd: epe

„Það er gerð krafa um að afreksíþróttamenn séu vímulausir og að þeir séu að skila góðum árangri í skólastarfi og við vitum það vel að þeir sem eru í íþróttum þeir eru líka snillingar að skipuleggja tíma sinn. Með því að gera þetta svona opinberlega viljum við fá ykkar þátttöku, að þið séuð viðstödd meðan við undirritum þennan saming, að sjá að þetta sé einnig ykkar vilji að íþróttalíf dafni,“ bætti hún við og talaði sérstaklega til nemenda sinna: „Þið eruð æskan! Þið eruð unga fólkið sem vill sannarlega lifa heilbrigðu lífi. Við erum hérna með heilsueflandi skóla, þið eruð meðvituð um umhverfið, þið viljið að við göngum vel um jörðina okkar og þið eruð fyrirmynd næstu kynslóðar. Við skulum sameinast í því að gera samfélagið okkar betra og skila því af okkur á þann hátt að við getum farið sátt frá því.“

Jónas Halldór Friðriksson var ánægður með samningin þegar blaðamaður Víkurblaðsins náði af honum tali. „Við erum að búa til samstarf á milli skólans og íþróttafélagsins, við erum að búa til íþróttafólk og fleiri iðkendur. Þetta mun nýtast Völsungi gríðarlega vel, og markmiðið er auðvitað að búa til fleiri húsvíska afreksíþróttamenn,“ sagði Jónas og bendir á að það hafi áður verið samstarf á milli Völsungs og FSH. „En nú eru gerðar meiri kröfur og það er alveg skýrt hver á að sjá um hvað. Einnig væri áhugavert að koma á samstarfi líka niður í grunnskóla og ná þá yngri iðkendum,“ segir hann og Valgerður tekur undir með Jónasi um mikilvægi þessa að  þessar þrjár stofnanir grunn- og framhaldsskólarnir ásamt Völsungi taki þessa umræðu saman.

Jónas segist þess fullviss að ávinningurinn af þessu samstarfi sé mikill. „Bæði hefur þetta sterkt forvarnargildi og námsgildi, þeir sem tileinka sér hugarfar afreksíþróttamanna eru líklegri til að standa sig betur í skóla og ég trúi því að þetta hjálpi til við að búa til betri samfélagsþegna.