(Van)hæf?

Hrund Ásgeirsdóttir skrifar:

Hrund Ásgeirsdóttir skrifar:

Í þessari grein vill undirrituð gera grein fyrir upplifun sinni sem snýr að því að vera vikið til hliðar á sveitarstjórnarfundi og meinuð þátttaka í atkvæðagreiðslu um tillögu B lista sem sneri að Brothættum byggðum.

Þátttaka í Brothættum byggðum

Verkefnið Brothættar byggðir (hér eftir nefnt BB) er skv. skilgreiningu Byggðastofnunar ein af aðgerðum Byggðaáætlunar 2014-2017 eins og segir í verkefnislýsingu Brothættra byggða 2.1 (2016) „….til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti og snýr að sértækum aðgerðum á varnarsvæðum. Virk þátttaka íbúa og víðtækt samstarf stjórnkerfis og stoðstofnana er sérstaða verkefnisins sem er ætlað byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun, fækkun atvinnutækifæra og það að atvinnulíf og þjónusta hafa veikst.“

Sveitarfélagið Norðurþing sótti um þátttöku í tilraunaverkefninu BB á Raufarhöfn fyrst allra sveitarfélaga árið 2012 sem hlaut verkefnisheitið Raufarhöfn og framtíðin. Árið 2015 var Öxarfjarðarhérað tekið inn í verkefnið undir heitinu Öxarfjörður í sókn sem átti að ljúka árið 2018 en hefur verið framlengt út árið 2019.

Tillaga B lista

Á sveitarstjórnarfundi þann 19. febrúar sl. voru málefni BB til umræðu þar sem fulltrúar B lista lögðu fram tillögu þess efnis að sveitarstjórn beitti sér fyrir því með markvissari hætti en áður að leggja brothættum byggðum lið, þ.e. Öxarfirði í sókn og Raufarhöfn og framtíðinni. Til grundvallar þeirri tillögu voru markmið verkefnanna sérstaklega tiltekin sem eru m.a. að:

  • Auka viðnámsþrótt brothættra byggðarlaga gegn hnignun svo sem fólksfækkun, skekktri aldursdreifingu og áföllum í atvinnulífi.
  • Stilla saman strengi ríkis, sveitarfélags, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem varða viðkomandi byggðarlag.

Þá skyldu starfsmarkmið Öxarfjarðar í sókn nr 3.4 sérstaklega skoðuð með það fyrir augum að mótuð yrði stefna Norðurþings í verkkaupum m.t.t. fyrirtækja staðsettum í BB sem í flestum tilfellum eru lítil og oft aukabúgrein fyrir þá sem þar búa.

Meinuð þátttaka í atkvæðagreiðslu

Ég er eini fulltrúinn innan sveitarstjórnar sem bý í dreifbýli og mælti fyrir tillögunni þar sem málefni BB brenna á mér. Austan Húsavíkur byggja sveitirnar að miklu leyti á sauðfjárbúskap og ekki þarf að fjölyrða um hvernig sauðfjárbændum almennt reiðir af þessi misserin. Þeir hafa í auknum mæli þurft að sækja sér aukavinnu til að lifa af. Þá hefur svæðið ekki farið varhluta af fólksfækkun undanfarin ár.
Í greinargerð minni var m.a. bent á mismunun sem á sér stað í afgreiðslu mála hjá sveitarfélaginu meðal verktaka, þar sem stundum virðist brýnt að farið sé að lögum og stundum ekki. Í því sambandi var útboð skólaaksturs nefnt og tekin dæmi þar að lútandi þar sem maki undirritaðrar átti í hlut.
Skemmst er frá því að segja að forseti sveitarstjórnar kippti mér til hliðar eftir að hafa flutt erindið og gerði mér grein fyrir því að ég væri á hálum ís og vanhæf í þessu máli þar sem ég tók nærtæk dæmi af maka. Jafnframt var mér bent á það að best væri fyrir mig að lýsa mig vanhæfa við að greiða tillögunni atkvæði. Þar sem ég er enn blaut á bak við eyrun í þessu sveitarstjórnarumhverfi, fór ég samviskusamlega eftir fyrirmælum forseta en fannst ég slegin niður.

Álit lögfræðinga

Í framhaldinu ákvað ég að leita eftir lögfræðilegu áliti tveggja lögfræðinga. Í áliti lögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að tengsl mín við þá hagsmuni þurfi að vera nægilega ríkir til að hægt sé að leiða til vanhæfis. Sömuleiðis kemur þar fram að:

Í fyrsta lagi þurfi að vera hægt að sýna fram á það, hlutrænt séð, að tilteknir hagsmunir sveitarstjórnarmanns séu í reynd fyrir hendi“. Í mínu tilfelli eru engir hagsmunir fyrir hendi þar sem hvorki ég né maki minn sinnum verktöku eða höfum nokkra samninga við sveitarfélagið.

Í öðru lagi þá leiða stjórnmálaskoðanir manna og aðrar lífsskoðanir þeirra sjaldan til vanhæfis á grundvelli laga um sérstakt hæfi í stjórnsýslu. Þetta hefur sérstaka þýðingu á sveitarstjórnarstiginu, þar sem fulltrúar eru iðulega kjörnir til starfa vegna tiltekinna pólitískra stefnumiða og áherslna“.  Eins og áður hefur komið fram er ég eini fulltrúinn innan sveitarstjórnar úr dreifbýlinu sem bý á svæði BB og þau málefni brenna á mér.
Þá segir í áliti lögfræðingsins að: „Í þriðja lagi verða þeir hagsmunir sem um ræðir að teljast sérstakir og verulegir. Almennir hagsmunir sem sveitarstjórnarmaður kann að hafa af niðurstöðu máls leiða því ekki til vanhæfis“. Ennfremur að „Málfrelsi á fundum, er eitt af grundvallarréttindum sveitarstjórnarmannsins. Það er því ekki tilefni til þess að takmarka það nema sveitarstjórnarfulltrúi fari fram úr sjálfum sér gagnvart fundarsköpum og velsæmi“.

Í áliti frá öðrum lögfræðingi kemur fram að tillagan sneri ekki að tilboði makans, heldur BB og stefnu um verktöku almennt, þótt tilboð makans hafi verið tekið sem dæmi. Mögulega hefði verið hægt að horfa á þetta þannig að ég eða nákomnir hafi hagsmuni af því að setja viðmið um verktöku m.t.t. heimaaðila almennt og ef til vill það sem meirihlutinn og forseti sveitarstjórnar var að hugsa? Það væri þó frekar langsótt þar sem slík hugsun myndi gera ansi marga vanhæfa við að fjalla um málið, þ.e.a.s ef vanhæfir væru allir þeir sem byggju við Öxarfjörð eða á Raufarhöfn og gætu mögulega gert tilboð í verktöku. Samkvæmt þessu var ég þá trúlega jafn vanhæf og forseti sveitarstjórnar ef hann mælti fyrir aukinni uppbyggingu í ferðaþjónustu á Húsavík þar sem hann á sjálfur hagsmuna að gæta.

Verkslagsreglur sveitarstjórnar

Ef sveitarstjórn telur vafa leika á hæfi kjörins fulltrúa til að taka þátt í atkvæðagreiðslu, skal það koma í hlut hennar að taka ákvörðun um hæfi fulltrúans til meðferðar og afgreiðslu einstakra mála. Þá er sveitarstjórnarmanni heimilt að taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Ef til vill erum við á þeim stað að þurfa að fá einhvern utanaðkomandi til að útlista verklagsreglur um hæfi en ég hélt að við hefðum það marga reynslubolta innanborðs í sveitarstjórn að þessir hlutir væru á hreinu. Mér þykir miður að hafa lent í þessu atviki þar sem ætlun mín var ekki að skara eld að eigin köku. Mér finnst það í mínum verkahring að tala fyrir svæðum BB enda ber ég, sem og aðrir sveitarstjórnarfulltrúar, ábyrgð á því að þessu verkefni farnist sem best. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir verkefnum brothættra byggða í þeirri von að snúa þróuninni við en það er ærið verkefni.

Hrund Ásgeirsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi B lista