„Vatnajökulsþjóðgarður er og hefur alltaf verið landsbyggðarstofnun“

Mynd: @vanessa.ethier via Twenty20

Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs (SJÞ) fundaði á þriðjudag sl. en þar á sæti Óli Halldórsson fyrir hönd Norðurþings. Hann er jafnframt formaður svæðisráðs norðursvæðis.

Á fundinum var tekin til umræðu bókun frá Óla um stefnumörkun er varðar uppbyggingu starfa þjóðgarðsins. Stjórn samþykkti þessa nálgun samhljóða eftir umræður.

„Fyrir liggur að efla þarf miðlæga og faglega starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs á næstu misserum m.a. með ráðningu nýs starfsfólks eftir því sem fjárhagur leyfir. Með vísan til lögbundinna markmiða Vatnajökulsþjóðgarðs um styrkingu byggðar í nágrenni þjóðgarðsins telur stjórn brýnt að uppbygging miðlægrar starfsemi þjóðgarðsins verði til eflingar starfsstöðva og faglegrar starfsemi í byggðum landsins.

Stjórn samþykkir í þessu ljósi eftirfarandi stefnumörkun um uppbyggingu starfsemi og starfsstöðva þjóðgarðsins:

“Störfum hjá Vatnajökulsþjóðgarði sem ekki eru háð svæðisbundnum verkefnum (sbr. þjóðgarðsverðir og landverðir tiltekinna svæða) verði sinnt frá einhverri af lögbundnum meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins á landsbyggðinni; í Ásbyrgi, Mývatnssveit, á Skriðuklaustri/Fellabæ, Höfn í Hornafirði, Skaftafelli eða Kirkjubæjarklaustri. Auglýsingar til starfa verði þannig útfærðar með þessum hætti án staðsetningar en innan þessa ramma. Eftir þessari stefnu skuli unnið við allar ráðningar í störf frá samþykkt þessari nema til komi sérstök ákvörðun stjórnar þar um. Stefnan verði tekin upp í stjórn og endurskoðuð ef einstök svæðisráð telja tilefni til. Ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á ráðningarforsendur starfsmanna sem þegar hafa verið ráðnir til starfa á skrifstofu þjóðgarðsins í Garðabæ,“ segir í bókuninni.

Í samtali við Víkurblaðið segir Óli að þarna hafi verið tekin mjög mikilvæg stefnumarkandi ákvörðun. „Vatnajökulsþjóðgarður er, og hefur alltaf verið landsbyggðarstofnun. Þjóðgarðurinn, eins og allir okkar þjóðgarðar, er staðsettur í byggðum,  og reyndar líka óbyggðum, landsins en ekki í höfuðborginni. Því finnst mér alveg sjálfsagt að miðlæg störf sem þessari starfsemi fylgja verði staðsett úti á nærsvæðum þjóðgarðsins og styðji þannig við byggð og þau samfélög sem standa næst,“ segir hann og  bætir við að til þessa hafi miðlæg starfsemi verið í lágmarki.

„Nú hyllir undir að hægt verði að efla hana með ráðningu starfsfólks. Það eru þá þessi störf sem verið er að marka stefnu um að muni dreifast út á starfsstöðvarnar víða um land, og munu þá koma til viðbótar þeim svæðisbundnu störfum sem nú þegar eru á starfsstöðvunum, þ.e. þjóðgarðsvörðum og landvörðum.“