Veggir og brýr

Óli Halldórsson skrifar

Undanfarið hefur Stefán Guðmundsson farið mikinn í staðbundinni umræðuhringiðunni á Húsavík.  Eftir hann liggja blaðagreinar, fjölmiðlaviðtöl auk þess sem hann hefur verið iðinn við að tjá sig í hinum ýmsu kimum samfélagsmiðlanna. Sömuleiðis hefur hann lagt fram erindi og kærur til opinberra yfirvalda, bæði í héraði og á landsvísu. Tilgangur Stefáns í allri þessari tjáningu virðist fyrst og fremst vera að greina frá þeirri upplifun að hvarvetna sem hann stígur fram reki hann sig á veggi.  Stefán hefur ekki hikað við að nafngreina undirritaðan sem hluta af slíkri samsærisheild (reyndar miklu fleiri líka) og skilja þannig eftir tortryggni sem fóðrar dylgjur. Vitaskuld án röksemda.  Aðrir sem Stefán beinir sjónum að verða að svara fyrir sig en þetta er að sjálfsögðu tilefni þessara skrifa að minni hálfu.

Sveitarstjórnarfólkið

Í skrifum á veraldarvefnum og í fjölmiðlum vandar Stefán ekki sveitarstjórnarfólki kveðjurnar. Svo virðist sem hann hallist að því að á vettvangi sveitarstjórna, einkum auðvitað Norðurþings, komi fólk saman til þess eins að mynda samsæri um að valda honum eða fyrirtæki hans sem allra mestum skaða. Í nýlegri blaðagrein í Víkurblaðinu skrifar Stefán m.a. orðrétt:  „…kjörnir fulltrúar sem virðast tilbúnir að höggva í okkur í Gentle Giants linnulaust.“ „… á undanförnum 17 árum hefur reynst erfitt að glíma við sveitarstjórnir hvers tíma…“. 

Byggingarfulltrúinn

Stefán hefur upplifað sig heldur seinheppinn í samskiptum við embættismenn Norðurþings, ekki síst byggingarfulltrúann. Í sömu blaðagrein sinni segir hann orðrétt: „…skipulags- & byggingarfulltrúinn hefur verið á bakinu á undirrituðum þau 17 ár sem hann hefur staðið í uppbyggingu GG.“  Stefán dregur fram ýmiss konar sögur og klögumál í texta og myndum. Hann virðist þó alveg hafa gleymt að vitna í dóm úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í því máli sem varð tilefni síðustu skrifa hans, þ.e. um vegghleðslu við hús á miðri Hafnarstéttinni á Húsavík sem Norðurþing seldi honum.  Í úrskurðinum er fjallað um þessi sömu klögumál:  „Ekki verður séð að rannsókn málsins hafi verið áfátt af hálfu byggingarfulltrúa eða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda við meðferð þess, enda var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem og hann gerði. Þá verður heldur ekki fallist á að rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hafi verið áfátt eða að ekki hafi verið gætt meðalhófs, þegar höfð er hliðsjón af málsatvikum.“  [http://www.uua.is/?c=verdic&id=1698 – Lesendur eru hvattir til að lesa úrskurðinn allan]

Sveitarstjórarnir

Stefán virðist með framgöngu sinni síðustu mánuði gefa sveitarstjórum Norðurþings sérstakan gaum. Sveitarstjórarnir eru jú ábyrgir fyrir starfsmannahaldi og framkvæmd ákvarðana sveitarstjórna og Stefán virðist upplifa að ekki hafi þetta nú gengið vel öll þessi ár við uppbyggingu fyrirtækis hans. Þeir fá því skömm í hattinn. Og auðvitað núverandi sveitarstjóri ekki síst, fyrir öll þau meintu ósanngirnisverk sem Norðurþing hefur unnið gagnvart Stefáni allra síðustu ár þessarar meintu 17 ára þrautagöngu. Í fyrrgreindum dómi úrskurðarnefndarinnar segir þetta um síðustu málsmeðferð Norðurþings:  „Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinna kærðu ákvarðana sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu þess efnis því hafnað.“

Samsærið

Í umræðu sinni hefur Stefáni orðið tíðrætt um  einhvers konar vina- og fjölskyldubandalög eða pólitíska hópa sem hafi þau meginmarkmið að leggja stein í götu hans. Rétt eins og byggingarfulltrúinn, sveitarstjóri hvers tíma, svo ekki sé minnst á sveitarstjórnarfólkið síðustu 17 ár. Hvað sjálfan mig varðar vil ég vísa til föðurhúsa í eitt skipti fyrir öll þessu órökstudda og ofsóknarkennda samsærisrausi um að einhverjir pólitískir eða persónulegir hópar komi saman með það að markmiði öðru fremur að „höggva í“ Stefán Guðmundsson.  Ágætt er það lífsheilræði að staldra aðeins við og líta í eigin barm þegar maður er orðinn sannfærður um að nær allir í kring séu orðnir fávitar.

Veggir eða brýr?

Að öllu framansögðu vil ég taka sérstaklega fram að ég kveinka mér að engu leyti undan umbúðalausri gagnrýni og karpi frá körlum eins og Stefáni Guðmundssyni þegar slíkt er borið fram með eðlilegum og sæmilega málefnalegum hætti. Og seint myndi ég halda því fram að gjörðir sveitarfélaga eða sveitarstjórnarfólks séu hafnar yfir gagnrýni. Svona framganga sem byggir á rangfærslum og óljósum samsæriskenningum hefur hins vegar ekkert með eðlilega rökræðu og gagnrýni að gera og hjálpar engum, allra síst málshefjanda.  Vandi Stefáns Guðmundssonar er alls ekki sá að illa þenkjandi fólk úr öllum áttum hafi gert samsæri um að reisa veggi í kringum hann til þess eins að láta hann rekast á þá. Stefán hefur sjálfur verið fullfær um að byggja þá veggi sem virðast svo auðveldlega rísa í kringum hann.  Kannski ætti Stefán að beina kröftum sínum í auknum mæli að því að byggja brýr en ekki veggi?

Starfsfólki Gentle Giants, að Stefáni Guðmundssyni meðtöldum, óska ég alls hins besta. Gentle Giants hefur, þrátt fyrir allt, byggst upp rösklega undanfarin ár og hefur m.a. auðnast það í samstarfi við skipulagsyfirvöld að ná að koma sér fyrir á lóðum og í fasteignum á bestu stöðum við Húsavíkurhöfn. Að því er virðist með afskaplega góðum árangri. Það væri mikil farsæld fyrir Norðurþing ef áfram tekst að byggja upp og reka þessa öflugu starfsemi, með öllu því góða fólki sem þar starfar. En það þarf að gera með sömu lögum og reglum og við hin þurfum að búa við.  Og við verðum að koma okkur saman um mörk sem leyfa ekki samskiptamáta af þessu tagi. Þessum dylgjum og niðurrífandi samskiptum á opinberum vettvangi þarf að linna, þó ekki væri nema til að hvíla samfélag sem þarf á uppbyggingu og hvatningu að halda á þeirri neikvæðnisbylgju sem svona karpi fylgir. Tímann og orkuna sem sparast getum við notað í uppbyggilega og jákvæða hluti. Nóg er af þeim.

Undirritaður mun ekki taka þátt í frekari skrifum um þessi mál.

Óli Halldórsson

Er í leyfi frá sveitarstjórnarstörfum þegar þetta er skrifað og talar því fyrir eigin hönd.