Sjálfboðaliðar á vegum Veraldarvina sem koma til Íslands  á sumri hverju til að vinna að ýmsum verkefnum, gefa Langnesingum bestu einkunn þeirra sveitarfélaga sem þeir sækja heim.

Gefin er einkunn og fær Langanesbyggð 9,16 af 10 mögulegum og góða umögn. Auk sérstæðrar náttúru á Langanesi þykja viðtökur starfsfólks sveitarfélagsins vera framúrskarandi.

Alls komu 42 sjálfboðaliðar til Langaness á síðasta ári á vegum samtakanna Veraldarvina (World Wide Friends á Íslandi) sem skipuleggja þessar ferðir. Er þetta fólk úr því sem næst öllum heimshlutum sem kemur til að vinna ásamt því að blanda geði við land og þjóð

„Þau koma til okkar og vinna ýmis verkefni sem gagnast samfélaginu. Þetta getur verið t.d. að hreinsa fjörur og slíkt. Við komum svona líka dásamlega út úr þessu núna sem segir okkur að um leið og þau lögðu helling til samfélagsins þá náðum við líka að sinna þessu ágæta fólki þannig að þau urðu ánægð með okkur. Við fórum með þau á sjóinn og sýndum þeim Langanes og fleira. Þetta hefur skilað sér,“ segir Elías Pétursson, sveitarstjóri í samtali við Víkurblaðið. „Við höfum  gert þetta á hverju ári að bjóða þessum sjálfboðaliðum til okkar. Þetta er fyrst og fremst ánægjulegt og gaman  að fá nýtt blóð inn í samfélagið,“ segir hann.