Ágæt mæting var á fundi sem Húsavíkurstofa boðaði til fyrir skemmstu. Tilgangur fundarins var að kynna starf forstöðumanns sem auglýst hefur verið laust til umsóknar. Ræddu fundargestir tilgang og væntingar til starfsins en forstöðumanni er ætlað að stuðla að öflugri markaðsetningu fyrir svæði þar sem áhersla er lögð á Húsavík sem áfangastað ferðamanna.

Valdimar Halldórsson framkvæmdastjóri Norðursiglingar og stjórnarmaður ISAVIA var á fundinum. Hann vonast til þess að markaðsstjóri geti komið Húsavík betur á kortið hjá ferðamönnum en einnig hjá ferðaskrifstofum sem skipuleggja ferðir. Hann sér fyrir sér tækifæri til aukinnar markaðsetningar í sambandi við komur skemmtiferðaskipa og leggur áherslu á að kynna betur þau vörumerki sem svæðið á. Hann nefnir Húsavík Whale Capital of Iceland (e. Húsavík, hvalahöfuðborg Íslands) og The Diamond Circle (e. Demantshringurinn). „Ég vil sjá að við förum að nota þessi vörumerki meira,“ segir hann.

Valdimar Halldórsson
Valdimar Halldórsson, stórnarmaður ISAVIA

Samgöngubætur lykilatriði

Valdimar fagnar þeim samgöngubótum sem orðið hafa í Þingeyjarsýslum og nefnir Vaðlaheiðargöng sérstaklega. „Nú er líka kominn góður vegur að Dettifossi og vonandi innan skamms fáum við þennan margumtalaða Dettifossveg kláraðan.“

Valdimar segir styrkleika svæðisins marga, bæði hvað varðar náttúru og afþreyingu. „Við búum líka vel að nálægðinni við Akureyri en þar hefur millilandaflug verið að byggjast hægt og rólega upp,“ segir hann en bendir á að galli sé að allt innanlandsflug fari í gegnum Reykjavíkurflugvöll. „Það færi betur að það færi allt í gegnum Keflavíkurflugvöll. Ég tel betra að innanlandsflugið flytjist þangað svo erlendir ferðamenn geti bókað sig alla leið út á land, hvort sem er á Egilsstaði, Akureyri eða Húsavík.“

Valdimar bendir einnig á að samsetning á ferðamönnum eftir þjóðernum sem heimsækja Ísland hafi verið óhagstæðari undan farin ár. „Annars vegar hefur Mið-Evrópubúum verið að fækka síðustu ár en Bandaríkjamönnum verið að fjölga hins vegar. Bandarískir ferðamenn staldra að meðaltali skemur við á Íslandi en vonandi breytist það með veikara gengi,“ segir Valdimar Halldórsson.

       Greinin birtist fyrst í 2. tbl. Víkurblaðsins