Framkvæmdir ganga vel við byggingu nýs leikskóla í Langanesbyggð að sögn Elíasar Péturssonar sveitarstjóra og eru á áætlun. Uppsetning veggja og innréttinga er langt komin og málningarvinna mun hefjast fljótlega. „Það er stefnt á að leikskólinn verði opnaður í maí,“ segir hann og bætir við að um mjög stóra framkvæmd sé að ræða á mælikvarða sveitarfélagsins. „Þetta er 200-230 milljón króna framkvæmd þegar allt er talið.“

Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti nýverið  að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 100.000.000.- með lokagjalddaga þann 5. október 2034, í samræmi við lánstilboð. Lánið er tekið til fjármögnunar á byggingu ofangreinds leikskóla sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu að sögn Elíasar.

Viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins

Elías segir að nú þegar sé búið að framkvæma talsvert fyrir eigið fé sveitarfélagsins. „Það er mikil breyting á því sem verið hefur áður hjá sveitarfélagin en viðvarandi taprekstur var á rekstrinum fyrir nokkrum árum. Við höfum náð á síðustu fjórum árum að snúa rekstrinum yfir í það að við framkvæmdum fyrir 100 milljónir og tókum það bara út af heftinu. Það er eiginlega ævintýralegur árangur,“ útskýrir Elías en viðurkennir að ástæður viðsnúningsins megi einnig finna í ytri aðstæðum. „Almennt ástand í þjóðfélaginu, launahækkanir og fleira hefur verið að hækka hjá okkur útsvarstekjur og við höfum fengið meira út úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á sama tíma höfum við náð að halda rekstrarkostnaði niðri þrátt fyrir launahækkanir. Það er búið að taka hart á fjármálum sveitarfélagsins þó ég dragi ekki dul á að það hefur ýmislegt fallið með okkur.“

Kallar eftir samstarfi í sorpmálum

Sorpmál hafa talsvert verið í umræðunni í Þingeyjarsýslum undanfarin ár ekki síst eftir að sorpbrennsla lagðist af. Íslenska Gámafélagið sér um sorphirðu í Norðurþingi og hefur gert frá júní 2015.  Við flokkun sorps frá fyrirtækjum og heimilum í stórum hluta Norðurþings er notast við 3ja tunnu kerfi við flokkun. Elías kallar eftir því að sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum vinni betur saman í þessum málaflokki. „Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að efla samstarf á sviði sorpmála. Þessi liður er bæði að kosta okkur allt of mikið og ég vil meina að við gætum leyst þetta með hagkvæmari hætti ef við horfum til lausna sem við gætum komið okkur upp á svæðinu í stað þess að keyra sorpið um landið þvert og endilangt til urðunar. Ég veit að Norðurþing og Eyþing hafa skoðað þessi mál, en það er mikilvægt að finna einhverja skynsama lausn sem gagnast okkur þessum dreifðu litlu samfélögum. Og vel að merkja Húsavík er ekkert stórt samfélag á landsvísu,“ segir Elías.