Víkurblaðið mælir með hamingju

Ritstjórapistill

Mynd: @tog_photog via Twenty20

Ritstjórapistill

Egill P. Egilsson


Egill P. Egilsson. Mynd/ Baldur Starri

Menning og nýsköpun eru hugtök sem eru Víkurblaðinu hugleikin enda er það eitt af markmiðum fjölmiðilsins að gefa hvoru tveggja hljómgrunn og jákvæða umfjöllun sem og um atvinnumál almennt. Það er allra hagur að samfélögin sem við búum í séu fjölbreytt þegar kemur að valkostum fyrir atvinnu, afþreyingu og listir.

Víkurblaðið mælir ekki hagvöxt í framleiðsluaukningu eingöngu heldur í hamingju íbúanna. Þess vegna er það svo mikilvægt öllum samfélögum að hafa stofnanir og yfirvöld sem leggja sig fram við að allir íbúar þess fái sanngjarna möguleika til að blómstra; að allir hafi möguleika til að finna sinn vettvang og fái aðstoð við að koma góðum hugmyndum í framkvæmd. Þegar slíkur hvati er til staðar auðgum við samfélagið; það verður til þekking og reynsla sem ekki var áður til en ekki síður sjálfstraust og heilbrigðari sjálfsmynd íbúanna; sem einstaklinga og sem heildar. Samverund verður að áþreifanlegu afli sem knýr samfélagið áfram í átt að betri framtíð fyrir alla.

Því fleiri frumkvöðlar í listum og atvinnulífi sem samfélagið kemur á legg, því stoltari verðum við hin af samfélaginu okkar. Kjarkurinn og áræðnin er smitandi þegar við verðum vitni að velgengni annarra, hamingjan stækkar öllum í hag.

Uppbyggingasjóður Norðurlands eystra er eitt af þessum verkfærum sem ríki, sveitarfélögin- og atvinnuþróunarfélögin á svæðinu standa að og úthluta úr árlega.

Hvað er Eyþing? Sjá hér

„Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála. Samningurinn er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019,“ segir á vef Eyþings um sjóðinn.

Föstudaginn 8. febrúar, var 80 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings. Víkurblaðið mun fjalla um hvert og eitt verkefni sem hefur tengingu við Þingeyjarsýslur í næstu tölublöðum og verður fyrsta verkefnið tekið fyrir í Víkurblaði #7 sem kemur út á fimmtudag í næstu viku.

„Uppbyggingarsjóði bárust samtals 132 umsóknir, þar af 50 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar.

Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 78 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 80 mkr. Samtals var sótt um tæpar 308 mkr,“ út tilkynningunni á vef Eyþings.


Þeir sem búa utan Þingeyska efnahagssvæðisins en óska engu að síður eftir því að fá blaðið sent heim geta pantað áskrift fyrir litlar 1890,- kr. á mánuði.

Sendið tölvupóst á vikurbladid@vikurbladid.is eða smellið hér

Sími: 843-6583